06.04.1936
Neðri deild: 43. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (2441)

52. mál, skipun prestakalla

*Frsm. minni hl. (Guðbrandur Ísberg):

Hv. þm. N.-Þ. beindi til mín þeirri fyrirspurn, hvort ég ætlaðist til þess, að prestarnir önnuðust farkennslu í þeim prestaköllum, sem gert er ráð fyrir, að prestar kenni í. Þetta vakir alls ekki fyrir mér, enda er hér um svo lítil prestaköll að ræða, að ef um heimavistarskóla verður að ræða á annað borð, þá verður áreiðanlega hægt að koma þeim fyrir á þeim stöðum, þar sem prestarnir eru búsettir. Að vísu hafa prestarnir á örfáum stöðum 2 kirkjur, eins og t. d. á Skógarströnd í Snæfellsnessýslu; þar er líka Narfeyrarsókn, en svæðið allt er ekki stærra en svo og liggur það vel við, að auðvelt verður að hafa þarna heimavistarskóla fyrir þau fáu börn, sem þar eru. Sama er að segja um Hvamm í Skagafirðinum.

Hv. frsm. meiri hl. undirstrikaði það enn á ný, að fyrir sér vekti fyrst og fremst sparnaður. Hann gat þess réttilega, að laun embættismannanna væru á 6. milljón. En væri ekki rétt að athuga, hvort hvergi er hægt að spara annarsstaðar. Í þessu sambandi má t. d. benda á það, að við vínverzlanirnar í landinu munu vinna nálægt 50 manns, en prestarnir, sem eiga að þjóna öllu landinu, eiga eftir till. meiri hl. n. að vera 65.

Að því er snertir tekjur þjóðarinnar, þá er skakkt að bera launagreiðslurnar saman við þær tekjur, sem aflað er af beinni framleiðslu. Þegar tekjur þjóðarinnar eru taldar hjá einstaklingum, þá skipta þær hundruðum milljóna. Þetta liggur í því, að peningarnir ganga frá einum til annars. Hv. 1. þm. Árn. hefir t. d. svo og svo miklar tekjur, en svo greiðir hann aftur starfsmönnum sínum meiri eða minni hluta af þeim. Allir telja fram sínar tekjur, og þegar laun eru greidd til embættismanna, þá er ekki hægt að miða við framleiðslutekjur þjóðarinnar, heldur verður að miða við heildartekjur hennar.

Hv. frsm. fór að bera saman lækna og presta, og vildi hann halda því fram, að ekki væri þörf á fleiri prestum en læknum. Ég vil benda á mjög mikinn mismun á þessu. Þegar læknir er kvaddur til sjúklings, þá þarf hann ekki að fara með skrifaðar ræður upp á vasann, sem tekur svo og svo langan tíma að semja, og svo fá læknar líka greiddan ferðakostnað, annaðhvort þannig, að þeir eru sóttir og þeim er skilað aftur af þeim, sem þarf á þeirra aðstoð að halda, eða að þeir fá greiddan ferðakostnað samkv. reikningi. Þessi ferðakostnaður er allmikill á hverju ári, og ef prestum er lögð sama skylda á herðar í þessu efni, án þess að þeir fái ferðakostnað, þá er gert svo greinilega upp á milli þessara stétta, að slíkt getur í rauninni alls ekki komið til mála. Þetta verður hv. þm. að taka með í reikninginn. Ef prestarnir eiga af launum sínum einum saman að standa straum af ferðakostnaði sínum, þá er ekki hægt að ætla þeim eins stórt svæði og læknunum, að slepptum öllum ræðum, sem þeir þurfa að sitja við að semja. Hér við bætist svo það, að við, sem erum í minni hl. n., ætlum prestunum að vera áfram eins og hingað til einskonar menningarleiðtogar þjóðarinnar, fyrst og fremst í sveitunum. Þess gætir vitanlega minna í kaupstöðunum, en ef prestarnir eru alltaf á ferðalagi um sveitirnar, þá hafa þeir ekki nægan tíma til þess að sinna þessu hlutverki.

Hv. frsm. minntist á það áðan, að ég teldi minni nauðsyn á því að hækka laun presta frá því, sem nú er, ef prestaköllin væru ekki stækkuð mjög mikið. Ég hefi áður gert grein fyrir skoðun minni í þessu efni. Samkv. till. meiri og minni hl. n. er gert ráð fyrir því, að prestarnir kosti ferðir sínar sjálfir, og því stærri sem héruðin eru, því meira þarf að bæta við laun þeirra til þess að þeir geti staðið straum af ferðakostnaðinum. Með því að hafa prestaköllin eins stór og gert er ráð fyrir verður varla komizt hjá því fyrir prestana í þeim prestaköllum að hafa bíl, og það er vitanlega dýrara en að nota, hest, eins og verið hefir.

Hv. frsm. vildi vefengja það, að þjóðin væri á móti þeirri prestafækkun, sem gert er ráð fyrir í frv. Ég vil benda hv. þm. á það, að þegar ekki hafa komið fram neinar raddir um nauðsyn þess að fækka prestum frá því, sem nú er, nema frá kommúnistum, sem ekki eru mannmargir í landinu ennþá, sem betur fer, þá er ekki hægt að halda því fram að þjóðin sé yfirleitt meðmælt prestafækkuninni. En það eru merkilega margir menn, sem eru farnir að glæpast á þessum kenningum og virðast ekki gera sér það ljóst, að þeir eru að taka undir kenningar og kröfur kommúnista um að vinna á móti kirkju og kristindómi, því að sumir þessara manna undirstrika það við hvaða tækifæri sem þeir geta, að þeir vilji kirkjunni allt hið bezta. En samtímis því, sem þeir segja þetta, þá ber, þeir fram till., sem miða í þá átt að gera prestaköllin svo úr garði, að ekki er hægt að sinna þeim, eða þá að enginn fæst til þess vegna þess, að það er svo mikill þrældómur. Ég er ekki að beina því til hv. 1. þm. Árn., að hann vilji vinna á móti kirkju og kristindómi í landinu. Hann segir sjálfur bið gagnstæða og heldur því fram, að hann vilji styrkja kirkjuna, og vil ég taka það trúanlegt, að svo sé. En sé það í raun og veru meining hans, þá er þess meiri ástæða fyrir hann að taka til endurskoðunar enn á ný till. sínar og félaga sinna um svo gífurlega prestafækkun sem hér er gert ráð fyrir. Ef það er vilji hans, að hér sé starfandi þjóðkirkja í landinu, sem er þess umkomin að vinna á móti þeirri stefnu, sem hér hefir orðið vart, eins og víða annarsstaðar, að afnema kirkju og kristindóm, þá er fullkomin ástæða til þess að fara varlega í því að gera prestaköllin svo stór, að aðeins ungir menn sjái sér fært að þjóna þeim.