27.02.1936
Neðri deild: 10. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (2375)

39. mál, kaup á Bíldudalseign

*Jónas Guðmundsson:

Það hefir talsvert spunnizt úr umr. um þetta litla og ég vil segja lítilfjörlega mál. En mér finnst þessar umr. ekki nema öðrum þræði snúast um frv., sem fyrir liggur; að hinu leytinu eru það almennar umr. um það ástand, sem skapazt hefir á seinni árum í fjöldamörgum kaupstöðum og kauptúnum hér á landi. Það er ekki undarlegt, þó á þetta sé minnzt, því sannleikurinn er sá, að nálega ekkert sveitarfélag, þar sem kauptún getur talizt, eða kaupstaður, getur horft fram í tímann með von um að bjargast án hjálpar í einhverri mynd frá því opinbera eða lánsstofnunum ríkisins. Um þetta þarf ekki langt mál; það er augljóst. En mig furðar á því, að bæði hv. þm. V.-Sk. og hv. þm. V.-Húnv. skuli sýna því svo mikla andúð, að ríkið veiti þessu sveitarfélagi á Vestfjörðum þá lítilfjörlegu hjálp, sem hér er farið fram á. Það er þó ekki nema heimild fyrir ríkisstj., ekki skylda, heldur bara heimild til þess að kaupa þessa eign, náttúrlega því aðeins, að hún sjái ekki aðra heppilegri lausn á málinu fyrir báða aðilja.

Ég hefi hér fyrir framan mig landsreikninginn fyrir árið 1934. Þar eru á fjórum eða fimm blaðsíðum talin þau bæjar- og sveitarfélög, atvinnufyrirtæki og aðrar stofnanir, sem ríkið hefir stutt með ábyrgðum auk hinna beinu framlaga, sem það hefir veitt. En hvað hefir verið gert fyrir Bíldudal? Hefir ríkið nokkurntíma veitt þangað ábyrgð eða styrk til nokkurs? Auk þeirra ábyrgða, sem taldar eru í þessu stóra registri, eru allar þær ábyrgðir, sem ríkið tók á sig á síðasta ári, bæði fyrir bæjar- og sveitarfélög og einstök fyrirtæki, og heimildir til kaupa á verksmiðjum o. fl. til hjálpar viðkomandi stöðum. Hér er t. d. sagt, að ríkissjóður standi í ábyrgð fyrir 8422 þús. kr. fyrir Reykjavík, 357 þús. kr. fyrir Akureyri, 240 þús. kr. fyrir Siglufjörð, 321 þús. fyrir Vestmanneyjar, 213 þús. kr. fyrir Neskaupstað, 175 þús. fyrir Samvinnufélag Ísfirðinga, 173 þús. fyrir Húsavík, 54 þús. fyrir Búðahrepp í Fáskrúðsfirði, 22 þús. fyrir Hjaltastaðahrepp, 14 þús. fyrir Ólafsvíkurhrepp, 10 þús. fyrir Vatnsleysustrandarhrepp, 80 þús. fyrir Reyðarfjarðarhrepp, 40 þús. fyrir Sauðárkrókshrepp, 221 þús. fyrir Hafnarfjörð, 171 þús. fyrir Akraneshrepp o. s. frv. Svo koma þarna fjöldamörg samvinnufélög og lán til íshúsbygginga; þannig mætti lengi telja. Við þetta bætist og ábyrgðir fyrir Eyrarbakka, Stokkseyri og Seyðisfjarðarkaupstað, sem samþ. voru á síðasta þingi. Sannleikurinn er sá, að öll meiri háttar sveitarfélög á landinu eru búin að fá hjálp frá ríkinu nú eða áður til þess að gera fólkinu mögulegt að lifa og starfa og koma á þeim framkvæmdum, sem til greina koma á hverjum stað. Ofan á þetta hefir svo bændastéttinni allri í heild og vélbátaeigendum verið hjálpað sérstaklega til þess að losna við skuldir sínar. Í rauninni er því ekki annað eftir en smákauptúnin ein, og er engin ástæða til að gera þau að olbogabarni við alla þessa hjálparstarfsemi, sem Alþingi rekur og er skylt að reka.

