01.04.1936
Neðri deild: 39. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í C-deild Alþingistíðinda. (2573)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Frsm. (Ólafur Thors):

Það hefir verið allmikið um þetta mál talað síðan ég tók síðast til máls, en þó er það ekki nema fátt, sem gefur mér tilefni til sérstakra andsvara, m. a. sökum þess, að sumir þeirra ræðumanna, sem hafa talað um málið, hafa haldið fram sömu skoðun og ég, og hafa þeir tekið af mér ómakið að svara. Það, sem hér hefir verið sagt til andmæla þessu frv., hefir ekki allt verið byggt á fullum skilningi á þessu máli, en þó þykir mér ræða hv. síðasta ræðumanns skera mjög úr í þessu efni, vegna þess að hún var með þeim endemum, sem fáum eru lagin, nema honum. Hann byrjaði með því að vega að okkur, sem erum í meiri hl. n., og hélt því fram, að við hefðum falsað í nál. okkar þær fregnir, sem við færðum af okkar störfum, þar sem við segðum, að bankastjórarnir, sem nefndir eru í nál., væru sammála okkur um þá stefnu, sem við tökum til málsins. Um þetta er ekkert sagt í okkar nál., en hinsvegar er það rétt, að á fundinum mættu tveir bankastjórar, þeir Magnús Sigurðsson og Jón Ólafsson, og kvað hinn síðarnefndi skýrt á um það, að hann teldi frv. til bóta, og kvaðst vera því fylgjandi, en Magnús Sigurðsson lét svo um mælt, að gefnu tilefni frá hæstv. fjmrh., að hann hefði ekkert að athuga við þetta mál, þótt orka kynni tvímælis, hvort það næði tilgangi sínum að öllu leyti. Í fundarlokin skauzt einn bankastjóri útvegsbankans, Jón Baldvinsson, inn á fundinn. Hann lét engin mótmæli fylgja komu sinni þangað, þótt mér virtist, af því litla, sem hann sagði um málið, að hann væri ekki jafntrúaður á það og Jón Ólafsson.

Ég skal nú ekki gera að ádeiluefni á hv. þm. Ísaf. það, sem hann sagði um þetta, en mér finnst rökstuðningurinn, sem hann færði fyrir sinni afstöðu til málsins, vera næstum því hlægilegur. Hv. þm. er að leitast við að klæða þetta mál í þann búning, að útvegsmenn megi af því álykta, að hér sé unnið fyrir þá stóru, en ekki fyrir heildina. Ég er viss um, að andstaða þessa hv. þm. á sér rætur í allt öðru en hann hefir enn látið koma fram; það, sem skapar andstöðu hans, er sumpart það, að við flm. erum sjálfstæðismenn, og sumpart allt annað. Hann finnur hinsvegar, að það er hæpið fyrir þann mann, sem hefir haft á hendi formennsku sjútvn., að vera æfinlega á móti öllum velferðarmálum sjávarútvegsins; þess vegna reynir hann að bera fram tylliástæðu til þess að gylla þessa mjög svo vitaverðu framkomu sínu í þessu efni. og honum hefir litizt bezt á að skapa sér skjól í fullyrðingunni um það, að hér væri ekki um að ræða hagsmuni smáútvegsins, heldur stórútgerðarinnar. Ég vil spyrja hv. þm. að því, hvaða stórútgerðarmenn það eru, sem sérstaklega þurfa á olíu að halda. Ég vil spyrja hann að því, hvort sú olía, sem þetta frv. leggur til, að leyst verði undan böndum gjaldeyrisnefndar, er notaþörf stórútgerðarinnar eða vélbátanna. Og loks spyr ég að því, hvað smáútgerðin noti í stað salts, eða hvort hún kannske noti salt alveg eins og stórútgerðin. Andstaða hv. þm. er mótuð af því, að vegna ótta við hv. 2. þm. Reykv. þorir hann ekki annað en að halda hlífiskildi yfir olíuverzluninni eins og hún er rekin. Ef nú í dag væri hægt að leysa olíuþörf minni útvegsins undan einokuninni, þá væri hægt að lækka olíuverðið um 2–3 aura pottinn, og sú leið, sem farin er í þessu frv., er örugg leið til lækkunar á olíuverðinu. Þá gætu minni útvegsmenn slegið sér saman og pantað 50 eða 100 tunnur t. d., og í dag get ég útvegað þessum mönnum olíu, sem er 2 aurum lægri, jafnvel þótt hún væri flutt inn í tunnum, heldur en sú olía, sem er hér í tönkum, og ef þessi hv. þm. leyfir sér að bregða fæti fyrir þessa viðleitni til lækkunar á olíuverðinu, þá er hann ekki að tala sem umboðsmaður og fulltrúi smærri útvarpsins, heldur sem þjónn hv. 2. þm. Reykv., olíukaupmannsins Héðins Valdimarssonar.

