03.04.1936
Neðri deild: 41. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í C-deild Alþingistíðinda. (2578)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Finnur Jónsson:

Hv. þm. G.-K. vék að mér heldur óvingjarnlega, þegar þetta mál var á dagskrá síðast. Það hefir verið svo með þennan hv. þm., að hann hefir vanalega þurft að ausa úr skálum reiði sinnar yfir mig nokkrum sinnum á hverju því þingi, sem við höfum verið saman á. Nú er nokkuð langt um liðið síðan þetta hefir skeð, svo að það má gera ráð fyrir, að hv. þm. G.-K. hafi verið orðið mál að losa, ekki sízt vegna þess, að ég hefi mjög nýlega og reyndar oftar bent á ýmiskonar yfirborðsfleipur og barnaskap, sem hann hefir leyft sér að fara með í ýmsum till., sem hann hefir flutt um sjávarútvegsmál. M. a. hefi ég alveg nýlega flett ofan af skaðræðistill., sem þessi hv. þm. hefir flutt ásamt öðrum hv. þm. um síldveiði við Faxaflóa, en sú till. er þannig vaxin, að formaður Sjálfstfl. mun ekki fá neina þá flokksmenn sína, hvað þá aðra, sem hagsmunir þessarar till. ganga í gegn, til þess að greiða henni atkv., og hæstv. forseti hefir miskunnað sig yfir þennan hv. þm. með því að taka þessa till. út af dagskrá, sennilega fyrir beiðni þessa hv. þm., eða þá vegna hinna almennu brjóstgæða, sem hæstv. forseta eru gefin.

Út af þessu máli, sem hér liggur fyrir, er það svo, að hv. þm. G.-K. hefir fundið ástæðu til að ryðja úr sér einni af sínum alkunnu skammaræðum, en þó hefi ég ekki annað til saka unnið en að færa hans till. til þess sama vegar, sem hann upphaflega flutti þær. Hv. þm. G.-K. hóf umkvörtun sína á því, að ég hefði bent á afstöðu bankanna til þessa máls. Ég benti á það, að meiri hl. fjhn. segist hafa rætt við bankana um þetta mál, og það er ekki annars getið en að meðmæli bankastjóra beggja bankanna fylgi með þessum till. frá meiri hl. fjhn. Ég benti á, að þetta er alveg rangt. Ég benti á, að mér væri kunnugt um, að tveir af bankastjórum Útvegsbankans myndu vera till. algerlega mótfallnir, og hv. þm. G.-K. staðfesti þessa umsögn með því að lýsu yfir, að ekki hefðu mætt hjá n. nema tveir bankastjórar, sinn frá hvorum banka, og annar þeirra lýsti því yfir, að hann sæi ekkert að athuga við till. fjhn., en þær myndu varla nú tilgangi sínum. Af þessu er það augljóst, að meiri hl. bankastjóranna álítur till. fjhn. annaðhvort skaðlegar eða tilgangslausar. Og fer þá að verða lítið úr þeim bægslagangi hv. þm. G.-K. að telja, að hér sé um að ræða mál, sem geti orðið til stórra heilla fyrir sjávarútveginn. Hv. þm. G.-K. vildi halda því fram, að mín afstaða í þessu máli markaðist af því, að ég væri að ganga hér erinda olíufélaganna í landinu, og lofaði hann um leið því, að nú ætlaði hann, ef hann fengi gjaldeyri, að lækka olíuverðið í landinu um tvo aura á kg. Það er nú svo um hótanir þessa hv. þm., að þær eru vanalega munnfleipur eitt, og því miður mun því svo vera farið með þessi gullnu loforð, að þau eru ekki nema munnfleipur eitt. Nú myndi enginn fagna því meira en ég, ef hv. þm. G.-K. gæti komið því til leiðar, að olíuverðið í landinu lækkaði um tvo aura kg., og jafnvel væri það góðra gjalda vert, þó lækkunin yrði minni. Ef hv. þm. heppnaðist að framkvæma þetta loforð, sem hann hefir gefið þingheimi. þá yrði það fyrsta þarfaverkið, sem hann ynni í þágu sjávarútvegsins, og sízt skyldi standa á mér að unna honum um það sannmælis.

Hv. þm. G.-K. vildi halda því fram, að ég með brtt. minni væri að ganga erinda olíufélaganna af umhyggju fyrir hv. 2. þm. Reykv. Það er rétt, að ég ber virðingu fyrir hv. 2. þm. Reykv. og met hans ráð mikils, en hitt er tilhæfulaust, að ég hafi gengið erinda olíufélaganna, og þá ekki fremur hv. 2. þm. Reykv. en annara, sem fást við olíusölu. Ég hefi aldrei á einn eða annau hátt hlynnt að olíufélögunum eða þeirra verzlun. En ég hefi sem form. sjútvn. Nd. gert ýtarlega tilraun til að útvega einum keppinaut þeirra tveggja olíufélaga, sem ráða hér verðinu, innflutnings- og gjaldeyrisleyfi. Til sjútvn. bárust tilmæli um það, og ég gerði allt, sem ég gat, til þess að keppinauturinn fengi gjaldeyrisleyfi. M. a. átti ég sem form. sjútvn. tal við form. innflutnings- og gjaldeyrisnefndar og við ríkisstj., og fékk loforð um þetta leyfi. Þetta eru þau afskipti, sem ég hefi haft af olíumálunum á þingi, og samt leyfir þessi hv. þm. sér að koma fram hér í d. og segja, að ég gangi erinda olíufélaganna.

