09.03.1936
Neðri deild: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (2548)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Flm. (Ólafur Thors):

Ég ætla ekki að fara langt út í þær skuldbindingar, sem hæstv. fjmrh. gaf Lundúna-peningavaldinu 1934. En það er ekki rétt hjá honum, að hann hafi engar skuldbindingar gefið í sambandi við lántökuna í London þá. En það er einungis af því, að ég man nú á stundinni ekki fyrir víst, hvað í því sambandi átti að vera með leynd. (Fjmrh.: Hv. þm. þarf ekki að þegja um neitt í því sambandi). Jæja, þá skal ég segja hæstv. ráðh. það, að hann skrifaði undir skuldbindingu um, að hann mundi ekki sjálfur taka né veita aðstoð til þess að taka lán erlendis á meðan gjaldeyrisástandið ekki breyttist verulega frá því, sem nú er. Undir þetta skrifaði hæstv. fjmrh. eftir kröfu erlendra lánardrottna. Þá tilkynnti þessi hæstv. ráðh., að þetta væri hans stjórnmálapólitík, að hann ætlaði sér alls engin útlend lán að taka fyrir hönd ríkisins á meðan gjaldeyrisástandið ekki gerbreyttist. Og ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir, að hann leysti mig undan þagnarskyldunni. (Fjmrh.: Á hv. þm. hvíldi engin þagnarskylda viðvíkjandi þessu, svo að það er ekkert að þakka). Það var talað um þagnarskyldu viðvíkjandi atriðum í sambandi við þessa lántöku, og mun hæstv. fjmrh. muna, að um það var talað, er hann sýndi okkur skeyti nokkurt hér uppi á Hlaðbúð kl. 3 vissan dag. En ég hefi kannske tekið þessa þagnarskyldu hátíðlegar en. títt er í hans flokki. (Fjmrh.: Það átti að vera þagnarskylda, en sjálfstæðismenn gátu ekki þagað). Það kom yfirlýsing frá hæstv. fjmrh., sem gaf til kynna sumt í þessu sambandi. Og það var ekki af okkur sjálfstæðismönnum sagt frá þessu fyrr en hæstv. ráðh. var búinn að gefa þessa yfirlýsingu. (Fjmrh.: Sjálfstæðismenn voru fyrst búnir að gefa þetta til kynna með hálfkveðnum vísum). Nú, hvað er með þetta? Fyrst neitar hæstv. ráðh. því, að hann hafi gefið nokkra yfirlýsingu í sambandi við lántökuna. Því næst segir hann, að yfirlýsingin hafi ekki verið neitt launungarmál, og loks ákærir hann okkur fyrir að hafa með hálfkveðnum vísum ljóstað því upp, sem allir máttu vita. Þetta eru ekki ráðherraleg rök. Hitt viðurkenni ég, að ekkert getur farið með leynd hér á þingi, ef formaður Framsfl. fær að vita um það, því að hann getur aldrei komizt hjá því að hvísla því að einhverjum.

Hæstv. fjmrh. segir, að það komi alveg í sama stað niður fyrir skuldaskilasjóð, hvort hann tekur lán eins og hann hefir gert eða tekur það í pundum. En ég held, að það sé ekki sama frá hagsmunasjónarmiði þjóðarinnar. Hæstv. ráðh. veit, að ef við gætum fengið 75 þús. sterlingspunda lán, borgað okkur út í pundum, þá mætti með því rétta við lánstraust einstaklinga og verzlunarfélaga í landinu. Ef skuldaskilasjóður hefði fengið lán útborgað í pundum, þá hefði einnig fyrir þau pund verið hægt að kaupa vörur, sem við þurfum á að halda, en getum ekki fengið. Og við skulum koma að þessu betur síðar.