En við skulum víkja aftur að sjálfum rökstuðningi hv. þm. Hann segir, að þetta sé ekki aðeins gagnslaust fyrir minni útveginn, heldur til bölvunar fyrir hann, og rökin, sem hann færir fram, eru þessi: minni útvegurinn þarf ekkert að flytja inn af þessari vöru og nýtur því ekki góðs af ákvæðum frv. En sú bölvun, sem þetta færir yfir minni útgerðina, segir hv. þm., að liggi í því, að þegar hún snýr sér til bankanna og biður um tryggingu, þá segja bankarnir: Þið hafið lögin, og við þurfum ekki að skipta okkur neitt af þessu.

Hverskonar hugsanagrautur er þetta eiginlega? Hvaða erindi eiga þessir minni útgerðarmenn til bankanna til þess að biðja um tryggingu á gjaldeyri til greiðslu á andvirði notaþarfa þeirra, ef þeir eru ekki sjálfir innflytjendur? En ef þeir eru innflytjendur, þá eiga þeir erindi í bankana og koma þá líka undir fríðindi þessarar löggjafar. Þetta er svo augljóst mál, að jafnvel hv. þm. Ísaf. ætti að skilja það. Það er slæmt, að það skuli koma svo oft fyrir, að þessi hv. þm., sem illu heilli hefir ár eftir ár verið valinn form. hv. sjútvn. og ætti því að vera sjálfkjörinn málsvari útvegsins, skuli rísa upp gegn helztu nauðsynjamálum sjávarútvegsins. Það var hann, sem drap niðurfellingu á útflutningsgjaldi af sjávarafurðum í fyrra; það var hann, sem drap niðurfellinguna á hinum geipiháa tolli á síldarmjöli. Hann, sem þykist vera forsvarsmaður og fulltrúi sjómanna, hefir hvað eftir annað undanfarin ár svikið þessa menn í tryggðum, og það er ekki alltaf af eintómri vanþekkingu. — Hann getur oft afsakað sig með fáfræði, en þó ekki núna. Hann veit, að olíuverðið lækkar, ef frv. þetta verður að lögum. Ástæðan fyrir framkomu hans í þessu máli er hinsvegar ósjálfstæði hans, þegar um er að ræða hagsmuni hv. 2. þm. Reykv.

Þá er heldur ekkert því til fyrirstöðu, að minni útvegsmenn geti slegið sér saman um saltkaup; enda vita margir, að venjan er sú, að margir sendendur eru að flestum saltförmum, sem hingað koma. Ekki er það skynsamleg afstaða til máls að neita vissum fríðindum til útvegsins, þó maður geti ekki öðlazt fullkomnustu hlunnindi. Með sama rétti mætti segja: ég vil ekki frv. eins og það liggur fyrir, vegna þess að ég heimta að fá allan gjaldeyrinn og ráða sjálfur verðinu.

Einlægni hv. þm. má marka af því, að flokksbróðir hans, hv. 1. landsk., lýsti yfir því í n., að hann væri mótfallinn þessu máli, af því að flokkurinn væri allur á móti því. Hin opinbera afstaða Alþfl. hér í d. er því sú, að flokkurinn segist vera andvígur þessu máli, ekki af því, að hann unni útveginum ekki að fá gjaldeyri til umráða til þess að kaupa fyrir notaþarfir framleiðslu hans heldur vegna þess, að í framkvæmdinni verði þetta svo örðugt, og hinsvegar af því, að gildandi lagaákvæði séu með þeim hætti, að engin nauðsyn sé á því að breyta þessu. Og hv. þm. Hafnf., einn aðalmaður flokksins, sagði í þessu sambandi, að því meir sem ramminn væri færður út í þessu efni. því harðari yrði andstaða Alþfl. gegn þessu máli. En svo kemur þessi hv. þm. Ísaf. og segir: ég vil ekki sjá, að útgerðarmenn fái kol, olíu og salt, fyrst þeir geta ekki fengið allt, sem ég bið um, sem þó allir aðrir Alþfl.menn eru andvígir, vegna þess að þeir telja, að þá verði þetta óframkvæmanlegt. Það er sama, frá hvaða sjónarmiði niðurstaða hv. þm. er skoðuð; hún er jafnfráleit, hvernig sem á hana er litið. Hv. þm. verður að skilja, að það er ekki eðlilegt, að hann geti vaðið hér uppi hvað eftir annað þvert ofan í hagsmuni útvegsmanna, án þess að verða einhverntíma að standa fyrir máli sínu.

