09.03.1936
Neðri deild: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í C-deild Alþingistíðinda. (2552)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Flm. (Ólafur Thors):

Þessar umr. hafa leitt í ljós ýmislegt merkilegt, þar á meðal það, að olíufélögin hafa tryggt sér greiðslu á þeirri olíu, sem þau flytja til landsins, þótt aðrir, sem olíu vilja kaupa af öðrum og við ódýrara verði, geti ekki sett slíka tryggingu.

Í öðru lagi hefir hv. 1. þm. Rang., en hann er einmitt einn hluthafanna í öðru olíufél., skýrt frá því, að þessi samningur, um að tryggja olíufélögunum núverandi gullgildi íslenzkra peninga á greiðslu 1½ millj. króna á vissu árabili, hafi verið gerður fyrir frumkvæði og samkv. kröfum frá olíufélögunum. Hæstv. fjmrh. hélt því að vísu fram, að þetta væru ósannindi hjá hv. 1. þm. Rang. En enda þótt ég geti ekki fullyrt, hvor fer með rétt mál, trúi ég að óreyndu því, sem hv. 1. þm. Rang. segir. Hann er málinu svo kunnugur, að hann veit, að hér hefir hnefinn verið settur í borðið af hinum erlenda olíusala. Það kann að veru, að það sé ekki óeðlileg krafa frá sjónarmiði hans, en eins og hv. 5. þm. Reykv. sagði, er þetta mjög varhuguverð ráðstöfun af hálfu íslenzku stj. Þetta mál verður að athuga mjög vel frá öllum hliðum, og án þess að ég vilji kveða upp neinn dóm um það, hvort tiltækilegt hefði verið að neita þessari kröfu, raskar það ekkert því, að alveg var sjálfsagt — fyrst þingið situr nú hvort sem er á rökstólum —, að slíkur samningur sem þessi hefði verið borinn undir fjhn. þingsins. Þingið gat þá m. a. kynnt sér, hvað hæft er í því, sem hv. 1. þm. Rang. sagði, að hér ráði olíufélögin, en hvorki þing né stjórn, að bankarnir séu nú ekki nefndir, og síðan kveðið upp sinn dóm.

Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. er viðbúinn því að svara einni fyrirspurn frá mér, sem er ekki óeðlilegt, að fram komi, um það, hvað vextir af þessu láni eru miklir. Mér skilst, að þetta lán sé 1½ millj. kr. að upphæð í íslenzkum krónum, gegn vöxtum og afborgunum í pundum með genginu 22,15 til 15 ára. Það skiptir því miklu máli, hver vaxtaskilyrðin eru.