09.03.1936
Neðri deild: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í C-deild Alþingistíðinda. (2555)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Pétur Halldórsson:

Herra forseti! Mig langar aðeins til að benda hv. þdm. á það, að það hefði verið betra, að sú breyt., sem frv. það, sem hér er til umr., gerir ráð fyrir, hefði verið í gildi undanfarin ár, því að það, sem farið er fram á í þessu frv., er ekki annað en það, sem stendur í 2. málsgr. þess: „Þó skal útgerðarmönnum heimilt að ráðstafa þeim erlendum gjaldeyri, sem fæst fyrir útflutningsvörur þeirra, að því leyti sem þeir þurfa til greiðslu á yfirum til útgerðar sinnar.“ Ef þetta ákvæði hefði verið í lögum undanfarin ár, hefði ekki þurft að kunnast til þess vanda, sem við eigum nú við að búa í þessum efnum. Þá hefðu ekki safnazt hér á þennan hátt skuldir við þessa voldugu viðskiptamenn, olíufélögin, því að þau hefðu fengið hjá útgerðarmönnum andvirði þeirra vara, sem þeir selja; þá hefði ríkisstj. ekki þurft að taka á ríkissjóð ábyrgð á verðgildi þess fjár, sem olíufélögin eiga hér inni, og þá hefði stj. verið leyst undan þeim vanda, sem hún hefir tekið á sig fyrir framtíðina, að sjá þessum seljendum sérstaklega fyrir greiðslu á vörum sínum. Þess vegna á það vel við, að rætt sé um þetta atriði í sambandi við frv. það, sem hér liggur fyrir, því að það frv. er bein lausn á þessu vandamáli. Sérstaklega vegna þess, að svo framarlega sem ekki er gerð einhver slík ráðstöfun eins og farið er fram á í frv., þá eykst vandinn. Annars er líka ástæða til þess að hugleiða þetta í sambandi við frv. hv. þm. V.-Húnv., sem enginn hv. þdm. hafði kjark til þess að tala um, þegar það var hér til umr. í dag, og hæstv. fjmrh. lét fara framhjá sér án þess að segja um það eitt einasta orð. Allur þessi vandi stafar af meðferð stjórnarvaldanna á þessum málum landsmanna undanfarin ár. Annars verð ég að segja það, að ég óttast mjög þær afleiðingar, sem það kann að hafa fyrir ríkissjóðinn, ef haldið er lengi ennþá áfram á þeirri braut, sem þessi mál eru komin út á hjá okkur nú. Það hljóta líka allir að sjá, að vandinn, sem færist yfir okkur hvað þessi mál snertir, eykst með hverjum mánuðinum, sem líður, og væri því full ástæða til, að fulltrúar þjóðarinnar, bæði hér á Alþingi og út á við, tækju höndum saman um lausn þessara vandamála. Væri það ólíkt eðlilegra heldur en standa jafnan andvígir hverjir öðrum, eins og nú á sér stað. Það má vel vera, að hæstv. stj. skiljist þessi sannleikur, þegar fjárhagur ríkissjóðs er með öllu hruninn í rústir. — Vænti ég svo, að þessar umr. megi verða til þess að opna augu alls þingheims fyrir því, hve rík nauðsyn hér er fyrir dyrum.