24.02.1936
Neðri deild: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í C-deild Alþingistíðinda. (2340)

23. mál, eignarnámsheimild á Reykhólum

*Bergur Jónsson:

Ég veit nú ekki, hvaða hvatir liggja á bak við flutning þessa frv. hjá hv. flm. Ég hefi aldrei vitað til þess, að hlaupið hafi verið til og fyrirskipað eignarnám á jörð, sem nýlega er komin í eign dánarbús. Ég hefi verið skiptaráðandi í því búi, sem hefir haft með þessa jörð að gera, og hefi því nokkra ástæðu til að tala um þetta mál. Í öðru lagi er ég þm. þess kjördæmis, sem jörðin liggur í. En ég veit ekki til, að þessum hv. þm., sem flaut inn í þingið aðallega á atkv. Norður-Ísfirðinga, komi þetta mál nokkurn skapaðan hlut við. Það getur vel verið, að eitthvað sé til í því hjá honum, að ástæða sé til þess, að Reykhólar verði opinber eign. En ég hefi ekki enn séð ástæðurnar til þess, að það sé þar fyrir frekar rétt að beita þeirri harðýðgi við þá erfingja, sem hér eiga hlut að máli, enda þótt margir séu, að taka þessa eign þeirra, sem er hin ein, eign dánarbús þess, sem jörðina á, eignarnámi, frekar en annarsstaðar, fyrr en búið er að rannsaka það til hlítar, hvort slíkt sé nauðsynlegt.

Húsameistari ríkisins spurði mig um það í fyrra, hvort Reykhólar væru ekki sérstaklega vel fallnir til kartöfluræktunar vegna þess mikla jarðhita, sem þar er. Ég geri ráð fyrir, að svo sé, og sömuleiðis til ræktunar annara garðávaxta. Jörðin er einnig höfuðból frá fornu fari og geysimikil jörð. En þetta allt út af fyrir sig er ekki nægilegt til þess að réttlæta það að fara nú að hlaupa til og taka jörðina eignarnámi og of þeim mönnum, sem þarna eiga hagsmuna að gæta, og það án undangenginnar rannsóknar á því, hvort slíkt er nauðsynlegt. Það liggur við, að maður spyrji: Hvers eiga eigendur jarðarinnar að gjalda? Því að ég tel, að hér sé stefnt að því að beita þá dálítilli harðýðgi.

Til þess að taka megi jarðir eða landssvæði eignarnámi og leggja undir ríkið eftir l. nr. 61 frá 14. nóv. 1917, verða að liggja alveg sérstakar knýjandi ástæður samkv. ákvæðum stjskr. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa þau. Í 62. gr. stjskr. stendur:

„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji; þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

Þessar sérstöku ástæður, sem þurfa að vera til staðar, til þess að eignarnám megi fara fram, er ekki neitt minnzt á í frv. eða grg. þess, af þeirri ástæðu, að rannsókn hefir ekki leitt í ljós, að þær séu fyrir hendi, því að málið er sem sagt órannsakað. Þetta frv. er því eitt af því marga, sem sýnir framhleypni og fljótfærni þess hv. uppbótarþm., sem flytur þetta frv.

Það er alveg satt, að Reykhólar eru falleg jörð. Þar er fagurt í góðu veðri. Þar eru og mikil hlunnindi og jarðhiti o. s. frv. En slíkt hið sama má segja um jarðir víða á landinu. Og þó þjóta ekki þingmenn — og sízt af öllu uppbótarþingmenn — af stað til þess að koma með frv. um, að þær skuli heimilt að taka eignarnámi, bara vegna þess, að þar er um að ræða góða hluti, sem gott sé fyrir ríkissjóð að eignast. Þó að samband sé á milli Framsfl. og jafnaðarmanna, þá er stjórnarfarið ekki ennþá orðið svo hér á landi, að það sé tilætlunin að svæla undir ríkið allar beztu fasteignir í landinu alveg rannsóknarlaust, eins og hér er meiningin að gera.

Það, sem hv. flm. segir í grg. frv. um kosti Reykhóla, er allt rétt. En ókost hefir þessi jörð eigi að síður þann, að henni er dálítið illa í sveit komið. Jörðin er talsvert út úr, og þangað eru vondar samgöngur á sjó. Reykhólar eru mjög innarlega við Breiðafjörð og stór skerjagarður er þar fram undan, svo að illt er fyrir skip að komast þangað. Það stendur alltaf í stríði um að fá skipin til að koma þangað inn eftir. Laxfoss kom eitthvað 4 sinnum til Króksfjarðarness á síðasta ári. Ég veit ekki, hvernig það verður í ár með komur hans þangað. En skipaferðir um Reykhóla eru mjög fátíðar.

Ég hefi hugsað mér út af þessu frv. að koma með annað frv., þar sem ríkisstj. væri heimilað ef um semdi við eigendur jarðarinnar, sem eru erfingjar Þóreyjar sál. Pálsdóttur, og að undangenginni rannsókn, að kaupa þessa jörð fyrir hönd ríkissjóðs, ef rannsókn leiddi það í ljós, að jörðin væri sérstaklega vel fallin til þeirra hluta, sem æskilegt væri, að hið opinbera framkvæmdi þar. Og ef rannsókn leiddi í ljós nauðsyn á, að ríkið eignaðist jörðina, þá væri náttúrlega ekkert á móti því í slíku nauðsynjartilfelli að grípa til eignarnáms. — En sem sagt, þetta frv. ber á sér öll merki hinnar vanalegu fljótfærni og framhleypni þessa hv. þm.