05.03.1936
Neðri deild: 16. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (2473)

54. mál, vinnudeilur

Aðalefni septembersættarinnar er þetta:

Vinnuveitendafélagið og Alþýðusambandið (hér síðar nefnd aðalfélögin) viðurkenna hvort annað og rétt hvors annars til þess að gera verksviptingu (Lockout) og verkfall (Strike). Þó skal engin vinnustöðvun ná fram að ganga nema samþ. sé með minnst 3/4 atkv., greiddra á fundi, sem samkv. 1. hlutaðeigandi félagsskapar hefir fullveldi til þess að taka ákvarðanir um vinnustöðvanir.

Nú ætlar vinnuveitendafélagið eða Alþýðusambandið að leggja till. um vinnustöðvun fyrir fullvalda fund, og skal þá tilkynna þetta hinu félaginu í sérstöku ábyrgðarbréfi, og má vinnustöðvun ekki byrja fyrr en liðnir eru 14 dagar frá tilkynningunni.

samþ. fullvalda fundur till. um vinnustöðvun, og skal þá einnig tilkynna hinu aðalfélaginu þetta í sérstöku ábyrgðarbréfi, og má vinnustöðvun eigi byrja fyrr en 7 dagar eru liðnir frá þeirri tilkynning.

Bæði aðalfélögin skuldbinda sig til þess að samþ. eigi né styðja nokkra verksvipting eða verkfall, ef brotið hefir verið gegn reglum þeim, sem ég nú hefi greint frá. Ef ágreiningur rís um efni þessa sáttmála eða ef annar aðili telur, að hinn hafi brotið ákvæði hans, skulu aðalfélögin fyrst reyna að jafna málið með sér, en ef það tekst ekki, þá skyldi reynt að koma á sérstökum dómstóli, sem skæri úr öllum ágreiningi um þetta efni. Og þetta hefir verið gert í Danmörku. Þar gilda um þetta efni l. frá 4. okt. 1919, um „Den faste Voldgiftsret“. Aðalefni þessara l. er tekið upp í kaflanum um vinnudómstól Íslands í þessu frv. Ennfremur eru í Danmörku l. frá 18. jan. 1934, um sáttasemjara ríkisins. Í þeim l. er ákveðið, að sáttasemjarar hafi vald til þess að banna vinnustöðvun eða verksvipting í eina viku. Eru ekki nema nokkrir dagar liðnir síðan sáttasemjarar í Danmörku urðu að grípa til þess að banna hina miklu yfirvofandi vinnustöðvun þar í landi.

Í Noregi gilda mjög svipuð ákvæði um þetta efni eins og í Danmörku. Aðallöggjöfin er frá 5. maí 1927 og nefnist „Lov om Arbeidstvister“. Þeim 1. hefir svo aftur verið breytt 1931, 1933 og 1934. — Þar eru almenn ákvæði um vinnumálefni, eða samskonar ákvæði og eru í septembersætt Dana. Tveir dómstólar eru þar í vinnumálum; nefnist annar „Arbeidsretten“, og svipar honum til þess, sem hér er tekið upp um vinnudómstól Íslands. Hinn dómstóllinn nefnist „Boikottsretten“, og sker hann úr því, hvort löglegt sé að skella á því, sem á erlendu máli er kallað „Boikott“. Þá eru þar ennfremur ákvæði um sáttasemjara, og eru þau ákvæði að miklu leyti tekin hér upp í þetta frv. — Loks eru þar ströng refsiákvæði, svo sem fangelsisrefsingar, en þær eru ekki teknar upp í þetta frv. Okkur flm. þótti ekki nauðsynlegt, eins og hér háttar til í þessu þjóðfélagi, að fangelsisákvæði séu í löggjöf um jafnviðkvæmt málefni eins og vinnulöggjöf hlýtur að vera, og við álítum það þeim mun ónauðsynlegra, þar sem það er víst, að þó þessi ákvæði fælust í löggjöfinni, þá mundi vart verða gripið til þess að beita þeim, enda má segja, að það sé gegn réttarmeðvitund þjóðarinnar að beita fangelsisrefsingu út af slíku broti, sem hér er um að ræða.

