08.04.1936
Neðri deild: 47. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í C-deild Alþingistíðinda. (2452)

52. mál, skipun prestakalla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Það, sem mest hefir borið á í ræðum þeirra hv. þm., sem hafa andmælt þessu máli, eru tilvitnanir þeirra í þjóðarviljann og það, að hér á Alþingi liggi fyrir undirskriftir frá mörgum mönnum, sem skori á Alþingi að framkvæma ekki þessa prestafækkun, sem frv. gerir ráð fyrir. Og hv. 11. landsk. gekk svo langt, að það var helzt á honum að skilja, að hann gæti ekki samvizku sinnar vegna greitt atkv. með neinu máli, nema hann vissi fyrst um þjóðarviljann. Hvort hann liggur nú alltaf fyrir, skal ég láta ósagt, en ég gæti bezt trúað því, að ef hv. þm. vildi fylgja þessari reglu út í það ýtrasta, þá yrði hann blátt áfram að hætta að vera þm. Ég hefi nú lítið á þessi undirskriftaskjöl og athugað og aflað mér upplýsinga um, hvernig þau eru til orðin, og get ég því sagt ofurlítið af sögu sumra þeirra. Eitt er t. d. úr sókn, þar sem eru 2 bæir og engin kirkja hefir verið í 10 ár. 4 menn af öðrum þessara 2 bæja skora nú á Alþingi að leggja ekki niður þessa sókn, þar sem engin kirkja hefir verið í 10 ár og aldrei verið messað. Þetta er nú eitt sýnishornið af þjóðarviljanum. — Skammt frá Rvík var tvisvar sinnum boðað til fundar af prestinum til þess að ræða þetta mál. Í fyrra skiptið kom enginn, en í seinna skiptið komu að eins 7 menn, sem þó ekki fengust allir til að skrifa undir. Lagði þá presturinn af stað í aukahúsvitjun og fékk með því móti börn og gamalmenni til þess að skrifa undir hjá sér, og liggur það skjal nú hér fyrir hv. Alþingi. — Þriðja dæmið get ég tekið úr stað, þar sem enginn prestur hefir verið í nokkur ár. Jörðin, sem presturinn bjó á, var að fara í niðurníðslu, og í fyrra skrifuðu flestallir úr þeirri sókn og báðu mig að gangast í það við ráðuneytið, að ákveðinn bóndi í sveitinni fengi erfðafestuábúð á jörðinni, svo að hún væri byggð, því að þangað kæmi aldrei prestur og þeir kærðu sig ekki heldur um prest. Prestur og prófastur mæltu með þessu. Ég beitti mér fyrir þessu, og á jörðina flutti bóndinn, þótt hann ekki gæti fengið hana til ábúðar, nema þar til prestur kæmi. En nú liggja hér fyrir undirskriftir frá þessum sömu mönnum, sem í fyrr, alls ekki kærðu sig um að fá prest. Svona gæti ég haldið áfram og svona er mikið á þessum undirskriftum að byggja. Það hefir verið sent út um land frá Rvík og beðið um að safna eins mörgum undirskriftum og hægt væri. Og menn fóru á stúfana og náðu í þessi 6 þús. manns, sumpart af áhuga fyrir málefninu, og sumpart af greiðvikni við þá, sem báðu þá um að gangast í þessa undirskriftasmölun. En í fleiri hefir ekki náðst, þrátt fyrir allar bænir um að skrifa undir. Hvað mikið má leggja upp úr þessum undirskriftum og þessum „almenna vilja“, skal ég ekki um dæma, en ég fyrir mitt leyti legg lítið upp úr þeim. En hinu legg ég meira upp úr, að þetta mál er búið að liggja hér a. m. k. yfir 2 þing, og á milli þeirra hefir öllum hv. þm. borið skylda til að tala um þetta mál sem önnur við kjósendur sína, og ég geri ráð fyrir, að þeir hafi gert það, svo að þeir ættu að vita vilja kjósenda sinna í þessu efni. Og ég geri ráð fyrir, að hv. 11. landsk. hafi líka gert þetta, þó að hann kannske telji sig ekki eiga neitt sérstakt kjördæmi, af því hann er landsk., en hann hefir sjálfsagt talað við þá, sem hann telur sig helzt hafa umboð fyrir. Þegar ég talaði um þetta mál við kjósendur mína í fyrra, þá voru þeir því yfirleitt fylgjandi. En það, sem rekur á eftir með að gera þessa fækkun nú strax, er það, að eftir því, sem ég hefi komizt næst, þá eru 11 prestssetur landsins óveitt, og eru sum búin að vera það milli 10–20 ár, þar sem enginn hefir fengizt til að þjóna þeim. Þessar jarðir, sem þarna er um að ræða, eru í nokkurskonar millibilsástandi og fara í niðurníðslu, ef ekki er ráðin einhver hóf á. Þess vegna þarf að ráða því til lykta, hvort koma á prestur á þessar jarðir eða ekki, og þess vegna tel ég, að þingið eigi að afgr. þetta mál nú, hvað sem sjálfum launamálunum líður.

