06.04.1936
Neðri deild: 43. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (2440)

52. mál, skipun prestakalla

*Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Það er ekkert við því að segja, þótt minni og meiri hl. n. greini á um lausn þessa máls. Hv. minni hl. viðurkennir, að það sé hægt að fækka prestum að einhverju leyti frá því, sem nú er, og það er rétt fram tekið, eins og áður var lýst yfir af minni hálfu, að vitaskuld er þetta frv. fyrst og fremst fram komið af þeim ástæðum, að við álítum, að með þessu móti sé hægt að spara ríkissjóði verulegt fé, nærri 60 þús. kr. eftir útreikningi mþn. (PHalld: Er það nú allt og sumt?). Í þeim útreikningi er falin sú hækkun, sem við höfum gert á launum presta.

Samkv. því yfirliti, sem launamálanefnd gerði yfir embættismenn ríkisins, greiðir ríkissjóður yfir 5½ millj. kr. í laun þessara manna, og er þó ekki talin með launagreiðsla til ýmsra starfsmanna, sem vinna hin og þessi störf fyrir það opinbera. Þegar þessi upphæð er borin saman við tekjur ríkissjóðs, sem fara að jafnaði ekki upp fyrir 15–16 millj. kr., þá sést, hve mikil upphæð er unnin með þessum sparnaði, sem fæst með fækkun prestanna, og þegar tekið er tillit til þeirrar upphæðar, sem fer í vexti og afborganir af ríkislánunum, þá sést það, að sá gjaldliður og sú upphæð, sem fer til embættismannanna, nemur meira en helmingi af tekjum ríkissjóðs. Ef litið er á það, að heildartekjur allrar þjóðarinnar eru milli 85–90 millj. kr., þá sér maður, hversu risavaxið þetta gjald er og hve nauðynlegt er að reyna að draga úr því eftir föngum. Ég fyrir mitt leyti mundi ekki beita mér fyrir þessu máli, ef þjóðin hefði úr nógu að spila. En hitt ber og á að líta, sem launamn. hefir líka gert, að laun prestanna eru svo lág, að þeir geta ekki einu sinni aflað sér nægilegs bókakostar. Þetta hefir launamn. reynt að færa í viðunandi horf. Hv. frsm. minni hl. hélt því fram að það væri ekki hægt að fækka prestum öllu meir en hv. minni hl. leggur til, sakir þess, hve prestaköllin yrðu stór. Ég er hv. frsm. mjög ósammála um þetta. Það er vandalaust að fækka prestunum eins mikið og meiri hl. n. leggur til. (PHalld: Má ekki fækka þeim niður í núll?). Hv. 5. þm. Reykv. getur borið fram brtt. um það, et hann vill. — Í þessu sambandi má benda á héraðslæknana. Þeir eru ekki nema rúmir 40 á öllu landinu, og ætla ég, að prestarnir þurfi ekki að leggja meir, kapp á ferðir sínar um héruðin en læknarnir.

Hv. frsm. minni hl. sagði, að við hefðum ekki séð okkur fært að fækka prestunum meira en við hefðum lagt til í mþn., þrátt fyrir góðan vilja. Hv. frsm. minni hl. hefir engan rétt til þess að vera með neinar getsakir um vilja okkar í þessu efni. Eins og ég hefi þegar tekið fram, var þessi fækkunartill. okkar gerð eingöngu með tilliti til sparnaðar, og til þess að þessi till. okkar yrði samþ., þorðum við ekki að ganga lengra í sparnaðinum.

Hv. frsm. vék að því, að á nokkrum stöðum væri ekki hægt að stækka prestaköllin og að n. hefði ekki séð sér fært að leggja til, að sum þeirra yrðu stækkuð. Það er rétt, að þetta á sér stað, en það sýnir, hvað prestaköllin eru misjöfn eins og þau eru nú. Þá vék bann að því, að ef prestaköllin væru ekki stór, þá væri minni nauðsyn á því að hækka launin. Þetta er alveg öfugt við það, sem alltaf er haldið fram, — eftir því sem aukatekjurnar eru minni, eftir því ætti að vera meiri þörf á því að hafa launin hærri. Sama er að segja um læknishéruðin. Í þeim fámennu eru launin hærri, af því að aukatekjurnar eru minni. Maður skyldi ætla, að svipað gilti um presta og lækna í þessu efni, því að hvorirtveggja taka laun fyrir sín aukaverk. Ég geri ekkert úr þeirri fullyrðingu hv. frsm., að í stórum prestaköllum fari svo mikið af launum prestanna í ferðakostnað.

Hv. frsm. minntist á dæmi úr Vestur-Húnavatnssýslu um það, hversu prestakall eigi að vera stórt þar, og fannst honum það mjög ósanngjarnt, þar sem það væri bæði víðlent og illt yfirferðar. En ég vil bara biðja hann um að hafa í huga, hvað sum læknishéruðin eru stór, ef hann ber þau saman við þetta prestakall; þau eru sum enn stærri og erfiðari yfirferðar.

Þá drap hv. frsm. á það, að hv. minni hl. n. ætlaðist til þess, að prestarnir kenndu á nokkrum stöðum. Í till. okkar í meiri hl. stendur það opið, að í nokkrum minnstu prestaköllunum, þar sem erfitt er að hafa þau stærri, geti menntamálaráðh. falið prestum kennslu á þeim stöðum heima í sinni sókn; lengra er ekki gengið í till. okkur, og þetta verður því aðeins heimilt, að séð sé fyrir því, að kennslan verði í fullu lagi. En ef á að framkvæma þetta eftir till. hv. minni hl., þá er ég hræddur um, að það yrði ekki vel metið af öllum, því að ég er ekki viss um, að prestar sækist yfirleitt eftir farkennslu.