Í Svíþjóð eru 1. frá 22. júní 1928, sem nefnast „Lag om Kollektivavtal“. Það er í fyrsta lagi um vinnusamninga, og eru þar aftur tekin upp grundvallaratriði septembersættar Dana. — Þar eru l. um gerðardómendur frá 28. maí 1920, og þau fela það í sér, að ríkisvaldið eigi að skipa gerðardóm, sem aðeins sé gripið til, ef báðir aðiljar óska þess. — Loks eru ákvæði um vinnudómstól, sem svipar til þeirrar löggjafar, sem er hjá hinum Norðurlandaþjóðunum. — Og ennfremur eru þar l. frá 1920 um sáttasemjara. Þau hafa verið aukin aftur 1937, og svipar þeim einnig mjög til þess, sem gildir hjá hinum Norðurlandaþjóðunum. Þó skal þess getið, að vald sáttasemjara í Svíþjóð er ekki eins ríkt eins og í Danmörku og Noregi.

Í Finnlandi eru nokkuð svipuð l. gildandi, þó ekki fyllilega eins víðtæk eins og hjá hinum Norðurlandaþjóðunum.

Ef við lítum til annara landa en Norðurlanda, þá sjáum við, að flestallar þjóðir hafa beint látið þessi mál til sín taka. — Ef við athugum, hvernig Englendingar hafa skipað þessum málum hjá sér, þá er þess að geta, að þar í landi eru l. um vinnudómstól, sem nefnast „Industrial Courts Act“, frá 1919. Þessi vinnudómstóll er skipaður fulltrúum vinnuveitenda og verkamanna, og auk þess óhlutdrægum mönnum. Dómstóllinn er kostaður af ríkinu. Atvmrh. vísar vinnumálefnum til þessa dómstóls, en aðeins eftir ósk beggja aðilja. Úrskurðir dómstólsins hafa ekki lagagildi, en verða að skoðast sem sáttatilraun. En þá getur annar aðili leitað til atvmrh. og beðið hann að leita sátta. Atvmrh. getur því skipað sérstaka sáttanefnd til þess að leysa málið, eða snúið sér til einhvers af hinum föstu sáttasemjurum ríkisins, en þeir eru 6 starfandi þar í landi. Annars eru ekki lagðar sérstakar hömlur á verkföll eða verksvipting í Englandi, nema í ýmsum atvinnugreinum; t. d. í gasiðnaði, rafmagns- og vatnsveituiðnaði eru verkföll gegn gildandi samningum ólögleg og þau dæmd skaðabótaskyld. En það eru ströng ákvæði um allsherjarverkföll og öll slík verkföll, sem ætla má, að sérstaklega sé beint gegn ríkisvaldinu. Þau 1., sem gilda um þessi efni, voru sett 1927 og nefnast l. um vinnudeilur og verklýðsfélög, eða á ensku „Trade Disputes and Trade Unions Act.“ Þau voru sett að gefnu tilefni, eftir allsherjarverkfallið, sem skellt var á í Englandi í maímánuði 1926 og átti rót sína að rekja til þess ágreinings, sem lengi hafði verið þar í landi út af kolaiðnaðinum. Sú vinnustöðvun hafði ákaflega óheillavænleg áhrif á allt þjóðlífið og raskaði gersamlega jafnvægi þess. Ég var sjálfur nokkuð kunnugur þessari deilu, vegna þess að ég var þá við nám í Englandi, og enginn, sem þar í landi dvaldi þá, gat látið slíkt framhjá sér fara. Ástandið í enska þjóðlífinu var þá líkast því, sem maður hefði getað ímyndað sér, að ófriður hefði gripið þjóðina. En þessi deila, sem raunar lyktaði á þann hátt, að forsprakkar verklýðsfélaganna urðu að kalla aftur allsherjarverkfallið, var tilefni til löggjafar um bann gegn allsherjarverkföllum. Aðalákvæði þeirra l. eru þessi :

„Samúðarverkfall, hvort sem það er staðbundið eða nær til alþjóðar, sem er undirbúið eða til þess ætlað að kúga stjórnarvöldin, annaðhvort beint eða með því að leiða vandræði yfir þjóðfélagið, er ólöglegt, enda sé það eigi innan þeirra atvinnu- eða iðngreinar, þar sem hin upphaflega deila hófst.

Verkbönn eru ólögleg með sama hætti. Öll einföld verkföll, sem ekki snerta deilur um vinnutíma, laun eða önnur atvinnukjör, eru ólögleg, ef þau eru undirbúin eða til þess ætluð að kúga ríkisvaldið, annaðhvort beint eða með því að leiða vandræði yfir þjóðfélagið, svo sem allsherjarkolaverkfall til þess að tryggja lögbundið lágmarkskaup.“

Svo segir ennfremur: „Allir starfsmenn verklýðsfélaga, þar með taldir starfsmenn félagsdeilda, eftirlitsmenn vinnustöðva, meðlimir verkfallsnefnda, hvort sem um er að ræða alþjóðar-, héraðs- eða deildarverkfall, og allir aðrir aðiljar (að undanteknum verkamönnunum sjálfum) baka sér glæpsamlega ábyrgð, ef þeir á nokkurn hátt taka þátt í eða vinna að framgangi verkfalls, sem gert er ólöglegt með l. þessum, jafnvel þótt þeim kunni að vera ókunnugt um staðreyndir þær og ástæður, sem gera verkfallið ólöglegt. Ennfremur bakar hver einstakur verkamaður sér glæpsamlega ábyrgð, sem auk þess að leggja niður vinnu gerist verkfallssmali, eða á nokkurn hátt veitir virkan stuðning.“

Svona ströng ákvæði hafa hinir rólegu Bretar álitið nauðsynlegt að taka upp í sína löggjöf til þess að hindra þessa alvarlegustu tegund verkfalla.

Í Frakklundi og Belgíu eru sáttanefndir, sem skipaðar eru dómurum af hendi þess opinbera og fulltrúum aðilja. En eins og kunnugt er, þá er eins og nú standa sakir ekki löglegt að gera vinnustöðvun í Þýzkalandi, Ítalíu og Rússlandi, Þar er ríkisvaldið ofar öllu og bannar allt slíkt, er gæti haft truflandi áhrif á atvinnulífið. — Fjöldi annara þjóða, og nær því allar þjóðir hafa látið þessi málefni meira eða minna til sín taka. Sérstaklega eru ströng ákvæði, sem gilda um þetta í Ástralíu. — Þá er vinnulöggjöf í Austurríki, Nýja-Sjálandi og ýmsum löndum í Suður-Ameríku. — Það ríki, sem minnst hefir látið þetta mál til sín taka með löggjöf — a. m. k. fram til síðustu tíma — eru Bandaríkin í Norður-Ameríku.

Ég hefi nú nokkuð bent á það, hvernig helztu menningarþjóðirnar hafa talið, að þeim beri að hafa afskipti af þessu máli. Ég hefi einnig bent á það, að ástandið hér á landi er slíkt, að það ber nauðsyn til þess að skipa þessum málum einnig með lögum. Og mér finnst, að enginn hafi meiri ástæðu til þess að hefjast handa um það, að slík löggjöf sé sett heldur en einmitt þeir, sem fara með ríkisvaldið á hverri stundu. Nú hefir ekki orðið svo hér. En ég vænti þess, að það verði þeim mun auðfengnara samkomulag um framgang þessa máls, þar sem það er augljóst, að það eru aðrir en þeir, sem bera það fram, sem mesta hagsmuni hafa af því, að því sé skipað með lögum.

Ég skal þá víkja nokkuð að frv. sjálfu. Það þykir að vísu ekki hlýða við 1. umr. að fara út í einstök atriði frv., en ég mun aðeins geta um efni þess.

Það eru í fyrsta lagi ákvæði um samninga milli verkamanna og vinnuveitenda, og þess er krafizt, að samningarnir séu jafnan skriflegir og ákveðinn uppsagnarfrestur í hverjum samningi. Þá eru einnig ákvæði um það, að ef ágreiningur verður út af gerðum samningi, þá eigi að vísa þeim ágreiningi til vinnudómstóls, sem ég síðar mun víkja að. Ennfremur eru samskonar ákvæði tekin upp í frv. og alstaðar gilda annarsstaðar á Norðurlöndum, að það þurfi ákveðin skilyrði til þess að hægt sé að koma fram vinnustöðvunum, hvort sem um er að ræða verksvipting af hendi vinnuveitenda eða verkfall af hendi verkamanna, og þau skilyrði, sem hér eru tekin upp, eru nákvæmlega þau sömu og nú gilda í Danmörku. — Þá eru aukin ákvæði um sáttatilraunir í vinnudeilum frá því, sem nú er. Það er ætlazt til þess, að atvmrh. skipi einn ríkissáttasemjara og þrjá héraðssáttasemjara, sem skuli búsettir á Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði. Eins og í l. frá 1925 er sáttasemjurum ætlað að fylgjast með í því, sem gerist á sviði atvinnulífsins, einkum ef líklegt má telja, að vinnustöðvun sé yfirvofandi, og þeir eiga að standa í nánu sambandi hver við aðra. — Ef sáttasemjari fær vitneskju um það, að vinnudeila sé yfirvofandi, getur hann krafizt skýrslna af aðiljum um málið. — Sáttasemjara er heimilt að banna yfirvofandi vinnustöðvun, þó aðeins um stund, og er slíkt bann vitanlega tekið upp til þess að freista þess í lengstu lög að afstýra þeim vandræðum, sem af vinnustöðvuninni kynni að leiða.

