06.04.1936
Neðri deild: 43. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (2444)

52. mál, skipun prestakalla

*Jón Pálmason:

Hv. þm. Ak. hefir þegar gert svo ljósa grein fyrir skoðunum og brtt. minni hl. í þessu máli, að ég hefi þar engu við að bæta. En ég vil þó fara nokkrum orðum um málið sjálft, áður en umr. lýkur.

Ég vil þá fyrst fara nokkrum orðum um launamálið í heild. Það var tilkynnt í launamálanefnd á síðasta þingi, að afráðið væri að afgr. ekki launamálið á því þingi, en hinsvegar yrði það afgr. á því þingi, sem nú stendur yfir. Því afgr. ekki launamn. frv. sjálft þá. En sjálfstæðismennirnir í n., og mér er óhætt að segja Sjálfstfl. á þingi allur, gerði auðvitað fastlega ráð fyrir því, að málið yrði í heild afgr. á þingi nú í samræmi við ofangreinda tilkynningu. En á því virðast litlar eða engar horfur. Frv. var lagt seint fram, og þingnefndin hefir lítið starfað að því síðan.

Það virðist því næsta einkennilegt, að nú skuli vera borið fram frv., eitt út af fyrir sig, sem gerir ráð fyrir að fækka í einni stétt embættismanna, prestastéttinni, um 40. Þetta verður ekki skýrt á annan veg en þann, að hv. meiri hl. n. telji þetta mest aðkallandi af því, sem n. hefir til meðferðar.

Ég tel mikla þörf á því að afgr. launamálið í heild sem fyrst, til þess að skapa réttlæti og færa niður gjöld ríkissjóðs. En ég get ekki fallizt á það, að heppilegasta leiðin til þess að færa niður gjöldin á þessu sviði sé sú, að fækka prestum. Undanfarið hefir það verið svo, að í hvert skipti, sem minnzt hefir verið á að fækka embættismönnum, hefir ávalll verið ráðizt á sveitirnar, jafnframt því, sem opinberum starfsmönnum í kaupstöðunum hefir verið fjölgað á hverju þingi, einkum þó í Reykjavík.

Úr því að engar till. hafa komið fram um það í alvöru að fækka embættismönnum í kaupstöðunum, verð ég að álíta, að með þessu frv. sé farið alveg aftan að siðunum. Þó væru till. frv. auðvitað alveg fosvaranlegar og jafnvel sjálfsagðar, ef álitið væri, að þessi stétt, prestastéttin, væri þjóðinni óþörf í heild sinni. En meiri hl. virðist þó ekki vera á þeirri skoðun. En sé nú hér um þarfa stétt að ræða, sem ber að styrkja, nær svo mikil breyt. sem þetta auðvitað engri átt. — Starf prestanna er svo mjög annars eðlis en störf lækna, að það hlýtur að verða miklu tímafrekara, ef það er rækt sem vera ber. Meiri hl. vill halda því fram, að störf presta liggi nær eingöngu í prédikunum og svokölluðum aukaverkum. En ég tel þetta alveg fjarstæðu. Aðalstarf prestanna er að mínu áliti hið uppeldislega, þ. c. uppfræðslu ungdómsins í kristilegum fræðum, og eigi hún að fara vel úr hendi og vera rækt svo sem vera ber og gert hefir verið áður víðast hvar, er það starf svo tímafrekt, að ekki kemur til mála að ætla prestum svo stór prestaköll sem frv. gerir ráð fyrir. Það má að vísu segja, að þar sem aðeins séu tveir prestar í Reykjavík, ættu sveitirnar að geta komizt af með færri presta en þar eru nú. Því að augljóst er, að í Reykjavík geta tveir prestar ekki lagt mikla vinnu í barnafræðsluna, þótt allir séu af vilja gerðir. En úr slíkum annmörkum á að bæta, en ekki auka við þá með því að leggja niður 40 presta.

Viðvíkjandi aukakennslu presta vil ég segja það, að stefna mín í þessu máli er sú, að auk, skuli störf presta, en ekki fækka þeim. Kennsla er einmitt náskyld þeirra núverandi starfi. Ef presturinn er áhrifaríkur maður, getur hann einmitt sem kennari haft veruleg áhrif á hugsunarhátt uppvaxandi kynslóðar. Ég er því þeirri stefnu fylgjandi, að prestar hafi meira að segja í kennslulegu tilliti heldur en áður. — Um hitt má deila, hvort rétt sé að lögbjóða, að prestar á vissum stöðum annist barnafræðslu, en ég staðhæfi það, að fullir möguleikar eru til þess, að prestar annist slíka fræðslu í smærri prestaköllum.

Út af því, sem hv. 9. landsk. sagði um Brjánslækjarprestakall, skal ég láta, að vel má vera, að hentugra sé, að presturinn hafi búsetu annarsstaðar. Minni hl. mun taka til velviljaðrar athugunar slíkar brtt., er fram kunna að koma, eins og t. d. brtt. hv. þm. N.-Þ.

Ég get ekki séð neitt því til fyrirstöðu, að presturinn á Þingvöllum sé þar jafnframt kennari og umsjónarmaður. Ég álít það vel við eigandi, að æðsti maður þar sé presturinn.

Minni hl. telur það vel viðeigandi, að prestur sé settur að nýju á hinn helga Hólastól. Viðvíkjandi kennslu þeirri, sem þeim presti er ætluð í frv., má geta þess, að prófasturinn í Viðvík kenndi lengi íslenzku á Hólum, þrátt fyrir þá vegalengd, sem þar er á milli. Því virðist engin frágangssök, að prestur, sem situr á staðnum, kenni við skólann.

Við, sem erum í minni hl., viljum ná sparnaði með því að auka við störf presta, en ekki með því að fækka prestum stórlega og hækka laun hinna, sem eftir eru.

Ég vil að lokum vona, að hv. þm. athugi vel, hvað þeir eru að gera, áður en þeir rétta upp höndina með þessu frv.