05.03.1936
Neðri deild: 16. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (2429)

52. mál, skipun prestakalla

Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég skal svara hv. aðalflm. með nokkrum orðum, þó að hans orð hafi í rauninni ekki breytt í neinu tilliti því, sem ég bar fram til andmæla því frv., sem flutt er nú enn á ný inn á Alþingi.

Hv. aðalflm. hlýtur að hafa glögga hugmynd um það, að það er þýðingarlaust að flytja mál, sem bæði þjóðin er á móti, að því er vitað er bezt, og svo að líkum meiri hl. þm. andvígur. Og ég segi, að það sé meira en viðkunnanleg þrákelkni, að hann hefir ekki viljað yfirgefa þetta mál og bera út á þessu stigi málsins þetta fóstur sitt, og má sú mannúð að vísu virðast. En það raskar ekki því, að þessi óburður á ekki rétt á sér í tölu hinna lifandi, og þá er athugandi. hvenær hefði átt að ganga milli bols og höfuðs á því.

Hv. þm. hefir það sem fyrstu röksemd sína, að það komi kynlega fyrir, að ég sé áhugamaður um kirkjumál. Þetta sýnir aðeins, við hvað hann miðar og hvað hann ber fyrir brjósti. og vill hann auðsjáanlega, að þeir fjalli um málin, sem fávísastir eru og áhugalausastir um þau. Er nokkuð í samræmi við þetta, hvernig farið er með þetta mál af hálfu flm. Því að í mþn. höfðu valizt menn, sem að verulegu leyti höfðu enga hugmynd um, hvað þeir voru að gera eða á hverju slíkt mál átti að grundvallast. Þess vegna flaska þeir í nál. á hinum einföldustu hlutum. Ég veit enga aðra þm. a. m. k. sem ekki vissu það — og engan í bænum —, sem þeir fullyrða í mál, sem sé að útvarpsmessur séu tvær á hverjum helgum degi. Útvarpið er nú ekki alveg nýtt. Og þó að þessi hv. þm. hafi annað með fjármuni sína að gera en að kaupa útvarpsviðtæki til að hlusta á messur og annað, þá hefði hann getað farið út á götuna og spurt: Hvað oft er útvarpað í Rvík messum? Hann hefði fengið svarið hjá hvaða manni sem er á götunni: Mest einni messu, nema á stórhátíðum, og stundum engri. Nei, þeir setja þetta á prent: tvær útvarpsmessur á hverjum helgum degi! Já, því skyldi fólkið þá ekki mega missa prestana!

Það er langt síðan — og mætti þm. muna það, ef ekki væri sá ljóður á ráði hans að fylgjast ekki með þesskonar málum —, að ég varð að vissu leyti áhugamaður í kirkjuefnum, þó að skoðanir mínar hafi að ýmsu leyti breytzt og viðhorf til hinna þýðingarmeiri atriða í þeim málum. Það er sannleikurinn, og á flestra vitorði, að ég hefi á vissan hátt verið með í þeim málum, talandi og skrifandi — og gerandi að nokkru leyti — frá því ég var ungur maður. Þetta veit ekki þessi hv. þm., sem ekki hirðir um að kynna sér mál, en þó er kvaddur til að taka sæti sem form. í n. og fær kaup fyrir starfið og skilar áliti — áliti, sem hægt er að sýna fram á, að er að meira eða minna leyti á misskilningi byggt og sumstaðar á hreinni fávizku.

Hv. þm. kom inn á það, að raddir þær, sem almenningur hefir gefið til kynna um þetta mál á síðastl. ári, hefðu ekki verið mikils virði. Ég benti á það, sem hv. þm. virðist nú játa, að hann hafði enga hugmynd um, að í öllum prestaköllum og víðast í hverri sókn hefir málið verið tekið fyrir og rætt og gerðar ályktanir eða áskoranir.

Nú er ekkert undarlegt, þó að sumar sóknir sýni ekki sérlega háa atkvæðatölu. Því að líklega veit hann um það, hv. þm., þó að hann þekki ekki nærri allar sóknir landsins og hafi haft að nokkru leyti úreltar tölur á skrá í nál. — líklega veit hann, að sóknir eru misjafnar, og að ekki er þess að vænta, að margir tugir atkvæða komi úr sumum þeirra. En í sumum prestaköllum hafa allir tugir atkv. komið úr öllum sóknum. Sumstaðar á litlum svæðum, þar sem undirskrift var viðhöfð, hafa komið fram atkv. allra atkvæðisbærra manna á svæðinu gegn fækkuninni. En hvar eru atkv. þessara manna, sem vildu mæla með frv. og málstað hv. þm., þegar óvefengjanlegt og skrásett er og hægt að leggja fram á þingbekki, hvenær sem er, að öll atkv., sem komu úr öllum prestaköllum á landinu, eru að heita má jákvæð og mótmæl, fækkun presta og stækkun prestakalla? Komi hann með hin, Þetta tel ég styðja okkar mál. Komi hann með það, sem styður hans mál, jafnvel úr hans eigin kjördæmi. Meðan hann gerir það ekki, standa þessi gleiðu ummæli hans sem ábætir ofan á annan misskilning — ofan á það, sem hann hefir ekki hugmynd um, en hver maður veit. Og hélt ég þó, að hv. þm. hefði fengið smjörþefinn af því síðan á síðasta þingi, að þetta mál er ekki talið einskis virði. En það er ekki nóg, að hann hirði ekkert um að kynna sér málið, heldur telur hann það síður en svo meðmæli, að menn, sem um það tala, hafi kynnt sér það, að ég nú ekki tali um það, ef þeir eru áhugamenn um kirkjumál. En þessum hv. þm. veitti ekki af að taka mig sem fyrirmynd, þótt á síðustu stundu sé, til þess að byrja ekki og enda á gati í málinu.

