27.02.1936
Neðri deild: 10. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í C-deild Alþingistíðinda. (2366)

39. mál, kaup á Bíldudalseign

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er í rauninni afturganga annars, sem hér var á ferðinni fyrir nokkrum dögum. Nú kemur hv. þm. Barð. fram með frv. um að veita ríkisstj. heimild til þess að kaupa eign, sem hann er sammála hv. 9. landsk. um, að hið opinbera verði undir öllum kringumstæðum að eignast. Á dögunum var reyndar verið að ræða aðallega um aðra eign, sem kaupa skyldi eða taka, en þá tók hv. þm. Barð. á þann veg í málið, að menn hefðu ætlað, að hann mundi ekki að svo stöddu gang, inn á þá braut, að ríkið færi að svæla undir sig allar eignir, jafnvel vestur í Barðastrandarsýslu. En nú skýtur svo við, ef ekki skökku, þá a. m. k. nokkuð í sömu línu sem hjá hv. 9. landsk.; kapphlaup er hafið milli þessara tveggja hv. þm. um þessa sýslu, a. m. k. í þeim skilningi, að aðrir eignist þar lönd og óðul heldur en þeir, sem nú eiga þau.

En ég skal nú í þessu máli halda mér við það, sem fyrir liggur, nefnilega Bíldudalseignina. Síðast á dagskránni í dag er tekin upp — hvernig ræða skuli að vísu — till. til þál. um athugun 4 atvinnumöguleikum á Bíldudal og um aðstoð við bágstadda íbúa kauptúnsins. Þessi till. er beint áframhald af því, sem frv. fjallar um, eða í rauninni að nokkru leyti það sama, því ef skilja á frv. eins og beinast liggur fyrir, ef nokkur meining á að vera í því, þá er tilætlunin að sjálfsögðu ekki aðeins sú, að ríkið eignist Bíldudalseignina. heldur hitt, að ríkið eigi að gera eitthvað með þessa eign, og þá fyrst og fremst gera eitthvað fyrir fólkið, sem þarna býr. Því ég geng út frá, að það sé ekki eignin dauð, sem óskað er, að ríkið verði eigandi að, heldur hljóti það að vera í þeirri veru, að hafizt verði handa að koma upp atvinnugreinum, sem fólkið getur lifað við. Er nokkuð frá þessu skýrt í grg. þáltill., sem ég gat um; þar sem hún snertir þetta mál, vænti ég, að hæstv. forseti leyfi mér að tala um hana jafnhliða.

Það er svo um þetta þorp, sem ég að vísu get ekki hrósað mér af að vera kunnugur, að það mun vera sambærilegt við ýms önnur þorp í landinu. Ég veit þegar um þorp á Austurlandi, þar sem svo er komið, að ekki er hægt að kveða á annan hátt að orði en að þau séu komin að meira eða minna leyti á hið opinbera. A. m. k. er það svo, að hið opinbera styrkir nú kauptún á Austurlandi, með vafasamri heimild að vísu, en þar með er komið út á þá braut, sem engum dylst, að er stórhættuleg afkomu ríkissjóðs og fjárhag almennings í landinu. Ef heil þorp, og þar af leiðandi líka heil sveitarfélög, eiga, ofan á allar ráðstafanirnar, sem að nokkru leyti er búið að gera og að nokkru leyti stendur til að gera, að koma beinlínis á það opinbera, ef ríkið á að fara að reka þorpin, leggja þeim til atvinnutæki og sjá þeim fyrir viðurværi, — hvar lendir þá? Þegar litið er á málið frá því sjónarmiði, og til þess virðist full ástæða, sjá hv. þm. væntanleg, að það getur ekki komið til nokkurra mála að ganga vitandi vits inn á þessa hraut. Það verður a. m. k. eitthvað að ske áður en það er gert; það verður m. a. að sjást, hvaða verkanir þær ráðstafanir hafa, sem verið er að gera og væntanlega verða gerðar til viðreisnar sveitar- og bæjarfélögum, þorpum eins og öðrum hreppsfélögum. — Ég tala um þetta mál út frá því sjónarmiði, að það sé ekki keppikeflið í sjálfu sér að láta landið kaupa að gamni sínu lóðir og lendur við sjóinn, heldur sé einmitt óskað eftir því til þess, að ríkið taki upp á sig nokkra ábyrgð, í þessu tilfelli óútreiknanlega ábyrgð á slíkum stöðum og fólkinu þar. Bíldudalur hygg ég, að sé ekki sérlega fólkríkt pláss; að því leyti hygg ég það sambærilegt við flest litlu þorpin hér á landi, þar á meðal eitt, sem mér er vel kunnugt, Vík í Mýrdal. Það er sannast sagna, að þar hafa íbúarnir enga möguleika til afkomu, samanborið við það, sem menn hafa á Bíldudal og öðrum slíkum stöðum kringum land. Vík er mynduð kringum verzlun, hefir enga möguleika til þess að stunda sjó og í raun og veru ekki heldur til þess að lifa á landinu. Menn verða að lifa á öllu mögulegu, snapa saman sína ögnina frá hverri atvinnugrein. Hefði nokkurt þorp átt að komast á ríkið, láta kaupa sandinn sinn og mölina, þá hefði a. m. k. verið eðlilegra, að það hefði verið Vík á undan Bíldudal. Nú hefir mér ekki verið falið það af Víkurbúum að fara fram á, að þeir væru keyptir upp og þeim útvegaðar atvinnugreinar. En það mun ekki þurfa mikið kapphlaup til að afla slíkra tilmæla, og þegar tveir slíkir menn keppt sem í þessu tilfelli, mun eitthvað verða undan að láta, jafnvel ein hreppsnefnd vestur í Barðastrandarsýslu. Fyrr má rota en dauðrota, og eitthvað mætti vafalaust gera fyrir Bíldudal, þegar það fer að sýna sig, að fólk verði að flýja þaðan, þó ekki sé allt keypt upp. Og þó menn verði að flýja þaðan, er það ekki annað en það, sem alstaðar gerist, að fólk flytur á milli staða í atvinnuleit. Það fer til Siglufjarðar í síld á sumrum, e. t. v. til Vestmannaeyja til þess að komast á skip að vetrinum; stundum koma menn heim aftur, stundum ekki. Við því er ekkert að segja. Ég býst við, að þeir á Bíldudal, sem ekki eru fleiri en þeir í Víkinni, verði að hafa sama gang á þessu og aðrir. Þess vegna er ég mótfallinn þessu frv. og till., sem seinna á að koma til umr., og vænti ég, að svo fari fleirum.