09.03.1936
Neðri deild: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í C-deild Alþingistíðinda. (2550)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Jón Ólafsson:

Ég skal ekki vera langorður. Það er búið að tala töluvert mikið um þetta mál, en ég get samt ekki látið hjá líða að benda á þann óhrekjanlega sannleika, að við erum búnir að safna á okkur útlendum skuldum í olíu, til þess að gera út fiskiflotann, og skuldin er ekki aðeins 1½ millj. kr., heldur munu olíufélögin eiga 4–5 millj. kr. hjá landsmönnum. Það getur því hver maður sagt sér sjálfur, sem nokkuð fylgist með í viðskiptamálum, að við þetta gátu félögin ekki unað lengur, enda kom það á daginn, að þau vildu fá svo og svo mikið af sínum peningum. Eina úrræðið, sem mér virðist hafa verið heppilegt, var að taka málið þeim tökum, sem tekið var, og það var að semja við félögin um árlega afborgun af skuldinni og að bankarnir yfirfærðu svo og svo mikið af innstæðum félaganna í bönkunum hér á ári hverju. Einnig var tekin, að mínu áliti sú heppilega leið að taka lán hjá fél., allt að 1½2 millj. króna, til 15 ára, og greiða þannig fyrir skuldaskilasjóði vélbátaeigenda. Ennfremur dreifðist með þessari ráðstöfun yfir færslan á þessi mörgu ár. Mér virðist menn ekki gera sér fullkomna grein fyrir því, að þetta er skuld; við erum búnir að eyða þessum peningum til framleiðslu okkar; við höfum dregið að greiða þessa skuld, en það varð að taka einhvern endi, og það hefir vissulega tekið þann endi, sem vel má við una. Það er búið að semja um þetta í bili. Ekki er heldur sama, hvaða skuldheimtumann við er að skipta. Í þessu tilfelli er um skuldheimtumann að ræða, sem er svo voldugur, að við getum ekki komizt framhjá honum hvað snertir olíuflutning til landsins; hann gat og getur hvenær sem er stöðvað allan olíuflutning hingað til lands, og sé ég ekki, hvar við hefðum þá verið staddir með allan okkar útveg. Þess vegna varð að semja, og það var gert. Það munu sjálfsagt einhverjir segja, að þessi og þessi geti komið með olíu hingað. En þess ber að gæta, að þessi tvö olíufélög, sem hér um ræðir, eru svo öflug og hafa þar af leiðandi svo góða aðstöðu í þessum efnum, að framhjá þeim var og verður ekki komizt, ef sæmilegt verð á að vera á þessari vöru hingað kominni, vegna þess að þau tvö olíufél., sem hér um ræðir, eiga alla þá aðstöðu, sem til þess þarf að gera reksturinn ódýran, svo sem geyma o. fl. Af þessum ástæðum var vitanlega ómögulegt að bjóða út slíkt hin. Við urðum að fá sem hagkvæmasta samninga við þessa skuldaeigendur. Það eiga að vísu ýmsir aðrir útlendingar peninga í bönkum hér, en það er ekki teljandi samanborið við þá, sem hér um ræðir, og þar að auki eru þau viðskipti allt annars eðlis; eigendur þeirra peninga hafa ekki þau tök á landsmönnum, sem þessi olíufélög hafa með aðstöðu sinni hér. Það, að bankarnir hafa komizt í þessi skuldasöfnunarvandræði stafar sumpart af því, að vara okkar hrekkur ekki til greiðslu alls innflutnings, en sumpart af því, að við eigum nú hjá Ítölum og Spánverjum um 135000 £, sem búin eru að standa lengi inni, og alls ekki er hægt að fá frá Ítölum nema í vörum, og jafnvel ekki heldur frá Spánverjum, því að svo virðist, sem þeir ætli að fara sömu leiðina og Ítalir í þessu efni. — Það eru því mörg atriði í slíku máli sem þessu, sem þarf að taka tillit til og athuga, þegar talað er um þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið undir þeim kringumstæðum, sem við eigum nú við að búa. — Ætla ég svo ekki að hafa þessi orð fleiri, en þeir, sem vilja athuga þetta mál, og gera það á sínum tíma munu reka sig á margt það, sem verður að taka tillit til undir þeim kringumstæðum, sem fyrir hendi voru í þessu máli.