06.04.1936
Neðri deild: 43. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í C-deild Alþingistíðinda. (2437)

52. mál, skipun prestakalla

*Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég þarf ekki f. h. meiri hl. launamn. að hafa mörg orð um frv. þetta að þessu sinni. Í nál. er vikið að þeim ástæðum, sem við teljum þess verðar, að frv. nái fram að ganga með þeim leiðréttingum sem við leggjum til, að á því verði gerðar. Við 1. umr. var málið rætt almennt, og komu þá fram þær ástæður, sem færðar hafa verið fram því til andmæla, og sömuleiðis þær ástæður, sem fram hafa verið færðar með því, og tel ég því ekki þurfa að hafa mörg orð um það nú. — Um brtt. þær, sem fyrir liggja frá öðrum en meiri hl., tel ég ekki ástæðu til að tala að svo komnu, fyrr en gerð hefir verið grein fyrir þeim. Mun ég svo ekki fjölyrða frekar að þessu sinni, en vænti þess, að hv. d. afgr. málið sem fyrst, því að ég tel fulla ástæðu til, að það nái samþykki þingsins áður en því slítur að þessu sinni.