Þá vék hv. frsm. að því, að það væri tæplega hægt að hafa þessa fækkun meiri, sökum þess að það væri gagnstætt vilja þjóðarinnar. Á hverju byggja menn þetta? Það má ef til vill segja, að við getum engir sagt, hver vilji þjóðarinnar er í þessu efni í raun og veru, en ef mark má taka á því, sem fram hefir komið um vilja þjóðarinnar í þessu efni, þá hefi ég miklu meiri rétt til þess að segja, að mikill meiri hl. þjóðarinnar fallist yfirleitt á þessa ráðstöfun okkar. Upp á síðkastið hafa verið haldnir fundir víða um land í því augnamiði að reyna að fá fólk til þess að samþ. mótmæli gegn prestafækkun. Margir prestar úti um land hafa orðið að boða aftur og aftur til slíkra funda til þess að vinna þessari viðleitni fylgi. Og hvernig hefir svo atkvgr. farið? Hún hefir farið þannig, að örfáir hafa greitt atkv. móti fækkuninni. fáeinir með, en allur þorrinn hefir setið hjá. Svo hefir verið hafin undirskriftasmölun og fólkinu sagt, að það ætti að missa prestinn sinn. Þannig hefir málflutningurinn verið; fólkinu hefir verið talin trú um það, að ef presturinn flytti af þeirri jörð, sem prestssetrið er á, þá tapaði það prestinum alveg. Ég veit ekki, hversu margir hafa lagt trúnað á þennan málflutning, en vera má, að mönnum hafi samt fundizt sem eitthvað gæti verið til í þessu, og með þessari miklu fyrirhöfn og þessari aðferð hefir tekizt að fá liðlega 5000 sálir á öllu landinu til þess að mótmæla því, að presturinn yrði tekinn af þeim. Nú er það, eins og gefur að skilja, mesti misskilningur, að það eigi að taka af fólkinu prestana. Það fær að halda þeim áfram, en hitt er rétt, að meðan kirkjurnar eru svona margar, þá á að messa sjaldnar í hverri kirkju, eftir að þessi skipun er komin á, heldur en nú er ætlazt til, að gert sé. En ég er sannfærður um það fyrirfram, að það verður ekki messað sjaldnar en nú er gert, því að þegar prestaköllin eru nokkuð stór og sóknarkirkjur fjölmennar, þá eru miklu meiri líkur fyrir því, að margt fólk komi til kirkju, svo að þá yrði áreiðanlega langtum minn, um messuföll en nú. Og verði prestaköllum fækkað, þá verða kirkjurnar byggðar stærri og fegurri en nú, og það verður aftur til þess, að fjölmennara verður við kirkju en ella og oftar verður messað á hverjum stað. Þetta skilur meiri hluti fólksins vel, og þess vegna er ekki hægt að fá fleiri til þess að samþ. áskorun um það, að prestarnir verði ekki teknir af fólkinu. Það eru aðeins liðlega 5000 kjósendur, sem hafa skrifað undir þessa áskorun. Ég get ekki borið um það, á hvaða aldri þetta fólk er; ef til vill eru einhverjir í þessum hóp 16 ára unglingar. En kjósendur þessa lands, sem eru 21 árs og eldri, eru um 64000, og ég hefi því fullan rétt til þess að halda því fram samkv. því, sem komið hefir fram í þessum efnum, að fólkið sé yfirleitt alls ekki á móti því, að prestaköllin verði stækkuð og prestum fækkað. Vitanlega gerum við, sem stöndum að þessari till., ráð fyrir því, að laun þessara starfsmanna verði sómasamleg, svo að þeir geti getið sig óskiptir við sínu starfi. Og þá eru miklu fremur líkur fyrir því, að ungir og efnilegir menn leggi þetta starf fyrir sig og geti svo innt gott starf af höndum seinna meir, þegar þeir hafa tekið við embættum. Ef stuðlað yrði að því, að prestarnir gætu gefið sig óskipta við sínu verki, þá finnst mér miklu meiri líkur til þess, að hægt yrði að efla kirkjulífið hér á landi, auðga það og gera það eftirsóknarverðar, og kennimennskuna glæsilegri og skemmtilegri en hún er nú á mörgum stöðum á landinu.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta. Hv. frsm. minni hl. hélt hóflega á sínu máli, eins og hans var von og vísa, og talaði um málið eins og það liggur fyrir frá hans sjónarmiði.

Viðvíkjandi brtt. frá hv. þm. N.-Þ. skal ég svo loks taka það fram, að ég man ekki, hvort um hana hefir verið rætt í n., en ég fyrir mitt leyti get fallizt á hana. Ég hygg, að það muni fara betur að haga þessari skiptingu eins og brtt. gerir ráð fyrir heldur en eins og í frv. felst. Ég er ekki nægilega kunnugur á þessum slóðum til þess að geta dæmt neitt nákvæmlegu um þetta, en ég þykist vita, að hv. þm. hafi svo góðan kunnugleika á þessu, að hann viti, hvað bezt hentar í þessu efni.