01.04.1936
Neðri deild: 39. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í C-deild Alþingistíðinda. (2563)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að þetta frv. er hér fram komið, sem ég hygg, að allir útvegsmenn séu flm. þakklátir fyrir.

Það er sannast að segja, að á þessum síðustu og verstu tímum, þá er það ekki eitt, sem þjáir útgerð landsmanna, heldur svo að segja allt, og m. a. má telja það óhagræði, sem manni virðist nú stundum, að mennirnir mundu nokkuð fá við ráðið, en það er það óhagræði með að afla nauðsynlegra tækja frá útlöndum, veiðarfæra og annars varnings, sem til útgerðarinnar þarf. Maður skyldi nú ætla, að allir hefðu orðið á eitt sáttir um það hér á hinu háa Alþ. að vilja leggja þessu máli liðsinni eins og það var fram borið í fyrstu — eða þá e. t. v. með nokkrum takmörkunum. En því miður hefir ekki sú reyndin á orðið, og tel ég það hljóti að stafa af skilningsskorti manna á hinni afarerfiðu aðstöðu sjávarútvegsmanna, einkum með að afla sér nauðsynlegs varnings, veiðarfæra og annars slíks.

Það er nú vitanlegt, að ekki einasta sjávarútvegsmenn, heldur allir þeir landsmenn, sem fást við að framleiða vörur, sem seldar eru á útlendum markaði, eru órétti beittir í gjaldeyrismálum, og sá óréttur er þegar orðinn margra ára gamall. Gjaldeyririnn er tekinn af þessum frumleiðendum við miklu lægra verði heldur en þeir í raun og veru ættu skilið að fá hann. Ofan á þetta bætist svo það, að þessir aðiljar eiga það stórkostlega undir högg að sækja hjá bönkunum og gjaldeyrisnefnd að fá þann nauðsynlega gjaldeyri, sem þeir þurfa beinlínis til framleiðslu sinnar. Ég gæti — og skal fúslega gera, ef það er vefengt — nefnt þess dæmi, að ákveðin veiðistöð hér á landi stendur mjög höllum fæti með aðdrætti vegna þess, að mönnum þar í plássi hefir fram á síðustu stundu verið meinað þess að afla sér veiðarfæra af þeim aðiljum, sem um það eiga að fjalla. Og afleiðingarnar af þessu verða svo ennþá minni afli og verri afkoma heldur en ella.

Meiri hl. fjhn. hefir fallizt á að leggja það til, að útvegsmenn fái umráð yfir svo miklu andvirði framleiðslu sinnar sem nægir til þess að kaupa kol, olíu og salt. Þessi till. er nú góðra gjalda verð, svo langt sem hún nær. En dæmin eru nú deginum ljósari um það, að þetta kemur ekki að fullu gagni fyrir útgerðina á meðan hún á svo erfitt með að afla sér veiðarfæra sökum gjaldeyrisskorts eins og raun er á. Ég hefi þess vegna leyft mér að bera fram brtt. um það, að í stað orðanna: „Kolum, olíu og salti“ í brtt. meiri hl. n. komi: Kolum, olíu, salti og veiðarfærum. — Þar með eru taldar þær höfuðnauðsynjar, sem útgerðin þarf til síns atvinnurekstrar. Hinar upphaflegu till. flm. frv. fóru að vísu lengra, og hefði verið æskilegt frá sjónarmiði útvegsmanna að fá þær samþ., en ég teldi samt sem áður mikla bót á ráðna, ef till. meiri hl. fjhn. væru samþ. ásamt þeirri brtt., sem ég hefi leyft mér að bera hér fram.

Útvegsmenn víðsvegar um landið eru lengi búnir að búa við allt of mikið harðrétti í þessum efnum, og það er orðið eins og nú er óþolandi fyrir útvegsmenn að búa við þann gjaldeyrisskort lengur, sem þeim er útdeildur af yfirvöldunum að því er snertir öflun hinna brýnustu nauðsynja útgerðarinnar. Ég vil því endurtaka þá ósk mína til allra þeirra, sem sjá og skilja þörfina fyrir því, að þessi mikilvirka framleiðslugrein geti lifað og starfað framvegis, og sérstaklega vil ég beina því til hv. meiri hl. fjhn., að mér finnst það ekki nema sanngjörn krafa, að sama gildi um veiðarfæri, sem notuð eru við útgerðina, eins og um kol, salt og olíu.

