05.03.1936
Neðri deild: 16. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í C-deild Alþingistíðinda. (2427)

52. mál, skipun prestakalla

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Það má að vísu þykja svo, að við mætti hlíta að láta þetta frv. eins og það kemur frá mþn. fljóta áfram umræðulaust til næstu umr. og n. Og mun ég ekki heldur flytja langt mál um frv. að þessu sinni.

Aðeins vildi ég láta í ljós undrun mína á því, að hv. aðalflm. hefir haft að vissu leyti kjark og líka heldur óviðfelldna þrákelkni til að flytja málið í þessu formi, eftir allt, sem honum er kunnugt, að á dagana hefir drifið, bæði hans og annara, út af þessu máli síðan það kom fram. Ég gekk út frá því, eins og kom að nokkru leyti fram í launamálanefnd, að menn hefðu nú skipt um skoðun. Ég gekk út frá þessu einnig um hv. aðalflm. með það fyrir augum, að hann hefir það ljóst á vitund sinni, að bæði á þeim slóðum. þar sem hann er sérstaklega kunnugur, og um landið þvert og endilangt eru menn svo einhuga um þetta mál, að dæmafátt er um þingmál. Og mér er ekki kunnugt, að nokkurt þingmál hafi komið fram hér á Alþingi, sem um hafi komið jafnsamróma álit á svo skömmum tíma hvaðanæva af landinu. Þetta hefir styrkt undrun mína yfir því, að þetta mál skuli nú vera flutt óbreytt enn eins og það var í upphafi, þar sem úr öllum prestaköllum á landinu og má segja hér um bil öllum sóknum á landinu — hafa komið fram mótmæli gegn þessu frv. Meira að segja hafa verið samþ. áskoranir um fjölgun prestakalla frá því, sem nú er. M. ö. o.: Það er ekki aðeins, að menn mótmæli frekari sameiningu, heldur vilja menn sumstaðar fjölga prestum og sóknum.

Ég skal ekki fara inn á efni málsins, sem rætt var nokkuð á síðasta þingi, en sérstaklega rætt þó á öllum þeim fundum, sem baldnir hafa verið um kirkjumál og trúmál á síðastl. ári í öllum sóknum landsins, eins og ég gat um. En hitt er vitað, að þeir menn, sem eiga að hafa forsjá fyrir þessu máli eins og öðrum, nefnilega alþm., þeir geta ekki gengið framhjá slíku sem þessu. Þeir geta ekki þverskallazt við einróma röddum frá kjósendum í sveitunum, — a. m. k. ekki um leið og þeir menn hlaupa eftir hvaða goluþyt, sem er frá kjósendum runninn úti á landi, jafnvel þó að sá goluþytur sé aðeins frá örfáum mönnum og örfáum stöðum eða einum stað, og þó að þessi goluþytur sí upphaflega blásinn af þeim sömu mönnum, sem svo taka hann til inntekta. Þetta er sú hringavitleysa, sem oft hefir átt sér stað í þjóðmálum þessa lands, ekki sízt upp á síðkastið, að það eru tilbúnar raddir utan af landinu, sem, þótt hjáróma séu, eru teknar hátíðlega í Alþingi. En nú, ofan í allt það, sem fram hefir komið um virkilegan vilja almennings í landinu inn á þing, leyfa þessir menn sér að koma fram með slíkt frv. Til hvers heldur hv. aðalflm., að kirkjur og prestar séu? Heldur hann, að þetta sé leiksoppur í höndum manna, sem koma hér í Alþingi, til þess að afnema þá eða fjölga aftur eftir eigin þóknan? Heldur hann ekki, að þessi stofnun, kirkjan, sé fyrir almenning, sem vill sækja kirkjur og hafa presta? — Þess vegna er það, að ég vildi aðeins með þessum fáu orðum, sem ég læt fylgja þessu máli, gera þegar þá aths., að málið er ófyrirsynju fram borið, og örlög þess eiga að vera gefin fyrirfram, að það nái ekki framgangi, hvorki á þessu þingi né næsta. Og ef nokkuð er gert í þeim málum, þá þarf það að vera grundvallað á allt annan hátt. Því að eins og upplýst var í fyrra af mér og öðrum, þá var undirbúningur þessa máls ekki frambærilegur. Það var jafnvel hægt að sýna stórkostlegar villur og fávizku í, rökstuðningi og undirbúningi mþn., og að ekki var forsvaranlegt að bera þær fram á þingi, þar sem þau rök höfðu ekki neina stoð í veruleikanum á þessu landi.

Nú fer þetta mál til n. Ræður af líkum, að eins og kom fram á síðasta þingi, verði örlög þess þau, í fyrsta lagi, að hluti af n. vill ekki gera neina breyt., nema rétt til málamynda gera eitthvað það, sem mönnum gæti komið saman um, að færa mætti til. En nokkur hl. n. ef til vill heldur áfram með þetta mál þvert ofan í það, sem réttmætt er, og í rauninni sem algert vonleysisverk.