14.03.1936
Neðri deild: 24. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í C-deild Alþingistíðinda. (2495)

55. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur m. fl.

Frsm. minni hl. (Páll Zóphóníasson):

Ég vil segja hv. þm. Borgf. það í eitt skipti fyrir öll, að gagnvart mér dugir ekki það gamla herbragð hans að flýja frá málefninu með því að ráðast á menn, því að mér mun aldrei koma til hugar að svara honum, þegar ég á í hlut. Þetta vil ég láta hv. þm. vita í eitt skipti fyrir öll. Ég mun því ekki fara neitt út í það, sem hann sagði um laun mín síðastl. ár. Ef hann óskar, get ég gefið honum fullar upplýsingar um þau, og mun hann þá sjá, að miklu munar á þeim og 14 þús. kr.

Annars er hv. þm. Borgf. á sama máli og ég um það, að ekki sé tímabært nú, vegna fjárhags ríkissjóðs og þjóðarheildarinnar, að hækka laun hreppstjóranna. Hinsvegar ber okkur ekki saman um það, hve mikið hreppstjórarnir hafi að gera. Við vitum þó báðir, að til eru hér hreppar með 7 bæjum og 11 og margir með 18–26 bæjum. Þótt sú skylda hvíli á hreppstjórum að halda hreppskilaþing, innheimta gjöld og safna framtölum, sé ég enga ástæðu til að hækka laun þeirra. Hitt er rétt, að í fjölmennum hreppum, einkum í kauptúnum, eru launin lág, en þegar þau eru borin saman við önnur laun fyrir svipuð verk og ástæður þjóðfélagsins, verður þó ljóst, að ekki er sérstök ástæða til að hækka þau eins og nú standa sakir.

Auk þess held ég, að enginn geti nú um það sagt, hvert verðgildi krónunnar kann að verða í framtíðinni, og því tel ég fásinnu að fara að festa laun á þessum breytilegu tímum. Hvað sem öðru líður, er sjálfsagt að bíða eftir því, að fjármál og gengismál komist í fastara horf, áður en farið er að lögfesta laun opinberra starfsmanna að nýju.