27.02.1936
Neðri deild: 10. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (2367)

39. mál, kaup á Bíldudalseign

*Flm. (Bergur Jónsson):

Ég veit ekki, hvernig hv. þm. V.-Sk. getur verið að tala um afturgöngur í sambandi við þetta mál. Það hefir aldrei komið fram frv. neitt í þessa átt fyrri viðvíkjandi Bíldudal. Þetta er bara draumur eða óráð hjá hv. þm. Ég býst við, að hann blandi hér inn í frv., sem er síðar á dagskránni í dag, um kaup á Reykhólum að undangenginni rannsókn, sem ég bar fram að gefnu tilefni vegna till. frá hv. 9. landsk. En hún kemur ekkert þessu máli við og er því algerlega óskyld. Hér er um að ræða afkomu 300 manna þorps á stað, sem í sumum árum er einhver allra fiskisælasti staður á landinu. Ég get nefnt dæmi um það að þarna hefir verið smokkfiskur, síld og þorskur á sama árinu, hrein uppgripaveiði. Svo hafa líka komið ár, sem þetta allt hefir brugðizt. En það er ekki rétt að láta fólkið verða að flýja af svona stöðum.

Þar að auki var auðheyrt á ræðu hv. þm., að hann er ekkert inni í þessu máli. Hluturinn er sá, að sá, sem nú er eigandinn að Bíldudalseigninni, fékk á alveg sérstakan hátt 30 þús. kr. úr ríkissjóði, og eina ráðið til þess, að nokkur von sé um það fyrir ríkissjóð að bjarga þessum 30 þús., er það, að reisa þorpið við, gera eignina arðbæra.

Hv. þm. var að tala um, að það væru mörg þorp á Austurlandi illa stödd. Ég kannast vil það. Hv. þm. vita til þess, að hingað er komin nefnd frá Eskifirði til þess að biðja hjálpar. Ég er ekki heldur búinn að taka afstöðu á móti því, að þeim sé hjálpað þar austur frá, en ég efast um, að það sé meiri ástæða til að hjálpa þeim heldur en Bílddælingum.

Hv. þm. sagði, að það væri ekki rétt, að ríkissjóður færi að leggja fram viðurværi til þessara þorpa frekar en annara staða á landinu. Þetta hefir nú auðvitað verið gert óbeint, t. d. þegar veitt hefir verið ábyrgð fyrir útgerðarsamvinnufélög á ýmsum stöðum, sem eru miklu óheppilegri til útgerðar heldur en Bíldudalur. En hér er aðeins um það að ræða, að reyna að koma Bíldudalseigninni í hendur aðilja, sem hefir hag af að starfrækja hana og möguleika til þess; það er grundvöllurinn undir því, að hægt sé að halda uppi á skynsamlegan hátt atvinnurekstri á þessum stað, — um það er ég ekki í neinum vafa. Ég er viss um, að hv. 9. landsk. er mér sammála um þetta, og einnig t. d. hv. 3. landsk., sem þekkir vel til þarna. Hann er Bílddælingur að uppruna og veit því, að Bíldudal er ekki þannig í sveit komið, að það sé sama sem að kasta fé í sjóinn, þó reynt sé að koma þeim stað eitthvað á laggirnar.

Ég álít, að þetta frv. eigi fullt eins mikið að miðast við hag ríkissjóðs sem þorpsbúa. Ég veit, að Útvegsbankinn ætlar að gefa eftir þær 30 þús. kr., sem hann á þar inni. Og ef hægt er að ganga þannig frá atvinnumálum á staðnum, að leigjandi fáist, sem heldur áfram sæmilegum atvinnurekstri þar, þá er það einu leiðin til þess, að hægt sé að renta það fé, sem þarna liggur. Annars ætla ég ekki að fara út í persónulegar ástæður þess manns, sem þessa upphæð skuldar, eða þeirra, sem eiga ef til vill sök á því, hvernig komið er. En ég er því fylgjandi, að látin verði fara fram rannsókn á því, hvernig helzt megi koma aftur fótunum undir atvinnurekstur á Bíldudal. Gæti orðið þröngt fyrir dyrum hér í Reykjavík, ef menn flykktust hingað þaðan; atvinnuleysisskýrslurnar gefa nokkra hugmynd um það. Er full ástæða til að gera ráðstafanir til þess, að atvinnuleysingjum fjölgi hér ekki frá því, sem nú er.