Hv. þm. V.-Sk. hélt því fram áðan, að fyrir sumum vekti þessi prestafækkun í því ljósi, að þeir teldu, að trúarlífið í landinu mætti missa sig. En fyrir mér vakir þetta mál í því ljósi, að þetta sé eitt af helztu ráðunum til þess að auka trúmálalífið í landinu. Mín reynsla á prestum þessa lands er sú, að þegar þeir af alhug gefa sig að starfinu og hafa nóg að gera, þá skapi þeir í kringum sig trúarlíf, en aftur á móti, þegar þeir þurfa að margskipta sér milli starfa, þá vanrækja þeir prestsstarfið meira og minna, og þess vegna er trúarlíf í þeim sóknum aldrei mikið. Ég gæti, ef ég kærði mig um, tilfæri dæmi þessu til sönnunar um núlifandi presta, sem hafa gefið sig að sínu starfi, en svo fyrir breyttar aðstæður hafa fleygt sér út í önnur mál og gefið sig þeim á hönd, og hafa þeir úr því verið lítils metnir af sínum sóknarbörnum og lítið trúarlíf í kringum þá. Það er meira að segja ekki víst, að maður þurfi að fara út fyrir sali Alþingis til þess að finna þess dæmi. Þess vegna hygg ég, að helzt, ráðið til þess að skapa meira trúarlíf í landinu heldur en nú er sé í því fólgið fyrst og fremst að skapa prestunum þá aðstöðu að þeir geti gefið sig að sínu starfi óskiptir, en þurfi ekki að skipta sér í ótal smábúta og vera svo hvergi heilir. Ég vænti því, að hv. þm. V.-Sk. sjái, að það vakir alls ekki fyrir mér að vilja eyða trúarlífinu í landinu, því að ég vil þvert á móti glæða það.

Hvað viðvíkur þeim till., sem fram hafa komið við þetta frv., þá skal ég fúslega viðurkenna, að sumar af þeim eru á fullum rökum byggðar, og gildir það þá sérstaklega um 13. liðinn, því að ég get gengið inn á, að það sé þægilegra að þjóna frá Flatey heldur en Brjánslæk. Aftur á móti get ég ekki verið sammála hv. 9. landsk., þar sem hann heldur því fram, að það sé of mikið fyrir prestinn í Sauðlauksdal að bæta við sig 2 kirkjum utan hreppsins, en hann hefir aðeins haft hreppinn einan. Ég tel, að hann geti skotizt yfir fjörðinn og messað þar líka. — Annars er það svo, eins og nú er með kirkju- og prestafjöldann í landinu, að það mun láta nærri, að það komi ein messa á kirkju þriðja hvern sunnudag. En ef þessi fækkun verður gerð, þá kemur ein messa á kirkju fjórða hvern sunnudag, eða rúmlega það. Það er nú allur munurinn! Nú vil ég biðja menn, sem eru kunnugir víða um land, að athuga t. d. trúmálaáhuga hjá séra Stefáni á Völlum, sem ekki getur messað nema fimmta hvern sunnudag í hverri kirkju, og svo hinsvegar hjá séra Magnúsi á Stað í Grunnavík og séra Haraldi á Brekku í Mjóafirði, sem geta messað á hverjum sunnudegi, og athuga það, hvort út frá þessum vikulegu messum hjá þessum prestum hafi myndazt sá trúmálaáhugi, sem sambærilegur sé við það, sem er hjá séra Stefáni á Völlum. Ég þori óhræddur að fullyrða, að hver maður, sem fer í kringum land og athugar þetta, skal ekki finna nokkurt samband milli trúmálaáhugans og þess, að oft sé messað. Slíkt fer eftir prestinum sjálfum, en ekki því, hversu oft hann messar. — Fyrir mér vakir þetta mál þess vegna þannig, að það eigi fyrst og fremst að leysast á þessu þingi, af því að það þarf að komast fast skipulag á það, hvernig fara á með þessi 11 prestssetur, sem nú hafa verið óveitt í mörg ár, og í öðru lagi vil ég með því skapa prestunum þá aðstöðu, að þeir geti gefið sig óskiptir við sinn starfi, en það tel ég höfuðatriði til þess, að sæmilega góður prestur geti skapað trúarlíf í kringum sig. Þetta tvennt er mér höfuðatriði málsins og gerir það að verkum, að ég fylgi frv. með þeim breyt., sem það hefir fengið hjá n.