14.03.1936
Neðri deild: 24. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í C-deild Alþingistíðinda. (2490)

55. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur m. fl.

*Frsm. meiri hl. (Jón Pálmason):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 76, er samið af milliþinganefnd í launamálum og hefir verið athugað af launamálanefnd þessarar hv. deildar, sem leggur til, að einum hv. nm. undanskildum, að frv. verði samþ. óbreytt. Einn hv. nm. hefir fyrirvara um eitt atriði frv. og flytur brtt. því viðvíkjandi.

Í stuttu máli fer þetta frv. fram á það, að breytt sé að nokkru leyti til um þau laun, sem hreppstjórar í landinu hafa, og að þau verði hækkuð nokkuð frá því, sem verið hefir. En þær orsakir, sem til þess liggja, að launamálanefnd getur fallizt á þetta, eru í fyrsta lagi, að störf hreppstjóranna hafa undanfarin ár sí og æ farið vaxandi; það eru heimtaðar af þeim fleiri og fleiri skýrslur, eftir því sem lengra líður, en einkum og sér í lagi hefir það gert störf þeirra umfangsmeiri en áður, að á síðari árum hafa fallið á þá miklu meiri innheimtustörf en áður var. Þetta kemur náttúrlega langtum harðara niður á þeim hreppstjórum, sem búa í kauptúnshreppum, en samt hefir einnig á þessu bólað hjá sveitahreppstjórum síðan viðskiptakreppan skall á. Út í þetta þarf ekki mikið að fara, því að það er svo alkunnugt mál; en það, sem hér er farið fram á, nær í sjálfu sér mjög skammt að því leyti, að þessi þóknun til hreppstjóranna er í sjálfu sér miklu minni heldur en nokkursstaðar þekkist um greiðslur fyrir flest önnur störf í þágu þjóðfélagsins, eins og raunar þóknun fyrir öll þau opinberu störf, sem hlaðið hefir verið á alþýðumenn, sérstaklega í sveitum landsins; þess vegna er þessi þóknun hreppstjóranna ósambærileg við allt annað, sem þekkist í okkar launamálakerfi.

Út í þetta skal ég svo ekki fara frekar, og ekki heldur þau atriði, sem felast í ágreiningi þeirra tveggja hv. nm., sem hér flytja brtt., fyrr en þeir hafa talað fyrir þeim, en eins og áður er sagt, leggur meiri hl. n. til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir.