06.04.1936
Neðri deild: 43. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í C-deild Alþingistíðinda. (2442)

52. mál, skipun prestakalla

*Eiríkur Einarsson:

Mér þykir rétt að gera með nokkrum orðum grein fyrir því, hvers vegna ég mun ekki við atkvgr. treystu mér til að fylgja frv. því, sem hér liggur fyrir. Eins og vitað er, þá hefir stór n., launamálanefnd, sem starfaði milli þinga, lokið störfum sínum og lagt fram margar brtt. um starfsmannahald og launaákvæði hinna opinberu starfsmanna ríkisins, og eins og er góðra gjalda vert, þá mun fjöldi af þeim till. ganga í þá átt, eins og ætlazt var til og mun hafa verið megintilgangurinn með skipun n., að spara á sem flestum sviðum. Af þessum till. n. hafa nokkrar þegar komið fram á Alþingi, og það, sem helzt mun horfa til framgangs hér, enda ekki ósennilegt eftir aðstöðunni í þinginu, er það mál, sem hér er til umr., sem er um skipun prestakalla.

Það er sagt, þegar spurt er um það, hvað þetta frv., ef samþ. verður, muni verða til mikils sparnaðar fyrir ríkið, að það muni ekki fara fram úr 60 þús. kr. Það er allt hey í harðindum, og það er ekki rétt að gera lítið úr þessu. En mér er það hugstætt mál, að þegar á að leggja niður af opinberum starfsmönnum heilar tylftir af þessum gömlu starfsmönnum þjóðarinnur úr prestastétt og spara með því 60 þús. kr., sem eins ný ég gat um áðan, er tiltölulega há upphæð, þá er með þessu ekki sparað meira en sem svarar launum þriggja hæstu tekjumanna landsins. Þegar litið er á þetta frá þessari hlið, þá má segja, að þetta sé lítill sparnaður, en hinsvegar munar ríkissjóðinn mikið um 60 þús. kr. á þessum erfiðu tímum. Mér gremst það beinlínis, að þegar kemur að því, að það eigi að lögfesta einhvern sparnað á embættaútlátum ríkissjóðs, þá vill alltaf svo til, að það er ráðizt á garðinn þar, sem hann er lægstur. Við skulum segja, að embættislýður landsins — hvort sem það eru læknar, til þess að græða líkamsmein manna, eða sýslumenn og lögreglustjórar, til þess að halda uppi lögunum, eða þá prestastéttin, til þess að halda uppi hinni andlegu menningu — sé velþóknanlegur landsbyggðinni, enda er þeim haldið uppi með miklum kostnaði í þarfir landsmanna. En þegar á að fara að spara eitthvað, þá er alltaf ráðizt þar á garðinn, sem hann er lægstur, og þá verður alltaf embættismannahaldið til sveita fyrir valinu. Það er vitað mál og líka skiljanlegt, að flestöll hin hæstlaunuðu embætti á síðari tímum — en mörg þeirra eru mjög mikilsvarðandi — eru stofnuð samkv. þörfum, sem urðu til fyrir löngu og einnig hafa skapazt samkv. viðhorfi síðari tíma, og er þar engu hægt að breyta. Ég vil slá því föstu, að ef maður á að gera ráð fyrir, að sveitafólkinu sé yfirleitt þægð í því að hafa prestana, þá er hér verið að ráðast á menningarréttindi þess. Ég vil ekki blanda mér mikið í það mál, hvort það séu almennar óskir, að ástandið haldist eins og það hefir verið, eða gera megi ráð fyrir því, að það hafi komið fram vilji um að fækka þeim. Ég vil ekki segja neitt um þetta, en ég staðhæfi, að frá sjónarmiði þeirra, sem vilja vera ákveðnir um aðrahvora skoðunina, hvað vilja manna snertir í þessu efni, þá er það ekki gott að taka munninn of fullan til staðhæfinga. Og eftir því, sem ég veit bezt, þá er það, sem helzt hefir komið fram opinberlega í þessu máli, til stuðnings fyrir þá, sem halda því fram, að sveitafólkinu sé það heldur mótfallið, að prestunum sé fækkað. Þó að það séu ekki nema 6000 manns, sem liggja undirskriftaskjöl frá hér á Alþingi, þá eru það samt nokkuð margir, og má ekki gera lítið úr því. Ég veit líka, að í vissum héruðum, eins og t. d. í Árnessýslu — en þaðan munu liggja fyrir með því fæsta af slíkum undirskriftaskjölum, líklega frá, tveim eða þremur hreppum, og einnig er von á skjali úr Arnarbælissókn — hafa legið fyrir frá safnaða- og héraðafundum, þar sem þetta mál hefir verið tekið til meðferðar af fulltrúum frá fólkinu, mótmæli gegn þessu. Það er auðvitað ekki rétt að gera mjög mikið úr þessu, en að því leyti, sem þetta hefir komið fram og verið staðfest, þá hnígur vilji fólksins í þessa átt. Ég held því af þessu, sem ég nú hefi sagt, að þá sé það óverjandi að gera ráðstafanir til breyt. á prestaskipuninni í þá átt að fækka prestum í landinu, ef það eru ekki nægileg skilríki fyrir því, að fólkið vilji þetta. Við, sem erum að guma af því, að einn þátturinn í okkar góðu siðmenningu sé lýðræðið, höfum ekki af miklu að státa, ef það fær ekki að njóta sín, sem er sérstaklega einkamál fólksins flestum öðrum málum fremur, enda veit ég þá ekki, hvað ætti að fá að njóta sín. Það er svo með kirkjuna, með öllum hennar kostum og göllum frá fornu fari, að fólkið hefir talið hana menningarmiðstöð sína og að ýmsu leyti athvarf sitt, þó að á ýmsu hafi gengið í þeim efnum og margt hafi verið hægt að segja með réttu henni til óvirðingar. Og þegar um það er að ræða á hinu háa Alþingi að fækka prestunum, þessum leiðandi mönnum fólksins um menningarmál, um svo stóran mun sem till. gera ráð fyrir, þá finnst mér óverjandi að lögfesta það án þess að fólkið sé spurt um það, hvort það er vilji þess eða ekki. Þó að það væri ekkert annað en þetta eitt, sem mætti tilgreina, þá er það nóg til þess, að ég vil ekki greiða atkv. slíku frv. Slíkt getur fyrst komið til mála, ef meiri hluti þjóðarinnar segir, að hann hafi ekkert með prestana að gera. Ef niðurstaðan verður þessi, þá gæti Alþingi ekkert annað gert en að hlíta þeirri niðurstöðu, en við höfum ekki ástæðu til þess að ætla, að þetta verði á næstunni. Ef á að gera breyt. á þessu, þá er það réttmæt undirstaða málsins, að fólkið sé spurt. — Það er lítið, sem gert hefir verið að því að fækka prestaköllum í sparnaðarskyni, en ég veit það t. d., að þegar Ólafsvallaprestakall var lagt niður og lagt undir Stóranúpsprestakall, að þegar svo vildi til, að prestaskipti urðu eftir sameininguna, þá kom það til athugunar, hvort hinn nýi prestur skyldi vera búsettur í þessu prestakallinu eða hinu, og varð um þetta leiðinlegur ágreiningur. Og ég get trúað, að ef mikil prestakallasamsteypa ætti að fara fram víða um land, þá myndi verða togstreita og ágreiningur milli hreppanna um það, hvort presturinn skyldi vera búsettur í þessum hreppnum eða hinum.