Hann getur vitanlega, þessi hv. þm., gert öðrum getsakir, ef hann vill, og ég gæti nú farið inn á sömu braut og minnt á hans gerðir. Ég get t. d. sagt, að nú nýlega vatt þessi hv. þm. sér inn í bankaráð Landsbankans til þess — ef ég viðhefði orð hv. þm. V.-Húnv. — að tryggja sér aðstöðu til að ná í fé til að kaupa fyrir kjördæmi handa sér og fjölskyldu sinni, fé, sem þjóðin fær síðan að borga. — Ég gæti líka haldið fram, að hv. þm. hlypi frá till. sínum um gjaldeyrinn, þegar hann hefir sjálfur von um að fá umráð yfir gjaldeyri fyrir sitt fyrirtæki. Og þetta er einmitt það, sem hefir gerzt. Hv. þm. G.-K. flutti ásamt öðrum þm. frv. á þskj. 110 um breyt. á l. um gjaldeyrisverzlun. Í upphafi er þessi till. ákaflega víðtæk og orðalagið almennt, að útgerðarmenn áttu að fá umráð yfir gjaldeyri fyrir hverskonar vörur til útgerðar sinnar. En svo þegar búið er að gera þá breyt. á frv., að það verður ekki til annars en að nokkrir fáir stórútgerðarmenn geti notað sér það, þá hleypur þessi hv. þm. frá sinni upphaflegu til., þegar hann heldur, að hag síns fyrirtækis sé borgið — og gefur skollann í alla smáútgerðarmennina.

Nú er það vitanlegt, að gjaldeyrir smærri útgerðarmannanna er veðsettur bönkunum að mestu leyti, og að þeir verða að afhenda hann jafnóðum, og geta þeir því á engan hátt notfært sér þetta gjaldeyrisleyfi, sem fást skal eftir till. meiri hl. fjhn., þar sem hv. þm. G.-K. er einn nm. Hinsvegar eru til 1–2 félög í landinu, sem ekki þurfa að veðsetja sinn gjaldeyri, og er annað þeirra það félag, sem hv. þm. G.-K. er óstarfhæfur ómagi hjá, sem sé Kveldúlfur, en hitt er Alliance. Frv. er því orðið svo í rauninni, að það er aðeins flutt með hagsmuni tveggja stærstu útgerðarfélaganna fyrir augum. Mörgum fleirum en mér hefir blöskrað hér í þessari hv. d., m. a. hv. þm. Vestm., sem flytur brtt. við till. fjhn., sem, ef samþ. yrði, mundi gera heimildina viðtækari, þar sem hún næði þá yfir veiðarfæri, og fleiri mundu geta notið hennar á þann hátt.

Hv. þm. G.-K. vildi fá samræmi í það, sem ég segði. Ég hefi nú lýst minni skoðun, og samræmið í henni er þetta: Ef gefa á gjaldeyrinn frjálsan, þá á það að vera handa öllum, og ég get ekki fallizt á þá till., að þau hlunnindi eigi aðeins að vera handa fáum stórum útgerðarfélögum. Það er þess vegna fullt samræmi í því, að ég mun greiða atkv. þeirri víðtækustu till., sem fram kemur, en ef heimildin verður þrengd, og frv. á aðeins að vera smásmuga fyrir 1 eða 2 stórútgerðarfélög, mun ég eðlilega greiða atkv. móti því. Ég vil, að öllum útgerðarmönnum sé gefinn réttur til að fara með sinn gjaldeyri, en ekki aðeins fáum þeirra, — ef á annað borð á að fara að gefa útgerðarmönnum þennan rétt fram yfir aðra.

Ég hefi áður bent á þá hættu, sem stafar af því fyrir smærri útgerðarmennina, ef þeirri skyldu er létt af bönkunum að útvega gjaldeyrinn. Hingað til hafa bankarnir ekki neitað um gjaldeyri fyrir útgerðarvörur, en ef þetta frv. yrði samþ., er ekki ólíklegt, að bankarnir segðu við útgerðarmennina, er til þeirra yrðu að leita um gjaldeyri fyrir vörum þessum: Þið verðið að sjá fyrir því sjálfir; þið hafið heimild í l. til að ráðstafa ykkar gjaldeyri fyrir þessum vörum. Nú eins og er geta bankarnir ekki sagt þetta við smáútgerðarmennina, og í því efni vil ég vitna í ræðu hv. þm. G-K., þó sjaldan séu sækjandi rök til hans. Hann sagði á þá leið, að bankarnir hafi ekki til þessa neitað um gjaldeyri fyrir vörum þessum, enda teldi hann það óviturlegt að neita um gjaldeyri, sem með þyrfti til framleiðslu landsmanna. Með þessu hefir hv. þm. G.-K. sannað, að bankarnir hafi ekki neitað um gjaldeyri fyrir útgerðarvörum. — en hvað á þá að gera með þetta frv.? Jú, það á að veita einstökum fáum útgerðarmönnum leyfi til að fara með sinn gjaldeyri, þrátt fyrir það, þó bankarnir hafi ekki til þessa neitað þeim um gjaldeyri til að kaupa fyrir útgerðarvörur. Það, sem verið að gera með þessari till., er ekkert annað en það, að hv. þm. G.-K. vill fá samþ. sérstök hlunnindi fyrir sig og sitt félag. Og þeim, sem hafa veitt því eftirtekt, hvernig þessi hv. þm. gengur sinna einkaerinda, móti hag alþjóðar, blöskrar þetta framferði ekkert, en það er til of mikils mælzt af honum, að ætlast til þess, að meiri hl. hv. þdm. fylgi honum í þessu og hjálpi til að skara eld að hans köku.