15.04.1936
Neðri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (2406)

44. mál, kosningar til Alþingis

Thor Thors:

Flm. þessara brtt., hæstv. forseti þessarar d., sagði, að þær væru ofur einfaldar, og það má heita svo, að því leyti, að hér er um augljóst mál að ræða, en það er stórvægilegt mál eigi að síður, því að með þessum brtt. er tekið upp stærsta ágreiningsatriðið frá þinginu 1933, þegar kosningalögin voru sett. Og ég verð að segja, að mér þykir það heldur miður, að hæstv. forseti skuli hafa orðið til þess við 3. umr. máls að bera fram svo stórkostlegar breyt. sem þessar. Smávægilegt frv. um breyt. á kosningalögunum er borið fram, og fyrst við síðustu umr. um það hér í d. koma þessar stórvægilegu brtt. fram; m. ö. o., þó byggt sé á því, að þingið eigi rétt á að ræða hvert mál þrisvar sinnum í hvorri d., þá verður það svo um þetta mikla ágreiningsmál, að það gefst aðeins tækifæri til að ræða það við eina umr. í Nd.

Það hefir verið vikið að því, hverjar reglur nú gilda um landslista; að það eru eiginlega þrjár reglur, sem sameinaðar eru. Fyrst komi þeir frambjóðendur, sem hæsta atkvæðatölu fá í kjördæmi án þess að ná kosningu, þar næst þeir, sem fá hlutfallslega hæsta atkvæðatölu miðað við kjósendatölu kjördæmisins, og loks hafa svo flokkarnir leyfi til að skipa þriðja hvert sæti á landslista. Þetta fyrirkomulag fékkst samþ. eftir langvinnar samkomulagstilraunir á þinginu 1933. Og án þess ég ætli að fara að rifja upp þær deilur, kemst ég ekki hjá að víkja að því, að það voru ýmsir þm., sem töldu eðlilegast og í beztu samræmi við orð stjskr. og þá samninga, sem lágu til grundvallar þessari lagasetningu, að flokkstjórnirnar hefðu fullkomna heimild til þess að raða á landslistana, eins og hv. 1. þm. Árn. vill nú taka upp. En í meðferð þingsins á málinu var þó þetta samkomulag gert.

Ég verð að lýsa því yfir, að enda þótt þessar brtt. hafi nú um hríð legið fyrir d., án þess þó að þær hafi verið ræddar fyrr en nú, þá hefir Sjálfstfl. sem heild ekki tekið neina ákveðna afstöðu til þeirra. En ég geri ráð fyrir, að allflestir hv. þm. Sjálfstfl. muni að svo stöddu eigi fúsir að veita þessum till. fylgi sitt. Ég skal ekki draga neina dul á það, að hverjar sem óskir einstakra þingflokka hafa verið í öndverðu, þá hefir þetta mál nú frá flokkslegu sjónarmiði breytt viðhorf og verri örðugleika heldur en það hafði í upphafi. Það hefir nú verið borin fram krafa um það hér á Alþingi frá Sjálfstfl., að nýjar kosningar verði látnar fram fara nú í sumar. En ráðherrarnir hafa lýst yfir, að það verði ekki orðið við þeirri kröfu, enda þótt full rök, liggi til þess, að málefni þjóðarinnar og málefni stjórnarflokkanna séu lögð enn á ný undir dóm kjósendanna. Og úr því svo er, að stjórnarflokkarnir eru staðráðnir í að hanga við völd og leita ekki álits kjósendanna nú í sumar, fæ ég ekki séð, að þessu máli liggi neitt á. Það mætti þá taka málið í heild upp á þinglegri hátt á næsta þingi, og athuga þá ekki einungis þetta atriði, heldur einnig, hvernig hægt er að ná sem bezt þeim tilgangi, sem vakti fyrir þeim, sem börðust fyrir breyt. á stjskr. og kjördæmaskipuninni, og í stjskr. er beinlínis orðaður svo, að hver þingflokkur skuli hafa þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína við almennar kosningar. Það er vitað, að núv. ríkisstj., sem hefir meiri hl. í þinginu á bak við sig, er minnihlutastjórn hjá þjóðinni. Og úr því það er fullkomlega ljóst, að þessum tilgangi um réttláta skipun Alþingis hefir ekki verið náð, finnst mér, að sú fyrsta breyt., sem hv. þm. ættu að taka upp á kosningalögunum, sé sú, að tryggja betur en verið hefir, að þessum aðaltilgangi breyttrar kjördæmaskipunar gerði náð. Gæti þá margt komið til greina; m. a. það, hvort ekki væri hægt þjóðinni að skaðlausu að fækka þm. eitthvað frá því, sem nú er, en tryggja jafnframt, að á hverjum tíma sé Alþingi skipað í sem fyllstu samræmi við vilja þjóðarinnar í heild.

Hv. 1. þm. Árn. taldi það skipulag, sem nú er á landslistunum, vera mesta óskapnað. Ég veit ekki til, að reynslan hafi sýnt það, að innan ramma kosningalaganna eins og þau eru sé landslistafyrirkomulagið neinn óskapnaður. Hitt mætti frekar segja, að breytingin á stjskr. og kjördæmaskipuninni í heild hefði reynzt kákbreyting, og þar þyrfti að byrja, þegar endurskoðun er tekin upp á þessum málum í heild. Ég ætla mér því ekki að greiða þessari till. atkv. nú, m. a. vegna þess, að stjórnarflokkarnir virðast staðráðnir í því að láta ekki kosningar fara fram í sumar, og þess vegna er ótímabært að taka þetta mál upp. En einnig vegna þess, að ég tel, að hér sé ekki rétt að farið. Það á að byrja að breyta þar, sem breytingar er mest þörf, og það er á því sviði, að tryggt sé, að Alþingi sé jafnan skipað í sem fyllstu samræmi við vilja kjósendanna í heild.