Það er auðvitað mikið álitamál, hvað mikil þörf er fyrir prestana, og vil ég hafa um það sem fæst orð, enda eru mjög skiptar skoðanir um það víða um land. Það er eitt, sem hefir verið nefnt í þessu sambandi af þeim, sem vilja fækka prestunum, og það er útvarpið. Ég skal játa, að þetta er töluvert atriði. En það er á það að líta, hvað almenningi finnst, að sé fólgið í því starfi, sem presturinn innir af hendi. En þetta hefir verið rætt mjög lauslega, eða þá alls ekki. En okkur vantar alþjóðlegar rólegar umræður um þetta. Það hefir t. d. verið rætt langtum meira á síðari tímum um viðhorf og þörf kennarastéttarinnar heldur en um þörfina fyrir prestana og störf þeirra. Þó að prestarnir hafi haft margt ágætt í fari sínu, þá verður því ekki neitað, að á þeim tímum, sem þeir náðu mestum völdum, þá hætti þeim mest við að syndga upp á náðina. En það þarf ekki að segja það um prestana núna, að þeir hafi mikil völd, því að þeir eru núna hálfgerðar hornrekur í þjóðfélaginu. En við verðum að vera prestastéttinni þakklátir fyrir allt það, sem hún hefir vel gert, og þegar kveðinn er upp dómur um þessa stétt, þá verðum við að muna það, að í henni hafa verið margir ágætir menn, svo sem Jón Vídalín, Hallgrímur Pétursson, Matthías Jochumsson og Haraldur Níelsson. Við getum ekki gengið framhjá þessu sem verulegu atriði og ættum því ekki að vera mjög kotrosknir, þegar við erum að dæma um það, hvort þörf sé fyrir prestastéttina eða ekki. Ég vil, að þetta mál sé rætt fyrir opnum dyrum, fyrir allri þjóðinni, og að hún sé spurð að því, hvort hún vilji hafa þessa stétt áfram, sem hefir verið talið, að hafi haldið uppi menningu úti um sveitir landsins frá árinu 1000 til þessa dags. Þar sem ég vil ekki taka þátt í því verki þingsins að samþ. þetta, án þess að hafa skilríki frá fólkinu um, að það vilji þetta, þá þykist ég hafa góða ástæðu til þess að segja nei við þessu frv. — Ég mun ekki fara núna út í einstaka liði frv., en ef til vill verður ástæða til þess seinna, þegar maður sér betur, hverju fram vindur um framgang málsins.