09.03.1936
Neðri deild: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (2551)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. l. þm. Rang. hefir nú skýrt þetta mál nokkuð. Hann skýrði frá því aðalatriði málsins, að þessi olíufélög hafa í raun og veru komizt í lakari aðstöðu hvað yfirfærslur snertir en e. t. v. nokkurt annað firma, sem við okkur skiptir, og þess vegna var það af þeim ástæðum ekkert einkennilegt, þótt skuldaskilasjóðsstjórninni, sem skipuð er að tveim þriðju bankastjórum, dytti í hug að reyna að sameina þessa lántöku sína og úrlausn þessara vandkvæða.

Viðvíkjandi því, hvort hér sé um hættulegt fordæmi að ræða, þykir mér rétt að taka það fram, að eftir því, sem ég bezt veit, er samningurinn um þetta 15 ára lán alls ekki gerður samkv. kröfu frá þessum félögum, heldur samkv. ósk skuldaskilasjóðsstjórnarinnar. Ég ætla svo að láta þetta nægja um þetta mál. Ef menn vilja ræða málið frekar, þá geri ég ráð fyrir, að það verði hægt í öðru sambandi. Eins og hv. þm. sjá, hafa nú komið fram höfuðatriði þessa máls, sem skýra það, og ég get ekki séð, að í þessu sambandi hafi nokkuð verið gert, sem geti gefið hættulegt fordæmi í þessu efni, né heldur að hér hafi verið gerður samningur, sem sé óhagstæður fyrir þjóðina; þvert á móti horfir þetta svo við frá mínu sjónarmiði, að reynt hefir verið að sameina það tvennt, að leysa úr þessari óhjákvæmilegu yfirfærsluþörf og lántökuþörf þessa sjóðs, sem hér um ræðir.