28.02.1936
Neðri deild: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (2391)

42. mál, kaup á jörðinni Reykhólar

*Flm. (Bergur Jónsson):

Eftir umr. þær, sem fóru fram í fyrradag um frv. á þskj. 23, um eignarnámsheimild á jörðinni Reykhólum, þá tel ég ekki þörf á því að vera langorður. Ég vil aðeins taka það fram, sem menn reyndar vita, að allmikill munur er á þessu frv. og frv. á þskj. 23, þar sem skilyrðislaust er krafizt eignarnáms á jörðinni, sem nú er í höndum dánarbús. En hér er það gert að skilyrði, að ríkissjóður fari að lögum í því að eignast jörðina, og að rannsókn sé látin fara fram áður, sem sýni, að jörðin sé hagkvæm fyrir almenningseign, eða að landgæði séu þar slík, að jörðin sé vel fallin til þess að vera almenningseign, og í öðru lagi á fyrst að reyna samninga við erfingjana, áður en horfið sé að því að taka jörðina eignarnámi. Ég vona að hv. dm. sjái, að hér er talsverður munur á og fyrra frv. Samkv. þessu frv. er það ekki fyrr en búið er að rannsaka það, hvort skynsamlegt er fyrir ríkið að eignast þessa jörð, sem ætlazt er til, að það megi taka hana eignarnámi.

Ég legg svo til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.