01.04.1936
Neðri deild: 39. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í C-deild Alþingistíðinda. (2564)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég sé, að frsm. fyrir brtt. þeim, sem hv. meiri hl. fjhn. flytur, er ekki viðstaddur, og sé því ástæðu til að taka til mála. Og fyrst ég er farinn að tala á annað borð, ætla ég líka að minnast á frv. sjálft og brtt. meginhluta n., sem fylgja nál.

Hv. þm. Vestm. benti á það, að í þessu frv. og till. meiri hl. væri talsverð réttarbót fyrir útvegsmenn. Ég býst við, að hv. þm. sé kunnugt. hvernig talið hefir verið fyrir þessu máli hér á þingi og af hvaða ástæðum það er, að a. m. k. sumir, sem fylgja stjórnarflokkunum að málum og standa að innflutningshöftunum og gjaldeyrishömlunum, hafa fallizt á þessa ráðstöfun, þar á meðal ég. Það liggur sem sé fyrir, að það eru farnir að verða erfiðleikar á að fá sumar útgerðarvörur nema sérstök trygging sé fyrir hendi, og hefir verið farið fram á við bankana að veita slíka tryggingu. A. m. k. í sumum tilfellum hafa bankarnir ekki viljað ganga inn á að veita hana, og þessi lausn málsins, sem meiri hl. fjhn. mælir með, er miðuð við það, að gera tilraun til þess að komast hjá því að þurfa að setja sérstaka tryggingu frá bönkunum eða öðrum stofnunum fyrir því, að vörurnar verði greiddar, til þess að þær fáist. Það mun öllum ljóst, að það getur torveldað mjög eftirlitið með framkvæmd gjaldeyrishamlanna, ef mjög víðtækar undanþágur frá því að afhenda bönkunum allan erlendan gjaldeyri eru samþ. Því var horfið að því að binda þá heimild, sem hér er um að ræða, við stærstu vöruflokkana, sem til útvegsins þarf og jafnframt er gott að hafa eftirlit með, og því auðveldar að hafa yfirlit um það, að ekki sé farið í kringum þessi ákvæði. Ef þessi undanþáguheimild væri hinsvegar almenn, mundi vera mjög miklum erfiðleikum bundið að hafa eftirlit með því, að allur gjaldeyrir kæmi inn, sem ekki færi fyrir þessar vörur. Því eru till. n. bundnar við þessar sérstöku tegundir útgerðarvara, og því vil ég mæla á móti því, að till. hv. þm. Vestm. verði samþ., þar sem hún mundi hafa í för með sér hættu á auknum erfiðleikum við eftirlitið með þessu. Það er vitanlegt, að innflytjendur veiðarfæra eru mjög margir, og yrði því erfitt fyrir hlutaðeigandi yfirvöld, þegar þau kæmu með, að sjá um, að þetta væri réttilega notað. En hinsvegar þegar heimildin er bundin aðeins við kol, salt og olíu, er þetta miklu einfaldara í framkvæmdinni. Og þó ég hafi gengið inn á það, þá er mjög vafasamt, að ég gæti fylgt málinu í heild, ef gengið væri inn á að hnýta aftan í það fleiri tegundum vara heldur en tilgreindar eru í till. fjhn.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði um erfiðleika útgerðarmanna á því að afla sér veiðarfæra, þá er vitanlegt, að það hafa verið veitt leyfi fyrir innflutningi á því, sem menn hafa þurft til útgerðarinnar. og þar á meðal nauðsynlegum veiðarfærum. Hafi einhverntíma orðið á því dráttur, er það fyrir mistök, og er ekki um slíkt að sakast, þar sem ekki getur verið um að ræða nema einstök dæmi, ef þau eru nokkur. Hitt er annað mál, eftir að heildarandvirði útflutningsins hefir minnkað og sjóðir eru farnir að frjósa inni og festast í viðskiptalöndunum, þó erfiðleikar hafi orðið á því fyrir bankana að greiða erlendu vöruna. Þó hygg ég, að þeir hafi reynt að láta þennan nauðsynlega varning sitja fyrir sem allra mest.

Ég vildi því mjög eindregið mælast til þess við þá, sem hafa staðið að þessu máli, að þeir haldi sér á þeim grundvelli, sem samkomulag hefir orðið um í fjhn. og gengið hefir verið inn á af þeim mönnum, sem með þessi mál fara, fulltrúum bankanna og gjaldeyrisnefnd. Menn verða vel að athuga það, að hér er ekki um það að ræða, hvort menn fá yfirleitt að flytja inn nauðsynlegustu vörur til útgerðarinnar, heldur aðeins hvort útgerðarmenn megi ráðstafa sínum eigin gjaldeyri án þess að bankarnir verði þar milliliðir. Og sú frávikning frá fyrri ákvæðum um þetta efni, sem gerð er í till. n., er tilraun til þess að komast hjá því, að bankarnir þurfi að setja sig þarna á milli að því er snertir vissur vöruteg., til þess að ábyrgjast greiðslu þessara vara.

Hv. 1. landsk., sem hefir sérstöðu í þessu máli, benti á, að þetta kynni að koma í bága við tryggingu bankanna, þegar þeir hefðu veð í fiskinum. Bankarnir hafa nú verið kvaddir til þessa máls, og þeir fulltrúar þeirra, sem lögðu með þessum till., munu hafa gert sér það ljóst, að þetta þyrfti ekki að koma til, enda mega útgerðarfyrirtækin vitanlega ekki ráðstafa því fé, sem þau hafa veðsett bönkunum, nema í samráði við lánardrottnana, og það er atriði fyrir sig, hvort þau hafa leyfi þeirra fyrir því.