Hv. þm. V.-Sk. var að tala um, að Vík í Mýrdal væri sambærileg við þetta þorp, en hefði þó ekki leitað á náðir ríkisins né væri líkleg til þess að gera það í framtíðinni. Það er ákaflega gleðilegt að heyra það, að eitt sveitarfélag skuli þó vera þannig statt, að það þarf ekki að leita á náðir ríkisins. En hvers vegna er það? Það hefði ekki verið þannig ástatt í Vík, ef hún hefði byggt á útgerð eins og þessi þorp hingað og þangað kringum landið, sem beinlínis hafa risið upp vegna útgerðarinnar, sem nú er smátt og smátt að dragast saman og hætta að geta gefið fólkinu þann arð og þá lífsbjörg, sem hún áður gaf. Það eru einmitt þau þorp, sem koma til með að þurfa hjálp, en síður hin, sem engri útgerð hafa byggt á, heldur geta að mestu lifað á því, er jörðin gefur í aðra hönd. Ef athuguð er sú hjálp, sem ríkið hefir áður veitt einstökum stöðum, kemur í ljós, að hér er ekki um neitt sérstætt að ræða. Fyrir alllöngu síðan, einum 17–18 árum, var bæði Reykjavík og Hafnarfirði veitt stórkostleg hjálp til atvinnuaukningar. Hafnarfirði var veitt undanþága frá fiskveiðalöggjöfinni, um að fá erlenda togara þangað, og Reykjavík var hjálpað með því, að veitt var ábyrgð fyrir ákveðinni upphæð til hvers togara, sem keyptur var til landsins. Þetta varð á sínum tíma til þess að koma atvinnulífinu á þessum stöðum á þann grundvöll, sem hann síðan hefir staðið á. Þetta er það, sem hefir gerzt fyrir mörgum árum og löngu áður en fór að gæta nokkurra áhrifa frá sósíalistum í þessum málum, að ríkið veitti stuðning einstökum atvinnufyrirtækjum og einstökum sveitarfélögum. En þessi stuðningur var bara svo skynsamlega veittur, að hann kom að því gagni á hverjum stað, sem til var ætlazt. Þess vegna er ég alveg sömu skoðunar og hv. þm. V.-Sk. um það, að við eigum nú einmitt að taka, hvert einasta sveitarfélag, kauptún eða hreppsfélag kringum landið, sem byggir afkomu sína á útvegi og iðnrekstri, og athuga, hvað þarf að gera þar til þess að slíkir staðir geti í framtíðinni staðið á eigin fótum. Nú hefir þingið fylgt þeirri reglu að taka eitt og eitt eftir umsóknum, sem borizt hafa í þingið, frá þessu þetta árið og hinu hitt árið. Árangur þessara beiðna var eins og ég las upp áðan, og hefir þessi hjálp orðið til þess að rétta við sum þessi sveitarfélög að mörgu leyti. Öllum er kunnugt, að Siglufjörður var blátt áfram að leggjast í auðn út af vandræðum í síldarverzluninni. En ríkissjóður hljóp undir bagga með því að reisa síldarverksmiðju og reka. Svona mætti lengi telja, að ríkisvaldið styður beint og óbeint að því, að bágstödd sveitarfélög geti starfað. Þessi hjálp ríkisins hefir verið tvíþætt. Ábyrgðir annarsvegar, og hafa þær einkum verið veittar kaupstöðum og stærri kauptúnum. Ábyrgðir þessar hafa gert þessum sveitarfélögum kleift að fá stærri eða minni lán til þess að hrinda ýmsu í framkvæmd. Það er ákaflega mikið spursmál, hversu heppileg þessi leið er, að veit, ábyrgðir. Og ég býst við, að ef ekki rofar til í atvinnulífi þjóðarinnar, sérstaklega við sjávarsíðuna, á næstu árum, þá eigi ríkissjóður eftir að fá talsverð, skelli af þessum ábyrgðum. Hin leiðin var sú, gagnvart bændastéttinni sérstaklega, að styrkja beint atvinnureksturinn með framlögum úr ríkissjóði. Hvora af þessum leiðum á að fara viðvíkjandi smákauptúnunum, verður að athugast. Þau eru að því leyti verr sett en kaupstaðir, að þau hafa minni möguleika til að standa við stórar ábyrgðarskuldbindingar, en líkjast langtum frekar sveitahreppum eða héruðum, sem hafa fengið beina hjálp ríkisins. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að einmitt það atriði sé athugað, þegar um smákauptún er að ræða með litlu fjárhagslegu bolmagni, hvort ekki sé réttast, að ríkið hjálpi með því að eignast að einhverju leyti þau tæki, sem nota þarf til þess að fólkið geti lifað þar.

Það er tvennt, sem gæta þarf að, þegar um er að ræða að rétta við sjávarþorp. Annað er það, að staðurinn sé ekki atvinnulega í höndum þeirra, sem útiloka framtakssemi hinna smærri atvinnurekenda og annara, sem vilja koma fótum undir samvinnuútgerð. En þannig er það, ef einn er eigandi að stórum eignum og landi og tækjum, sem þar eru til lífsbjargar. Hitt er að tryggja, að þau atvinnutæki, sem fólkið þarf að hafa til þess að lifa á þessum stöðum, séu þar til.

Ég hefi nú að vísu ekki komið á Bíldudal, en mér skilst, að hér sé um að ræða að tryggja aðra hlið þessa máls, að gera íbúum kauptúnsins fært að hafa afnot af eign og landi, sem nauðsynlegt er, að sé þar opinber eign, svo að allir geti notfært sér það eins og föng eru á. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að þetta sé gert, að veita ríkisstj. heimild til að kaupa þessa eign, ef hún getur ekki á annan hagkvæman hátt komið þessu máli heilu í höfn.