09.03.1936
Neðri deild: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í C-deild Alþingistíðinda. (2546)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af því, sem hv. þm. G.-K. spurði um síðast, skal ég upplýsa það, að engin skuldbinding hefir verið gefin í sambandi við lántökuna í London 1934. Þessi hv. þm. þurfa því engar áhyggjur að bera út af þessum lántökum.

Út af því, sem hv. þm. G.-K. sagði, að þessi lán væru ekki hliðstæð venjulegum pundalánum, vil ég upplýsa hann um, að það hefði komið nákvæmlega í sama stað niður, þó að í stað þessara lána hefði verið tekið lán í útlöndum beinlínis og pundin flutt inn. Það hefði haft nákvæmlega sömu skuldbindingar í för með sér, þannig að skuldaskilasjóður hefði orðið að skuldbinda sig til að skila láninu í sömu mynt eins og í þessu tilfelli. Hann hefði og fengið nákvæmlega jafnmikið fyrir pundið eins og þessi viðskipti gefa. Frá því sjónarmiði er líka nákvæmlega sama, hvort lánin eru tekin svona eða á annan hátt.

Annars skal ég upplýsa það, að það er stjórn skuldaskilasjóðs, sem vitanlega hefir samþ. um þessi lán, og þess vegna mun hún geta bezt gefið upplýsingar um það, hvort öðrum en olíufélögunum hefir verið gefinn kostur á að lána skuldaskilasjóði. En eftir upplýsingum frá bönkunum um þetta atriði veit ég, að engir erlendir aðiljar aðrir en olíufélögin eiga svo verulegar innstæður hér í íslenzkum krónum, að þeir hefðu getað lánað svo háar upphæðir, nema þá með því að tína saman marga innstæðueigendur.

Hitt getur hv. þm. náttúrlega verið viss um, að ómögulegt hefði verið að haga lántökunni þannig, að fara að spekúlera í því, hvað menn vildu leggja mikið upp úr íslenzkri krónu í þessu sambandi. Slíkt hefði hvorki verið mögulegt fyrir skuldaskilasjóð né nokkurn annan aðilja. Frá mínu sjónarmiði er þessi lántökuaðferð afarhentug fyrir þjóðina í heild, því að með henni fæst mjög langur yfirfærslufrestur á skuld, sem átti að vera yfirfærð fyrir nokkuð löngu síðan.