27.02.1936
Neðri deild: 10. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

2. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Hannes Jónsson:

Ég hefi ekki athugað þetta frv. eins vel og ég tel þörf á. En ég vil þó nú strax benda á þá miklu takmörkun, sem er á fjárveitingu til sýsluvegasjóða samkv. þessu frv. Ég vildi vænta þess, að n. taki þetta atriði sérstaklega til yfirvegunar, hvort þessi mikla takmörkun á fjárveitingu til sýsluvega muni reynast eins heppileg eins og ég hygg að nm. hafi búizt við.

Í mörgum sýslufélögum hefir undanfarin ár verið reynt að setja sýsluvegasjóðsgjöldin svo hátt sem frekast hefir verið unnt, til þess að hafa sem mestu fé yfir að ráða til sýsluvegalagninga. Mér er það kunnugt, að í mínu héraði hefir verið lögð hin mesta áherzla á að reyna að afla sem mests fjár í þessu augnamiði. Og hvergi hefir vegavinna náð því að verða eins mikið að almennum notum fyrir verkamenn eins og einmitt þessi sýsluvegavinna.

Eins og hv. þdm. muna, þá er samkv. l. um sýsluvegasjóði ekkert veitt út á 1–2‰ sem lagt er til sýsluvega úr héruðum. Á móti 3–4‰ er veitt jafnmikið úr ríkissjóði, en á móti 5–6‰ er veitt tvöfalt úr ríkissjóði. Þetta var miðað við það, að þeir, sem legðu svo miklar kvaðir á sig, að þeir legðu í 6‰, fengju borgað úr ríkissjóði jafnmikið á móti. En með því að takmarka þetta framlag við 5‰, þá er útilokaður sá möguleiki, að hægt sé að fá úr ríkissjóði jafnmikið framlag á móti. Og ef á að vinna eitthvað svipað eins og gert hefir verið að undanförnu, sem ég hugsa, að hafi verið það minnsta, sem sýslufélögin hafa séð sér fært að vinna fyrir, þá verða þau að bæta við því, sem lækkuninni nemur, úr ríkissjóði. Verða þá hlutföllin á milli þess, sem sýslufélögin leggja fram á móti ríkissjóði, svo óhagstæð, að það verður jafnvel verra að búa undir þessum ákvæðum fyrir sýslufélög, sem komið hafa á hjá sér sýsluvegasjóðssamþykktum. En það er vitanlega ekki ætlunin, og er óheppilegt að setja þau sýslufélög skör lægra í þessum efnum hvað snertir stuðning frá ríkisvaldinu. Miklu frekar ætti að stuðla að því, eins og gert var í upphafi, að slíkum sýsluvegasjóðssamþykktum sé komið á, því það hefir sýnt sig, að hjá þeim sýslufélögum, sem komið hafa á hjá sér þessum samþykktum, hefir fyrst verulega orðið ágengt í þessum efnum.

Ég efast um, að n. hafi gert sér þetta í öllum atriðum fyllilega ljóst, og þess vegna vænti ég þess, að hún taki þetta til endurnýjaðrar athugunar. Mætti þá koma með brtt. við 3. umr., ef hv. nm. sannfærðust um, að það sé á rökum reist, sem ég hefi nú fært fram til athugunar.

Þó að ég vildi taka hér nokkra fleiri liði til athugunar, þá mun ég sleppa því að þessu sinni, en vænti þá, að n. taki þeim mun fúsari við aths. mínum.