Nú segir hv. þm., að þetta sé gert til þess að bæta kjör prestanna, að fækka þeim til þess að gera þá starfhæfari í sínu kalli. Hann fullyrðir þetta. En hvar eru rökin? Til þess að sýna, hvernig hann og hans flokkur ber þetta mál fyrir brjósti, vil ég minna á það, hvernig þeir börðust með hnúum og hnefum gegn því, að prestar fengju að halda lítilli launauppbót. Prestum var fyrir fáum árum veitt nokkur upphæð til að standa straum af embættiskostnaði, og bar það að skoða sem einskonar bráðabirgðalaunabót, því að kunnugt er, hve hraklega þessi stétt er launuð. En svo afnema þeir þetta með frestun þeirra ákvæða og skapa prestum þar með sömu sultarkjörin og áður.

Hv. flm. talaði um, að prestar ættu að auka bókasafn sitt. En í þessari sömu lagasyrpu afnema þeir þá litlu fjárupphæð, sem prestum var fyrir fáum árum veitt til að kaupa bækur. Hvar eru nú orðin og hvar verkin? Ef hér er ekki fávizku til að dreifa hjá þessum mönnum, sem þykjast bera fyrir brjósti hug prestanna, þá er það óvild. Og enda þótt ég væni ekki þennan hv. þm. þess, að hafa haft þarna forgöngu, þá hefir hann þó vissulega fylgzt með. Hann álítur þetta vera straum tímans, þó að einhverjir angurgapar flytji inn frá útlöndum kenningar um, að ekki eigi að vera til prestar né kirkjur. Hann fylgist með þessu.

En nú gefst hv. þm. tækifæri til að bæta ráð sitt og sýna, að hann vilji þessum málum vel, –að hann vilji gera eitthvað til þess að koma betra skipulagi á málin. Hv. þm. má ekki gleyma því, að kirkjurnar eru til fyrir almenning, og prestarnir eru eingöngu til þess að þjóna almenningi, og þetta vill almenningurinn. Fólkið vill fá endurbætur í þessu efni, en enga rýrnun.

Hv. þm. hefir enn ekki kynnt sér málið til hlítar. Til dæmis hefir hann ekki kynnt sér, hvernig er með messuföllin. Hann segir, að messuföllin skeri úr um málið og tómu kirkjurnar. Hann segir: Engan veginn vil ég vefengja skýrslur presta. Hvílík hræsni! Hann ætti að vita að „messuföllin“ stafa ekki nærri alltaf af áhugaleysi fólksins, að kirkjurnar eru oft ekki sóttar vegna eðlilegra forfalla, sem hér á landi eru óhjákvæmileg, af völdum náttúrunnar, veðurfars o. s. frv. Hv. þm. vefengir annað, sem upplýst hefir verið í málinu, en þetta les hann út úr skýrslum presta og telur óyggjandi. — Annars geta messuföll ekki talizt mörg hér á landi, þegar á það er litið, hve erfitt er að halda fólkinu saman, þegar litið er á samgöngurnar, eins og þær eru enn, og annað þvílíkt. Bifreiðavegir um endilangt landið eru ófærir mikinn hluta ársins. Heldur hv. þm. ef til vill, að menn fari í bifreiðum að vetrarlagi um Norður- og Austurland, t. d. nú í fannfergjunni og harðindunum, og heldur hann, að launakjör presta séu þannig, að þegar geti átt bifreið og ekið í henni til þjónustu sinnar? — Samkv. skýrslum, sem fyrir liggja, koma þó 40 messur á prest að meðaltali ár hvert. Hvað heldur hv. þm., að um margar messur geti verið að ræða á ári? Hve margar vikur eru í árinu? 40 messur á ári verða að teljast allgóður árangur eftir ástæðum. — Svona er, þegar menn rannsaka ekki hlutina ofan í kjölinn, en byggja staðhæfingar sínar á eintómu yfirborðsáliti. Það kemur sem sé í ljós, að á 52 vikum koma 40 messuvikur á prest, og að jafnaði er ekki messað nema einu sinni í viku, enda þótt útvarpað hafi verið frá Reykjavík tveim messum á viku, eftir því, sem hv. þm. segir! Þetta er a. m. k. ekki hneykslanleg útkoma. — Þá ber og þess að geta, að oft verður messufall hjá presti af því, að hann messar í öðru prestakalli í forföllum annars. En auðvitað er honum síðan kennt um messufallið.

Ég mun að þessu sinni, við 1. umr., ekki fara inn á einstök atriði málsins, en ég vildi þó ekki láta þessu ómótmælt. En ég vona, að hv. þm. breyti nú svo til, að hann fari hér eftir að kynna sér þau mál, er hann starfar að. Að hann láti ekki þrákelknina eina ráða afstöðu sinni, heldur hitt sjónarmiðið: Hverjum á þetta að gagni að koma, hvað vilja þeir, sem hlut eiga að máli? Og að hann fari jafnframt að líta á það, sem fram kemur af rökum af hálfu annara, jafnvel þótt andstæðingur hans séu, því að skylt er jafnan að hafa það að lokum, er sannara reynist.