09.03.1936
Neðri deild: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (2543)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Pétur Halldórsson:

Mig langar til að spyrja hæstv. fjmrh., hvort það sé ekki rétt, að búið sé að taka að láni hjá olíufélögunum 1½ millj. kr. og að þetta fé eigi að endurgreiða í pundum, og tryggja á þann hátt, að þetta, innstæðufé þeirra rýrni ekki við gengisfall. — Þá vildi ég einnig spyrja, hvort sömu félögum hafi verið heitið yfirfærslu framvegis. Ég verð að segja, að mér þykir það merkilegt, ef innieignir, sem hér hafa verið festar, verða greiddar í pundum með ákveðnu verði. Og ef það er borið fram af hálfu hins opinbera, að þetta fé skuli vera tryggt gegn verðfulli ísl. krónu, munu þessir aðiljar vita eða renna grun í það, að mjög mikil hætta muni vera á verðfalli ísl. krónunnar. Ég efast ekki um, að fleiri mundu óska eftir slíkum tryggingum fyrir sínum innieignum hér, ef þær væru í boði. Viðkomandi þessari tryggingu er þetta lán ákaflega merkileg nýjung. Ég hafði ekki heyrt þetta fyrr, og þykir mér þetta tíðindi. En aðalatriðið var hitt, hvort þessum sérstöku seljendum, olíukaupmönnunum, hefði verið tryggt verð fyrir þeirra viðskipti framvegis, eins og nú er búið að tryggja þeim fast verð í pundum fyrir þetta fé, sem þeir eiga hér innistandandi. Þegar svo er komið, eins og hér, að verðgildi peninganna er haldið uppi með opinberum ráðstöfunum, og það er þannig á valdi hins opinbera, hvað fæst yfirfært, hverju fæst skilað til útlanda af erlendu fé, sem er hér innistandandi, og hverju ekki, — þegar þessa er gætt, þá finnst mér þessi trygging enn merkilegri nýjung. Það er náttúrlega nýlunda, ef nýir möguleikar opnast fyrir þá erlendu fjáreigendur, sem eiga hér fé, til þess að fá tryggt verð fyrir peninga sína, eins og mér skilst, að olíufélögin hafi hér fengið. Þetta má búast við, að erlendir kreditorar hér á landi skoði sem opnun nýrrar leiðar fyrir þá til þess að fá tryggt verðgildi þess fjár, sem þeir hafa verið svo óheppnir að lána landsmönnum. Ef það vitnast, að þeir geti þetta, þá er ákaflega hætt við, að kröfur komi víða að í framtíðinni í sambandi við viðskipti okkar við útlönd um, að þeir, sem selja okkur, fái annaðhvort yfirfærslu strax eða með einhverju vissu verði á íslenzkum peningum, og það jafnvel gert að skilyrði fyrir áframhaldandi viðskiptum.

Af því að mér þykir þetta mjög mikilsvarðandi efni, langar mig til að heyra af munni hæstv. fjmrh., hvort þetta hafi verið gert, sem ég spurði um.