05.03.1936
Neðri deild: 16. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í C-deild Alþingistíðinda. (2435)

52. mál, skipun prestakalla

Páll Zóphóníasson:

Ég vil aðeins benda hv. þm. V.-Sk. á það, að ég hefi á síðastl. 5 árum komið frá því einu sinni og upp í 4–5 sinnum í hér um bil allar sóknir þessu lands, og það vill svo til, að á þessu ferðalagi mínu hefi ég æfinlega talað meira og minna um önnur efni en þau, sem snertu aðalerindi mitt, og ég get alveg fullvissað hv. þm. um það, að ég veit, á hvaða svæðum landsins það er, sem trúarlíf og trúmálaáhugi er í blóma, og hvar ekki. Ég get ekki sýnt það með tölum, eins og ég get um þyngd hrúta. En ég get farið um allt landið og sagt, hvar trúarlíf er mikið og hvar það er lítið, og það fer alls ekki eftir því, hvort prestarnir hafa mikið eða lítið að gera, heldur eftir því, hvernig presturinn er og hvernig sambandi hans við sóknarbörnin er háttað. Hv. þm. skal ekki geta fundið samband á milli þess, hvernig trúarlífi er háttað hjá einstökum söfnuðum, og þess, hve mikið starf presturinn hefir, heldur fer trúarlífið eingöngu eftir persónu prestsins sjálfs, svo og annara áhrifamanna í sóknunum, trúaráhuga hans og þeirra og sambandi hans við fólkið.