En ég legg mikla áherzlu á það, að ef farið er að útvíkka þessa heimild frá því, sem till. fjhn. gera ráð fyrir, til smærri vöruflokka, þá er fullkomlega vafasamt, hvort hægt verður að ganga inn á að afgr. frv. þannig.

Þá er það viðvíkjandi þeirri till. frá meiri hl. fjhn., sem hv. þm. Vestm. gerði að umtalsefni og flutt er að minni tilhlutun. Hann sagði, að í henni væri gert ráð fyrir hömlum á því, að menn gætu ferðazt til útlanda. Þetta er ekki rétt. Það er ekki gert ráð fyrir neinum frekari hömlum í þessu efni heldur en verið hefir, heldur ganga till. eingöngu út á það, að hafa eftirlit með þeim hömlum, sem verið hafa í gildi, svo ákvæði gjaldeyrislaganna séu eigi fótum troðin. Það, sem till. fara fram á, er aðeins það, að menn verði að gera grein fyrir því áður en þeir fara úr landi, að þeir hafi fengið gjaldeyri sinn á löglegan hátt, samkv. ákvæðum þeirra laga, er nú gilda. Hér er því ekki verið að hamla því, að menn geti farið til útlanda, heldur er verið að koma í veg fyrir, að menn afli sér gjaldeyris til þess á ólöglegan hátt. Hv. þm. spurði að því, hvort svona ákvæði giltu annarsstaðar. Ég verð nú að segja, að ég get ekki séð, að það skipti verulegu máli, hvort hliðstæð ákvæði gilda annarsstaðar. Aðalatriðið er, hvort þessi ákvæði út af fyrir sig eru eðlileg og ná þeim tilgangi, sem þeim er ætlað að ná. Það er búið að athuga þetta mál mikið, og niðurstaðan hefir orðið sú, að það væri ógerlegt að hafa eftirlit með þessu, nema menn væru látnir gera grein fyrir gjaldeyri sínum áður en þeir fara. Að eltast við menn eftir á með fyrirspurnir um, hvernig þeir hafa fengið gjaldeyri til fararinnar, er ókleift.

Ég get sagt hv. þm. það, sem hann og drap á sjálfur, að það er ekkert einsdæmi, þó haft sé strangt eftirlit með þessum hlutum. Ég veit t. d. til þess, að í Danmörku er mjög strangt eftirlit; skeður jafnvel af og til, að leitað er á mönnum og þeir yfirheyrðir til þess að vita, hvort þeir hafa hagað þessum málum á löglegan hátt og hvort þeir hafa ekki með sér of mikið af gjaldeyri landsins sjálfs, þegar þeir fara úr landi. Þetta er mér kunnugt, og ég hefi talað við menn þar í landi, sem telja þetta sjálfsagðan hlut, og það þá menn, sem eru pólitískt af öðru sauðahúsi heldur en þeir, sem þessu ráða. Ég fæ ekki séð, að það sé meira ófrelsi í því að þurfa að gera hlutaðeigandi yfirvöldum grein fyrir því, hvort menn hafa fengið gjaldeyri á löglegan hátt áður en menn fara til útlanda, heldur en að þurfa yfirleitt að sækja um innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir því, sem menn flytja til landsins, áður en vörurnar komu. Ég sé ekki, að á þessu sé neinn eðlismunur.

Það þýðir ekki í sambandi við svona mál að slá um sig með því, að menn séu ekki frjálsir að þessu eða hinu. Það er almennt viðurkennt, að það ástand, sem nú ríkir, krefst þess, að gerðar séu sérstakar ráðstafanir og höfð hönd í bagga með ýmsu, sem á venjulegum tíma getur gengið án þess að verið sé að sletta sér þar fram í. Það verður bæði að hafa hér gjaldeyrishömlur og sjá um, að óeðlilegu miklu af okkur litla gjaldeyri sé ekki varið til ferðalaga; um það tjáir ekki að fást. Þá er bara um það að ræða, hvernig bezt er að koma þessu í framkvæmd. Það, sem athuga þarf í þessu sambandi, er það, hvort þessi ákvæði eru líkleg til þess að ná tilgangi sínum. Hvort aðrar þjóðir hafa valið nákvæmlega þessa leið eða aðrar leiðir, skiptir ekki máli; aðalatriðið er, hvort þessi leið er heppileg. Ég býst við, að ef tekinn væri sá kostur, eins og sumstaðar er gert, að leita á fólki, sem er að fara út úr landinu, þá mundu ýmsir reka upp óp og telja slíkt óviðurkvæmilegt og ónauðsynlegt. Þó er þetta gert hjá ýmsum öðrum þjóðum. Hér er gert ráð fyrir að reyna fyrst þá leið, að láta menn gera grein fyrir þessum hlutum áður en þeir kaupa farseðil. Hvort það verður nóg út af fyrir sig, verður reynslan að sýna, en ég er ekki í vafa um, að þetta mundi stórkostlega létta eftirlitið með því, að gjaldeyrislögin séu ekki brotin að þessu leyti.

Ég ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þetta. Ég geri fastlega ráð fyrir því, að mikill meiri hl. hv. dm. sé því samþykkur út af fyrir sig, að úr því það þarf að hafa þessar gjaldeyrishömlur, þá verði ekki hjá því komizt að hafa eftirlitið strangar, en verið hefir með ferðum til útlanda.