01.04.1936
Neðri deild: 39. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (2574)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það hefir verið talað svo fyrir þessu máli af flm. þess, að mér er ekki grunlaust um, að það sé gert til þess að láta útvegsmenn sjá, hvað þeir séu skeleggir til þess að tala fyrir málum útvegsmanna. Það, sem er aðalatriði þessa máls, er það, hvernig hægt er að komast framhjá því, að bankarnir, sem eru meira og minna ábyrgðir af ríkissjóði, þurfi að ganga í ábyrgð fyrir yfirfærslu allra þessara vara. Út af brtt. hv. þm. Vestm. get ég sagt það, að ef hún nær fram að ganga, get ég ekki fylgt frv. lengur, vegna þeirra erfiðleika, sem ég tel, að mundu þá verða um eftirlit með gjaldeyrishömlunum. Það eru ýmsir, sem álíta, að betri árangur muni nást með því, að útvegmenn sjálfir fái þennan gjaldeyri án þess að það þurfi að ganga í gegnum bankana, og út frá sjónarmiði þeirra vil ég ekki ganga á móti þeirri breyt., sem meiri hl. fjhn. leggur til, en takist hinsvegar ekki að halda því innan þess ramma, sem þar er gert ráð fyrir, sé ég mig neyddan til að snúast á móti málinu.