24.02.1936
Neðri deild: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í C-deild Alþingistíðinda. (2339)

23. mál, eignarnámsheimild á Reykhólum

Flm. (Sigurður Einarsson):

Hér er farið fram á, að ríkisstj. verði heimilað að taka eignarnámi jörðina Reykhóla í Barðastrandarsýslu ásamt öllum hlunnindum, sem henni fylgja og eru mikil. — Um þessa jörð er það öllum kunnugt, sem eru staðkunnugir þarna vestur frá, að hún hefir frá fornu fari verið eitthvert hið mesta höfuðból við allan Breiðafjörð. Hún hefir það fram yfir flestar jarðir á Vesturlandi, að þar er nægur jarðhiti til hvers, sem vera skal, en vestanlands er einmitt mjög lítið um jarðhita.

Þessi jörð hefir sætt þeim dapurlegu örlögum, að eigendur hennar hafa ekki, ýmsra orsaka vegna, haft ástæðu til að sitja hana sjálfir. Hún hefir verið í leiguábúðum, sem flestar hafa verið skammvinnar, og jörðin svo dýr að fasteignamati, að þess vegna hefir hún verið leigð svo dýrt, að flestum leiguliðum hefir orðið ofviða að sitja jörðina og nytja hana eins og þörf er á. Þetta gerir það að verkum, að hreppsfélaginu hefir ekki orðið sú stoð að búskap á Reykhólum sem annars mætti vera. En hvernig sem menn kunna að líta á það að taka jörðina eignarnámi, þá er það í sjálfu sér augljóst mál, að jörðin með öllum sínum miklu hlunnindum væri betur komin í eigu ríkisins. M. a. sé ég ekki fram á, jafnvel þó að ekki yrði breytt um búnaðarhætti, að í náinni framtíð verði búið viðunanlega á Reykhólum, nema því aðeins, að jörðin verði í eigu þess opinbera. Yrði með því ábúðin tryggari og hresst upp á hús þar, sem kalla má, að séu nú ónothæf með öllu.

Ég tel, að það liggi opið fyrir að setja niður á Reykhólum margháttaða starfsemi í þágu hins opinbera, fremur en víða annarsstaðar. Eins og kunnugt er, hefir mjög verið um það rætt að koma upp heimilum fyrir vandræðabörn, og einkum fyrir vandræðadrengi, sem hér í bæ og í öðrum bæjum fást ekki til að lifa þannig, að þeir komist ekki í bága við guðs og manna lög. Sú aðferð hefir reynzt bezt við slíka drengi að fá þeim nóg viðfangsefni í hæfilegu fámenni úti í náttúrunni og veita þeim fræðslu samhliða. Hygg ég vandfundinn heppilegri stað fyrir slíkt heimili en einmitt þennan stað.

Ég hefi einnig bent á, að ef skriður kæmist á um framkvæmd þeirrar hugmyndar, að stofnaðar verði samvinnubyggðir hér á landi, sem ég vona, að verði og að að því verði horfið víðar en 3 Suðurlandi að reisa þær, þá mun varla verða fundinn sá staður vestanlands, sem heppilegri yrði tli þess. Ræktunarskilyrði eru þarna geysimikil og eyjagagn ákaflega mikið, eða var a. m. k. á meðan mannafli var nógur á staðnum til þess að sinna um það eins og þarf.

Nú stendur að vísu í frv., að ríkisstj. eigi að vera heimilt að taka þessa jörð eignarnámi. En ég gæti ákaflega vel sætt mig við, að í frv. stæði, að ríkisstj. sé heimilt að „kaupa eða taka eignarnámi“ o. s. frv. Mér er kunnugt um, að þessi jörð liggur nú laus fyrir til kaups. Aðalatriðið í mínum augum í þessu máli er, að jörðin komist í eigu þess opinbera, með það fyrir augum, að unnt verði að nota hana eins og landkostir hennar leyfa, til þess að gera úr henni stað, sem geti orðið hlutaðeigandi héraði til uppbyggingar, en ekki niðurdreps, eins og nú er.

Ég vil svo að lokum leggja til, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn., sem ég tel, að þetta frv. eigi einna helzt heima í, þó að sjálfsagt gæti komið til mála að vísa því til allshn. En sem sagt legg ég til, að frv. verði vísað til landbn., og vil skjóta því til hv. nm., að ég hefi ekki hið minnsta út á það að setja, að sú breyt. verði á frv. gerð, sem ég lýsti áðan, ekki sízt ef eigendur jarðarinnar sætt sig betur við það, að eigendaskiptin yrðu með þeim hætti.

Et það hefir verið happaráðstöfun, að Reykjatorfan í Ölfusi var gerð að ríkiseign — og um það hygg ég, að enginn efist —, þá yrði það nákvæmlega samskonar happaráðstöfun, að Reykhólar yrðu eign hins opinbera. Og þó að það komi ekki þessu máli við, eru það fleiri svæði, sem sjálfsagt er mjög öfugt, að ekki skuli vera opinber eign. Það er t. d. lítil jörð hér austur í Þingvallasveit, Nesjavellir, sem ætti að verða opinber eign, vegna hins mikla jarðhita, sem þar er. Sama er að segja um Hengilinn. Ég er þeirrar skoðunar, að hið opinbera ætti að eignast slíka staði hið allra bráðasta.