Hæstv. ráðh. vill til afsökunar færa það fram, sem ég ekki vefengi, að engir aðrir en olíufélögin hafi átt hér innifrosnar svo háar upphæðir, að einhver einn einstakur aðili hefði getað lánað svo mikið fé, og hefði þá þurft að tína marga innstæðueigendur saman. En þetta skiptir bara engu máli í þessu sambandi. Ýmsir aðrir, sem eiga hér innifrosnar innstæður, eiga sama siðferðislegan rétt á því að fá sína peninga greidda út eins og olíufélögin. Og það, sem máli skiptir, er, hvort olíufélögunum hefir verið ívilnað með því að gefa þeim einum kost á að fá gulltryggðar sínar innifrosnu innstæður hér og íslenzkur aðili, skuldaskilasjóður, látinn fara á mis við hagstæðari lánakjör, sem hann tvímælalaust hefði getað notið, ef lánið hefði verið boðið út á frjálsum markaði, þar sem hver sem var hefði getað boðið í það, sem átti peninga innifrosna hér. Eða hvort stjórnin hefir snúið sér í pukri til eins auðvaldshrings. Vitanlega hefði verið eðlilegast, að við hefðum verið búnir að yfirfæra það fé, sem nú hefir verið tekið að láni, og það fyrir nokkru. En við höfðum ekki gert það, af því að við gátum það ekki. Til þess hefir okkur skort gjaldeyri. En alveg hið sama er að segja um allar innifrosnar innstæður? Við getum það ekki að gamni okkar að drepa niður lánstraust einstaklinga, banka og ríkis með því að neita um yfirfærslur, heldur höfum við gert það út af neyð. Ég sé þess vegna ekki, hvernig hægt er fyrir hæstv. ríkisstj. að komast undan ámæli fyrir að hafa breytt þessum skuldum úr ísl. krónum í pund, eins og gert hefir verið, og það af þessum tveimur ástæðum, að í fyrsta lagi hefir kröfuhöfum á íslenzka banka verið misívilnað, og hinsvegar höfum við setið okkur úr færi um að fá þau beztu lánakjör, sem hægt var að fá. Í þriðja lagi er með þessu móti tryggð langt fram í tímann greiðsla í pundum á skuld, sem tekin er í ísl. krónum, þannig að sú greiðsla miðist við gullgengi, sem engin vissa er fyrir, og ég vil segja, sem engar líkur eru til, að haldist. Það þarf margt að breytast hér á landi til hins betra, ef rissa á að vera fyrir því, að við getum haldið ísl. krónu í núv. verði. Til þess verður að vera hægt að reka atvinnuvegina með betri árangri heldur en verið hefir síðan 1930, því að á þeim tíma hefir svo að segja hvert einasta atvinnufyrirtæki í landinu verið rekið með tapi og svo að segja hver einasti atvinnurekandi á landinu er í fjárþröng. (Fjmrh.: Nema hv. ræðumaður). Ég er alveg viss um, að ef hæstv. fjmrh. hefði gert út einn trillubát síðan 1930, þá hefði hann verið kominn á hausinn. Fæstir atvinnurekendur eru borgunarmenn fyrir skuldum sínum eins og nú standa sakir.

Það er þrennt í sambandi við það, sem hér er verið að gera, sem ég tel mjög athyglisvert, og jafnvel ámælisvert. Í fyrsta lagi er það, að mönnum hefir ekki verið gert jafnhátt undir höfði hvað þetta lán snertir, en af því leiðir svo hitt, að við höfum enga tryggingu fyrir því, að við höfum orðið aðnjótandi beztu kjara, sem kostur var á, og snýr sú hlið málsins að skuldaskilasjóði; í þriðja lagi ber svo að líta á það, sem hv. 5. þm. Reykv. drap á, að það er í fyrsta skiptið hér á landi, sem innlendri innstæðu er breytt í sterlingspundalán, og hefði ég kunnað vel við, fyrst þetta hefir einmitt verið á döfinni þessa dagana, að þetta þýðingarmikla mál hefði verið borið undir þingið.