Hv. þm. Hafnf. reis hér upp sem talsmaður innlends iðnaðar, og það er út af fyrir sig sjónarmið, sem ég virði fyllilega. Það hafa margir þm. undanfarin ár látið þá skoðun í ljós, að það bæri að hlynna að þeim vísi til innlends iðnaðar, sem hér hefir sprottið upp, en það verður náttúrlega að hafa hóf í þeim efnum eins og öðru, og get ég tekið undir margt af því, sem hv. þm. Vestm. segir í þessu sambandi. Það dugir ekki eingöngu að einblína á þá hlið málsins, að hér skapist nokkur atvinna; það verður líka að líta á það, að sú vara, sem framleidd er í landinu, lokar þörfinni fyrir því að kaupa hana annarsstaðar, og það er ekki út af fyrir sig kostur, heldur líka ókostur, því að á þessari öld jafnkaupa er minnkandi innflutningur sama og minnkandi útflutningur. Við þessar umr. ber því að hafa þetta sjónarmið hugfast. Auk þess verður að líta á það, að talsverð hætta fylgir því að byrja á innlendum iðnaði í skjóli hárra tolla og innflutningsbanna, ekki sízt þegar þessi vísir til iðnaðar er um leið og hann byrjar að sýna einhvern arð neyddur til að greiða kaup, sem miðað er við þann afrakstur, sem iðnaðurinn gefur af sér í skjóli hafta og tolla. Hið háa verðlag á iðnvörunni gengur svo út yfir neytendur í landinu, sem nota framleiðsluvöru þessa iðnaðar, og að lokum út yfir útflutningsvörur landsmanna. Iðnaður, sem þannig er byggður, er í rauninni ekki annað en óbein kauphækkun á hendur þeim, sem framleiða þá vöru, sem seld er úr landi. Annars verð ég að segja, að ég held, að það sé ekki rétt skilið hjá hv. þm. Hafnf., að það beri að líta á þetta máli út frá því sjónarmiði sérstaklega, sem hæstv. fjmrh. gat um í þessu sambandi, því að sú vernd, sem innlendur iðnaður hefir fengið hjá gjaldeyrisnefnd, heldur náttúrlega áfram, þótt þetta frv. verð samþ., svo að þessu leyti lá ræða hv. þm. utan við sjálft efnið.

Þrátt fyrir gefið tilefni frá hv. 2. þm. Reykv. ætla ég ekki að fara út í skráningu krónunnar; það liggur ekki fyrir til umr: í sambandi við þetta mál. En ég vildi aðeins í tilefni af því, sem hv. þm. sagði, leiðrétta þann misskilning, að afleiðing gengislækkunar yrði annaðhvort kauphækkun, og þar með væru atvinnurekendurnir sviptir hagsmunum af gengislækkun, eða þá þverrandi möguleikar verkalýðsins. Hér er 3. möguleikinn, og hann að mínu áliti stærstur. Hann er sá, að lækkun kr. og sú nýja aðstaða til arðvænlegrar afkomu atvinnuveganna, sem lækkunin skapar, leiði af sér aukið atvinnulíf og þar af leiðandi aukna atvinnu, og þannig getur afkoma verkalýðsins í sjálfu sér orðið betri, enda þótt tímakaupið verði rýrt með lækkun gengisins. Þetta sjónarmið þótti mér rétt, að kæmi fram að gefnu tilefni við hlið hins sjónarmiðsins. — Ég hafði hugsað mér að taka til meðferðar hér ummæli þessa hv. þm. viðvíkjandi þeim annmörkum, sem hann taldi, á veðsetning framleiðenda bönkunum til handa. En ég tel ekki, með hliðsjón af því, sem aðrir eru búnir að segja hér um þetta efni, ástæðu til að fara langt út í þetta. Aðalatriði þessa máls er, eins og ég tók fram í frumræðu minni við 1. umr., að gera tilraun til að endurvekja það traust, sem innflytjendur höfðu áður til þess að fá vörur án tryggingar. Þetta traust er nú niður brotið, og sumpart, að minni hyggju, af ákvæðunum um gjaldeyrisverzlunina. Ég þori ekki að fullyrða, að þetta sé nóg til þess að endurvekja traustið, en ég geri mér vonir um það. Að því er snertir það, sem hv. þm. gat síðast um, hvort það væri ekki nokkuð viðurhlutamikið að leysa þannig undan umráðum gjaldeyrisn. andvirði þessarar aðfluttu vöru, þá er þess að geta, að hér er í raun og veru ekki um að ræða að gera neitt nýtt í þessu efni. Það hefir ekki verið skoðun nokkurs manns mér vitanlega, hvorki þeirra, sem að framkvæmd gjaldeyrisl. standa, né annara, að það eigi að neita um gjaldeyrisleyfi fyrir kol, olíu og veiðarfæri. Hér er því ekki um nein aukin gjaldeyrisleyfi að ræða, heldur breytt fyrirkomulag.