24.02.1936
Neðri deild: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (2342)

23. mál, eignarnámsheimild á Reykhólum

Páll Zóphóníasson:

Það hefir komið fram till. um, að þessu máli verði, að lokinni þessari umr., vísað til landbn., sem ég á sæti í. Í tilefni af því langar mig til að fá nokkrar upplýsingar, helzt við þessa umr.

Mér hefir skilizt, að í okkar l. sé svo ákveðið, að til þess að réttlætanlegt sé að taka jarðir eignarnámi þurfi að vera til staðar sérstök almenn þörf, sem réttlæti það, að eignarrétturinn sé tekinn af eigendum einhverrar eignar, sem leggja skal undir það opinbera. Nú hefi ég að vísu heyrt það frá hv. flm., að hann telji þessa jörð heppilega til þess að reisa á henni heimili fyrir vandræðabörn og að í landi hennar sé jarðhiti, sem einhverntíma í framtíð megi nota. En mér hefir skilizt, að hvorugt þetta mál lægi þannig fyrir, að það ætti að fara að framkvæma þessi mannvirki eða stofnanir nú, þannig að hægt sé að réttlæta það út frá því, að hið opinbera tæki jörðina eignarnámi.

Sem sagt, það, sem mig langar til að fá upplýsingar um, er, hvaða almenningsþörf krefji það, að jörð þessi verði nú þegar tekin eignarnámi. Hinsvegar er ég hv. þm. sammála um, að gott væri, að ríkið eignaðist Reykhóla með samkomulagi við eigendur jarðarinnar um kaup á henni. — Og að endingu: Ef almenningsþörf krefur, að ríkið eignist þessa jörð, og þá e. t. v. með eignarnámi, hver er þá þessi almenningsþörf ?