06.04.1936
Neðri deild: 43. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í C-deild Alþingistíðinda. (2439)

52. mál, skipun prestakalla

*Gísli Guðmundsson:

Ég hefi leyft mér að flytja hér brtt. á þskj. 257. Hún hróflar ekki að neinu verulegu leyti við efni frv., er nánast sagt leiðrétting. Í frv. er gert ráð fyrir, að í Raufarhafnar-, Svalbarðs-, Sauðanes- og Skeggjastaðasóknum verði tveir prestar, og á annar að hafa þrjár sóknir, en hinn ekki nema eina. Þetta verð ég sem kunnugur maður á þessum slóðum að telja óheppilegt; tel miklu heppilegra að láta hvern prestinn fyrir sig hafa tvær. Sá presturinn, sem ætti að þjóna Raufarhafnar-. Svalbarðs- og Sauðanessóknum, væri mjög illa settur á Raufarhöfn. Fyrir því legg ég til, að annar presturinn þjóni Raufarhafnar- og Svalbarðssóknum, en hinn Sauðanes- og Skeggjastaðasóknum, og að sá presturinn sæti á Þórshöfn. Hefi ég svo ekki fleira um þetta að segja. Ég vænti þess, að brtt. þessi verði tekin til greina.

Það var eitt atriði í ræðu hv. frsm. minni hl. launamn., sem ég vildi spyrjast frekar fyrir um. Hv. minni hl. leggur til, að í 11 prestaköllum skuli prestarnir annast barnakennslu að meira eða minna leyti, samhliða prestsstörfum sínum. Nú hefi ég veitt því athygli, að í mörgum þessara prestakalla, sem prestarnir eiga að annast kennslu í, er farkennsla. Ég vil því beina þeirri fyrirspurn til hv. frsm. minni hl., hvort það vaki fyrir minni hl., að presturinn verði farkennari og kenni á 3–4 stöðum, a. m. k., á meðan kennslan stendur yfir.