27.02.1936
Neðri deild: 10. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (2368)

39. mál, kaup á Bíldudalseign

*Hannes Jónsson:

Frv. það, sem fyrir liggur, er ekki mikið, en gegnum það tala staðreyndirnar um það, hvernig komið er fyrir atvinnuvegum þjóðarinnar.

Hv. 9. landsk. lét þau orð falla, að sér væri ánægja að því að sjá þetta frv., því að atvinnurekendurnir væru að flæmast burt af þessum stað og fólkið sæti eftir bjargarlaust. Hvílík ánægja, að flytja skuli þurfa frv. til þess að bjarga fólkinu frá dauða! Það er ekki lítið ánægjulegt að þurfa hér á Alþingi að ganga á fjörurnar og hirða sprekin, bjarga þeim frá útsoginu, eftir að búið er að leggja atvinnuvegina í rústir fyrir tilstilli hv. fl. landsk. og hans líka.

Þeir, sem hér hafa talað, virðast líta mest á það, hvort ríkissjóður geti tryggt sér þessar 30 þús. kr., sem hann hefir lánað á þennan stað. Mig skiptir það ekki mestu máli, heldur hitt, að hægt sé að tryggja íbúunum framtíðarmöguleika, þar sem annarsstaðar á landinu. Væri það síður en svo þýðingarlaust, ef hægt væri að koma málunum svo fyrir, að fólkið þyrptist þaðan ekki til Reykjavíkur, enda þótt hv. þm. V.-Sk. virðist ekkert mundu hafa við það að athuga. Ég heyrði, að hv. 5. þm. Reykv. skaut fram þeirri spurningu, hvort víst væri, að Reykjavík gæti tekið við þessu fólki öllu. Ég efast stórlega um það, þegar ég íhuga það, að Reykjavík tekur ein meiri hlutann af hálfrar milljónar atvinnubótafé og verður svo að leggja fram tvöfalt á við það, fólki til viðurværis, sem ekki getur lifað af sjálfsdáðum. Væri nær að reyna að festa fólkið við atvinnurekstur á staðnum en að safna því hingað til höfuðstaðarins.

Ég skal ekkert um það segja, hvort þetta frv. muni geta ráðið bót á þeim meinsemdum, sem þarna eru ríkjandi í atvinnuvegunum. En það verður a. m. k. ekki að fullu liði fyrr en ráðin er bót á þeim meinsemdum, sem mest þjá atvinnuvegina í landinu í heild sinni. Það er aðalvandamálið. Það verður ekki að fullu ráðin bót á einstökum meinsemdum, meðan ekki er hægt að skapa lífvænleg skilyrði til atvinnurekstrar yfirleitt. Ég býst við, að það sé rétt hjá hv. þm. Barð., að því fé sé ekki fleygt í sjóinn, sem varið er til atvinnurekstrar á þessum stað. Sem betur fer er það enn svo um höfuðatvinnuvegi Íslendinga, að því fé er ekki kastað í sjóinn, sem til þeirra er varið, séu þeir ekki þjáðir á annan hátt fyrir hirðuleysi ríkisvaldsins og af því, að ekki eru stemmdir stigir fyrir þeim óheillaöflum, sem eru að eyðileggja og brjóta niður einstaklingsþrótt þeirra, sem við framleiðsluna fást, brjóta niður þá framleiðsluviðleitni, sem ein er þess megnug að halda þjóðinni á réttum kili.

En það er eins og hv. 9. landsk. sjái nýjan dag upp renna, nýtt glæst tímabil, nú, þegar komið er að því að hirða sprekin af fjörunni. Það er eins og hann sjái þarna starf fyrir sig að bjarga sprekunum frá útsoginu. Það virðist sem hann skipti það minnstu máli, hvort skipin farast, ef aðeins er hægt að bjarga sprekunum. En það, sem máli skiptir, er að bjarga skipunum sjálfum, og það ætti hv. 9. landsk. að vera hugleiknara heldur en hið neikvæða starf að bjarga sprekunum.

Hvað sem um frv. þetta verður, vænti ég þess, að ástand það, sem skín í gegnum það, verði mönnum til áminningar um það, að líka verði að bjarga öðrum stöðum, sem nú eru að lenda í sama öngþveitinu. En ég vil segja, að mér finnst það einkennilegt, ef fara á að bjarga við atvinnuvegum þessa þorps með því að ná eignaleifum Útvegsbankans. Ég hefi ekki kynnt mér starfsemi þessa banka, en hann á fulltrúa hér á Alþingi, og ég vil heyra frá þeim, hvort þeir álíti, að hægt sé að bjarga atvinnurekstri einstaklinga með því að taka af þeim umráðaréttinn yfir atvinnutækjunum. Það er ekki langt síðan Sólbakkaeigninni var bjargað, að því er látið var heita hér á Alþingi, með því að ríkið keypti hana. Nú er að vísu hafinn atvinnurekstur á þessum stað, sem sýnist hafa skilyrði til að þróast. En mér sýnist þó sem það ætti að vera verk bankans og bankastjórnarinnar að sjá um afkomu atvinnuvega þeirra, sem þeir eiga að halda uppi. Ef það á hinsvegar að vera hlutverk þeirra að láta atvinnuvegina daga uppi í faðmi sínum, en leita á náðir ríkisstj. til hjálpar, þá er orðið negatívt starf þeirra. Það má vera, að ekki sé réttmæt árás sú á bankastjóra Útvegsbankans, sem kemur fram í þessu frv., en þeir gefa þá væntanlega skýringu. En ef þeir eru samþykkir þessari lausn málsins, þá er það engan veginn viðunandi frá þeirra hálfu. — Að starfi þessara manna má m. a. finna það, að þeir hafa látið það viðgangast, að atvinnuvegirnir væru reknir með fyrirsjáanlegu tapi. Annars hefði verið þvingað fram jafnvægi, sem verður að vera í athafnalífi hverrar þjóðar, en það ekki verið látið viðgangast, að skuldir og töp hlæðust á atvinnuvegina frá ári til árs, svo að þeir yrðu að lokum óstarfhæfir í höndum þeirra manna, sem einir réðu því, hvort þeir yrðu starfræktir eða ekki. En reyndar á Útvegsbankinn ekki einn sökina á því, hvernig komið er í þessu efni, heldur á hinn bankinn aðalsökina.

Ég hefi nú ef til vill farið nokkuð út fyrir efni frv. En ég hefi hér stiklað nokkuð á aðalástæðunum fyrir því, að svo báglega er komið fyrir þjóðinni, að nú verður að tína þessar litlu félagsheildir upp, eina og eina, til þess að bjarga þeim frá dauða. Það er eins og menn geti ekki skilið fyrr en lagðar eru fram beinagrindur sem fylgiskjöl, eins og hv. þm. V.-Ísf. sagði fyrir nokkru hér á þingi. Þá fyrst skilja menn, hvað hefir verið að gerast, og þá fyrst er eitthvað gert til bjargar.