31.03.1936
Neðri deild: 38. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (2558)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Frsm. (Ólafur Thors):

Fjhn. hefir afgr. þetta mál til deildarinnar með sameiginlegu nál.; þó eru, eins og nál. ber með sér, ekki nema 4 af 5 nm. einhuga um að leggja til, að frv. verði samþ., og þá með breyt., sem er getið um í nál. Einn af nm., hv. 1. landsk., hefir sérstöðu, sem einnig er gerð grein fyrir í nál., nefnil. þá sérstöðu, að hann telur, að eftir atvikum fullnægi gildandi lagaákvæði þeirri þörf, sem hér um ræðir, en hann álítur hinsvegar, að það sé nokkrum vandkvæðum bundið í framkvæmdinni að lögfesta þau fyrirmæli, sem frv. felur í sér, ásamt þeirri breyt., sem gert er ráð fyrir í nál. Hann vill þess vegna, að þetta frv. verði ekki samþykkt.

Við 1. umr. gerði ég grein fyrir þeim rökum, sem liggja til grundvallar flutningi þessa frv., og tel óþarft að endurtaka þau nú eftir að málið kemur frá n.

Við hv. þm. V.-Sk. höfum fallið frá að fylgja ákveðum frv. eins og þau eru fram borin af hv. 6. þm. Reykv. og mér, vegna þess að þeir aðiljar, sem n. átti tal við um þetta mál. nefnil. fjmrh., bankastjórar 2 bankanna, sem með gjaldeyrisverzlun fara, og svo skrifstofustjóri gjaldeyrisnefndar í forföllum form. nefndarinnar, töldu mjög mikla erfiðleika um framkvæmdir, ef gengið yrði inn á frv. óbreytt, vegna þess að ef útgerðarmenn fengju að ráða sjálfir yfir gjaldeyri til kaupa á notaþörfum sínum, mundi það valda miklum erfiðleikum fyrir gjaldeyrisnefnd og bankana. Enda þótt ég sé ekki viss um, að þetta þyrfti svo að vera, þá höfum við til samkomulags gengið inn á að leggja til, að ákvæði þessa frv. um frjálsa ráðstöfun útvegsmanna á gjaldeyri til notaþarfa nái ekki lengra en til olíu, kola og salts, en ekki til veiðarfæra. — Ég hefi svo ekki meira um þetta að segja. 3 af nm. flytja sérstakar brtt. við þetta frv., og munu þeir gera grein fyrir þeim.