01.04.1936
Neðri deild: 39. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (2571)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Finnur Jónsson:

Í upphafi nál. frá meiri hl. fjhn. á þskj. 242 segir, að fjhn. hafi rætt þetta frv. við hæstv. fjmrh., bankastjóra Landsbankans og Útvegsbankans, en frá afstöðu þessara manna er ekki skýrt í nál., og má þess vegna gera ráð fyrir, að fjhn. vilji láta líta svo út, að þeir séu þessu frv. fylgjandi. Nú hefi ég það fyrir satt, að tveir af bankastjórum Útvegsbankans séu þessu frv. alveg mótfallnir. Um afstöðu bankastjóra Landsbankans er mér ekki kunnugt, en mér er rær að halda, að frá meiri hl. bankastjórnar Landsbankans liggi ekki nein yfirlýsing um það, að hún mæli með þessu frv. eða þessum brtt., eins og þær liggja fyrir á þskj. 242 frá hv. meiri hl. fjhn. Nú vil ég ganga út frá því sem vísu, að þetta frv. sé flutt í mjög góðu skyni, en þó ber að athuga nokkuð nánar, hvernig þessu máli er fyrir komið og hvort útgerðarmenn í landinu eru yfirleitt innflytjendur að þeim vörum, sem í frv. eru nefndar, og hvort þessar till. komi þannig öðrum að gagni en einstökum útgerðarmönnum. Því verður ekki neitað, að með því að gefa gjaldeyrinn lausan fyrir þessar vörur er þeim, sem fá þennan gjaldeyri, um leið gefin nokkur smuga til þess að skjóta gjaldeyri undan, og jafnvel til fjárflótta út úr landinu. Það lítur út fyrir, að hæstv. fjmrh. sé hræddur um, að hann geti ekki haft eftirlit með því, að slíkt komi ekki fyrir, og þar sem þessi mál heyra undir hann, þá býst ég við, að hann geri ráðstafanir til þess að hafa öflugt eftirlit með þessu. Nú er það vitað, að innflutning á kolum, salti og olíu hafa ekki aðrir með höndum en stærstu útgerðurmennirnir; allur fjöldinn af smáútgerðarmönnum úti um landið flytja lítið inn sjálfir til sinnar útgerðar, nema ef vera kynni eitthvað af veiðarfærum og öðrum útbúnaði til skipa, en kol, salt og olía er mestmegnis flutt inn í svo stórum stíl til landsins, að smáútgerðarmennirnir flytja þá vöru ekki inn. Till. þessi er því, eins og hún er núna frá hv. meiri hl. fjhn., ekki um annað en að gefa gjaldeyrinn lausan fyrir stórútgerðarmenn landsins. Einn af till.mönnunum, hv. þm. G.-K., getur vel sætt sig við það, að smáútvegsmennirnir fari á mis við þessi hlunnindi, ef þeir stóru fá að njóta þeirra. Nú hefir það verið svo um gjaldeyrinn fyrir þessar vörur og aðrar útgerðarvörur, að það hefir vitanlega ekki hvílt bein skylda á bönkunum að útvega gjaldeyri fyrir þessar vörur, en þar sem þeir hafa tekið allan gjaldeyrinn, sem fengizt hefir fyrir sölu framleiðsluvaranna úr landi, þá hefir þeim borið siðferðisleg skylda til þess að sjá um, að nægilegur gjaldeyrir væri fyrir hendi til þess að flytja útgerðarvörur inn í landið, og ég veit ekki betur en að bankarnir hafi rækt þessa siðferðisskyldu óaðfinnanlega. Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er þessari siðferðisskyldu létt af bönkunum. Ég get ekki betur séð en að fyrir smáútgerðarmennina og aðra þá, sem engin hlunnindi fá með þessu frv., geti stafað mikil hætta af þessu. Með því að losa bankana undan þessari skyldu, geta þeir sagt, þegar til þeirra er komið: Þið hafið leyfi fyrir ykkar gjaldeyri og getið notað hann til þess að kaupa útgerðarvörur fyrir, og okkur er það óviðkomandi. — Ég fæ ekki betur séð en að með þessari till. sé að nokkru leyti stefnt í voða innflutningi á útgerðarvörum fyrir aðra en stærstu útgerðarmennina, og ég fyrir mitt leyti, sem stjórnandi útgerðarfyrirtækis og fulltrúi fyrir marga smáútvegsmenn, get ekki sætt mig við þessa till. eins og hún er orðuð. Ef hér á að gera undanþágu frá núv. gjaldeyrislögum, þá tel ég ófært að láta þá undanþágu ná til örfárra manna, heldur á hún að ná til útgerðarmanna yfirleitt; ég get lýst yfir þeirri afstöðu minni til þessa máls, að ég álít, að í raun og veru séu till. óþarfur eins og þær voru fram bornar í fyrstu, en eins og þær eru nú orðaðar, með brtt. frá hv. meiri hl. fjhn., tel ég þær beinlínis skaðsamlegar og álít, að þær geti verið stórhættulegar fyrir gjaldeyrisástand landsins.

Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að lesa upp skrifl. brtt., með leyfi hæstv. forseta. Það er brtt. við brtt. á þskj. 271, um það, að í stað orðanna: „Kolum, olíu, salti og veiðarfærum“ komi: Kolum, olíu, salti, síldartunnum, hverskonar veiðarfærun: og öllum útbúnaði til skipa hverju nafni sem nefnist. — Verði þessi till. ekki samþ., mun ég greiða atkv. móti till. hv. meiri hl. fjhn. á þskj. 242.