Þá eru ákvæði um það, að taka upp svipaðan vinnudómstól og hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa. Vinnudómstóllinn á að vera skipaður mönnum. Hæstiréttur tilnefnir 3, sem allir skulu vera lögfræðingar og ekki mega hafa þá aðstöðu, að þeir geti talizt vilhallir í málefnum vinnuveitenda eða verkamanna. Auk þess skulu 2 menn eiga sæti í dómnum, sem tilnefndir eru af aðiljum sjálfum, vinnuveitendum og verkamönnum. —

Þessi dómstóll á að hafa það hlutverk að dæma um allan ágreining út af samningum þeim, sem gilda milli verkamanna og vinnuveitenda. Og auk þess eru ýms ákveðin mál, sem annarhvor þessara aðilja getur kært til dómstólsins. Þessi dómstóll á að hafa vald til þess að dæma þann aðiljann, sem brotlegur gerist gegn gerðum samningi, til þess að greiða hinum aðiljanum það, sem kalla má sektarbætur, en það er sambland af sektum og skaðabótum. Þetta ákvæði gildir einnig í lögum Dana, og það er mjög svipað í Svíþjóð. Einnig er það í Noregi, en þar er líka heimild til fangelsisrefsingar út af slíku athæfi. En það ákvæði er ekki tekið upp í þetta frv., enda hygg ég, að beittasta vopnið til þess að hindra samningsrof þessara aðilja sé það, að láta þá mega vænta þess, að ef þeir fremja slíkan verknað, þá þurfi þeir að greiða fé til gagnaðilja. — Þessar sektarbætur eru aðfararhæfar eins og aðrar fjárkröfur, en þær verða ekki afplánaðar á annan hátt.

Þá eru nákvæm ákvæði um málsmeðferð fyrir þessum dómstóli, og er allt kapp lagt á að hraða henni sem mest, og skulu málin sem bezt undirbúin, þegar þau leggjast fyrir dómstólinn. Dómar þessa dómstóls eru endanlegir og þeim verður ekki áfrýjað.

Ég hefi nú nokkuð rakið aðalefni þessa frv. og ég sé, að tími minn er brátt á enda. En ég vil að lokum leggja sérstaka áherzlu á þetta, að það, sem felst í þessu frv., er ekki annað en það, sem allir ábyrgir stjórnmálaflokkar í nágrannalöndum okkar hafa annaðhvort átt þátt í að lögfesta eða látið haldast í löggjöf.

Það er í málefnum verkamanna og vinnuveitenda tvennskonar ágreiningur, sem upp getur komið. Annað er „réttar“-ágreiningur, og um það, hvernig greiða skuli úr slíkum ágreiningi, eru mjög ákveðin ákvæði í þessu frv. Hinn ágreiningurinn, sem er öllu mikilvægari og viðkvæmari, er „hagsmuna“-ágreiningur. Hann er hér lítillega snertur á þann hátt, að þjóðfélaginu er gefinn réttur til þess að ákveða frest á því, að vinnudeilur geti skollið á. En það, sem forvígismenn verkamanna hafa jafnan — og það með réttu — talið helgasta vopn verkalýðsins, sem sé að mega grípa til verkfalls, ef allt annað þrýtur, er látið halda sér í frv., og einnig sá réttur vinnuveitandans, að mega freista þess að knýja fram sínar kröfur með verksvipting. Það mætti því segja, að aðalgrundvallaratriði þessa frv. væri það, að „frestur er á illu beztur“. Og ég hefi þá trú, að einmitt sá frestur, sem ríkisvaldinu er veittur til þess að reyna að koma fram sáttum, verði oftast nægilegur til þess að koma í veg fyrir vandræði.

Ég vil þá ljúka máli mínu með því að vekja athygli á því, að þetta frv. miðar að því að styrkja ríkisvaldið og þar með efla þingræðið í landinu. Það miðar að því að draga úr óeðlilegu og hættulegu valdi einstakra stétta innan þjóðfélagsins. — Ég vænti því, að það fái sanngjarna meðferð hér á Alþ., og ég trúi því eigi fyrr en ég tek á, að verulegur ágreiningur geti orðið um jafnsanngjarnt og þjóðhollt mál og þetta.

Ég vil svo mælast til, að þessu máli verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.