Hér hefir verið lögð fram brtt. frá hv. meiri hl. fjhn., á þskj. 235, sem snertir hömlur á því, að menn geti ferðazt til útlanda. Ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp fáein orð úr þeirri till. Upphaf hennar hljóðar þannig:

„Heimilt er að ákveða með reglugerð, að allir, sem ferðast til útlanda, þurfi sérstök skírteini frá gjaldeyris- og innflutningsnefnd fyrir því, að þeir hafi aflað sér nauðsynlegs erlends gjaldeyris á löglegan hátt.“

Svo er síðar í sömu brtt. sett inn ákvæði um það, að þeir, sem annast flutning fólks á milli landa, megi engum manni selja farmiða, nema hann hafi þetta leyfi frá innflutnings- og gjaldeyrisnefnd. Mér þykir að vísu vonlegt, að einhverjar reglur séu settur um þann gjaldeyri, sem menn fá til utanlandsferða, enda mun það hafa verið svo hingað til, að menn, sem þurft hafa til útlanda, hafa sótt um gjaldeyrisleyfi til innflutnings- og gjaldeyrisnefndar, og ýmiskonar hömlur og reglur um meðferð gjaldeyris gilda nú í fjöldamörgum löndum. En ég vil benda á, að hv. meiri hl. fjhn. mun vera hér á ferðinni með alveg einstakt ákvæði í þessu efni. Ég vil leyft mér að spyrja hv. meiri hl. fjhn., hvort hann þekkir annarsstaðar dæmi um það, að menn, sem annars eru frjálsir ferða sinna og lögreglan í viðkomandi landi á ekkert vantalað við, séu settir í þær fangabúðir í sínu eigin landi, að það sé óleyfilegt að selja þeim farmiða til útlanda, nema gjaldeyrisnefnd hafi stimplað upp á passa þeirra eða því um líkt. Ég lýsi því yfir fyrir mitt leyti, að ég þekki hvergi, að slíkar hömlur séu lagðar á ferðafrelsi manna, sem annars eru taldir frjálsir menn. Vitanlegu verða þeir, sem lögreglu vill ekki leyfa að fara út fyrir landsteinana, að sætta sig við að vera kyrrsettir bæði hér og annarsstaðar. En að þeir, sem ekkert hafa af sér brotið og lögreglan á ekkert vantalað við, séu ekki frjálsir að því að kaupa sér farmiða út úr landinu, það held ég, að sé fátítt, ef ekki alveg óþekkt fyrirbrigði annarsstaðar. Einhverjar ströngustu reglur, sem þekkjast um meðferð gjaldeyris, munu vera í gildi í Þýzkalandi, og þó er þar öllum frjálst að kaupa sér farmiða til útlanda, sem ekki eru heftir af lögreglunni. Aftur gilda þar strangar reglur um, hvað mikla peninga menn mega hafa með sér, og svo eru menn vitanlega eins og annarsstaðar undirorpnir eftirliti yfirvaldanna um það, hvað menn flytja með sér út úr landinu og inn í landið. Mér virðist, að það ætti að vera unnt fyrir fjármálayfirvöld þessa lands að koma skipun á notkun gjaldeyris til ferða manna til útlanda án þess að lögfesta ákvæði, sem gera menn í rauninni ófrjálsa að því að fara ferða sinna. Mér þætti fróðlegt, ef hv. meiri hl. fjhn. vildi gera grein fyrir því, í hvaða löndum slík tilhögun gildir, að menn yfirleitt séu ekki frjálsir að því að kaupa sér farmiða, þó til útlanda sé, nema með sérstöku leyfi yfirvaldanna.

Ég skal svo ekki fara lengra út í þessi gjaldeyrismál að sinni. Mér virðist öll sanngirni mæla með því, eins og ég hefi áður sagt, að útgerðarmenn fái gjaldeyri til veiðarfæra sinna, og vænti ég því, að till. mín fái góðar undirtektir.