03.04.1936
Neðri deild: 41. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (2581)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Frsm. (Ólafur Thors):

Menn hafa nú heyrt hv. þm. Ísaf. halda eina af þessum afburðasnjöllu ræðum, sem Alþbl. talar svo oft um. Meðan á flutningi þessarar ræðu stóð fór ég að gera mér frið til dægrastyttingar að setja saman vísu, og þó að ég telji mig lítinn bragsnilling, vildi ég leyfa mér að hafa hana yfir; hún hljóðar svo:

Allt er í veröldu valt,

verður þó löngum í minni:

vell í vorglöðum spóa,

væl í lómi og kjóa,

jarmur í jóðsóttarrullu,

jag í blika við kollu,

fyrirlestrar hjá Finni, —

því allt er það afburða snjallt.

Þetta þykir mér að vísu ekki sérlega góð vísa, en nægilegt svar við þeim persónulega-skætingi, sem hv. þm. beindi til mín. Má hann af því vita og sjá, að það þarf meiri mann og skeleggari en hann til þess að koma mér út úr jafnvægi, enda væri það þungbær skömm að fást við þennan hv. þm. og geta ekki ráðið niðurlögum hans, en enginn heiður að hafa hann í hendi sér.

Vil ég þá víkja að örfáum atriðum í ræðu hv. þm. Mér skildist, að hv. þm. héldi, að ég væri ákaflega reiður við sig út af því, hvernig farið væri með þáltill., er ég flutti ásamt hv. þm. Borgf. Ég vil nú ekki reyna á þolinmæði hæstv. forseta með að rekja þetta atriði, en læt nægja að vísa til ummæla hæstv. forseta, er nægja til að opna innsýn í hug þessa hv. þm.

Út af þeim ummælum hv. þm., að fyrirmæli frv. myndu fyrst og fremst Kveldúlfi og Alliance til hagsbóta, bendi ég á, að einmitt þessi tvö félög eru þannig sett, að þeim mundi sízt synjað um gjaldeyri, og má því segja, að þau hafi litla eða enga þörf fyrir vernd frv.

Ég veit, að hv. þdm. ætlast beinlínis til þess, að ég neiti mér um að hirta hv. þm. svo nokkru nemi frekar en orðið er. Er mér það og geðfelldast. Annarsvegar liggur sjálft málið fyrir fullkomlega upplýst. Hinsvegar er öllum jafnljóst, að vesölum leikara hefir enn einusinni mistekizt að leika rullu sína.

Mér nægir aðeins að taka þetta fram: Verði þetta frv. að lögum, er vandkvæðalaust að útvega smáútvegnum alla sína olíu a. m. k. 2–3 aurum ódýrari lítrann en nú er. Þegar maður, sem kallaður er form. sjútvn., leggst gegn þessu, þegar þessi sami maður hefir áður lagzt gegn nær hverju einasta nauðsynjamáli útvegsins, svo sem afnámi útfl.gjalds af sjávarafurðum og jafnvel afnámi 7% gjaldsins af síldarmjöli, þá er það ekki eingöngu af því, að hann er klafabundinn þjónn olíukóngsins Héðins Valdimarssonar, heldur skortir hann líka alla samúð með sjávarútveginum.

Með ótal dæmum gæti ég sannað, hversu ófeiminn þessi hv. þm. er og hve taumlaust og skefjalaust hann misnotar þingmennsku sína. Ég vel þó aðeins eitt, m. a. af því það tekur af allan vafa. Með hnúum og hnefum barðist þessi hv. þm. gegn því frv. um skuldaskilasjóð, sem við sjálfstæðismenn fluttum til hjálpar allri útgerðinni, en hann sá sóma sinn, þ. e. a. s., hann mun frekar hafa séð hag sinn í því að hjálpa til að koma á skuldaskilasjóðskríli, sem miðað var fyrst og fremst við hans hagsmuni. Hann drap hagsmuni sjómannastéttarinnar sem heildar, en bjargaði sínum hagsmunum, með því að koma upp þessu skuldaskilasjóðskríli. Hann bar fram frv. um það og barðist fyrir því, og notaði svo fyrstur allra þetta sjóðskríli til að bjarga sjálfum sér frá yfirvofandi gjaldþroti, sjálfum sér og Samvinnufél. Ísfirðinga, en hann hefir haft á hendi stj. þessa fyrirtækis frá stofnun þess, og þótt hann hafi haft í þjónustu sinni afburðaaflamenn, þá hefir honum þegar tekizt, með 7 mótorbátum, að sökkva fyrirtækinu svo djúpt, að þegar skuldaskilasjóður tók til starfa, voru eignir fyrirtækisins 300–400 þús. kr., en skuldir um 800 þús. kr. Þetta er bágur hagur. Hitt er þó miklu verra, að beinlínis glæpsamlegt athæfi hefir verið í frammi haft. Þegar þessi hv. þm. sá, að félagið var orðið gjaldþrota, lék hann þann leik að nota aðstöðu sína sem bæjarfulltrúi og hafnarfulltrúi til að láta hið opinbera taka lán handa félaginu og svíkja hið opinbera um veð fyrir láninu. Með þessum hætti bjargaði hann svo því fé, sem hann og vildarvinir hans höfðu lagt fram í gróðaskyni.

Þetta er þungur dómur, sem ég kveð hér upp yfir hv. þm. Ég skora á hann að stefna mér, og skal ef hann óskar endurtaka þessi ummæli mín utan þinghelginnar.

Ég skal játa, að það þarf ekki að vera blettur á þessum hv. þm., þó að fyrirtæki hans sé illa stætt. Það eru mörg önnur fyrirtæki illa stæð nú á dögum. En þær aðferðir hans, sem ég hefi lýst, eru smánarblettur á honum, og ef ásakanir mínar eru sannar, þá á hann ekki að eiga þingsetu. Séu þær hinsvegar ekki sannar, á að draga mig fyrir lög og dóm. Í blöðum Sjálfstfl. hefir því oft verið haldið fram, að þessi maður hafi notað aðstöðu sína á þennan hátt, en hann hefir samt aldrei þorað að stefna þeim fyrir slík ummæli.