17.04.1936
Neðri deild: 50. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í C-deild Alþingistíðinda. (2592)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Mér þykir hv. þm. Vestm. heldur en ekki hafa tekið á við að andmæla því, sem ég sagði um frv., en það var bara sá gallinn á, að allt, sem hann sagði um málið, var alveg utan við efnið. Hér er ekki með þessu frv. verið að fara fram á fríðindi vegna útvegsmanna, því það dettur engum í hug, að útvegsmenn fái ekki gjaldeyri fyrir vörur til útgerðarinnar. En eins og ég tók fram við 2. umr., verða menn að gera það upp við sig, hvort heppilegra muni vera að veita útgerðarmönnum heimild til þess að nota nokkurn hluta síns gjaldeyris án þess að hann fari gegnum bankana. Það, sem vakti fyrir þeim, sem fluttu frv., var að reyna að komast hjá að þurfa að setja bankatryggingu. Ég hélt því fram í upphafi, að þetta gengi þannig, að gjaldeyrisnefnd veitti slíkt leyfi í hvert sinn, sem útvegsmenn vildu notfæra gjaldeyri sinn á þann hátt. En svo slakaði ég til og gekk inn á, að heimildin væri skilyrðislaus fyrir þrjár tegundir — olíu, kol og salt —, vegna þess að því var haldið fram, að það mundi vera vænlegra til árangurs. Og ég verð að segja, að ég bjóst við, að gegn þeirri lipurð, sem ég sýndi, yrði vinsamlega tekið þeirri till., sem ég flutti, þó ekki væri sérstaklega um það samið. En úr því að ekki kemur annað en fjandskapur við jafnmeinlausa till., sé ég enga ástæðu til þess að beygja út frá því, sem ég upphaflega hélt mig við, að gjaldeyrisnefnd veiti leyfið í hvert sinn, og mun því ekki hika við að koma þeirri breyt. fram í Ed., að frv. færist í það horf.

Þá sagði hv. þm., að við sýndum einkennilega tregðu í garð útvegsmanna í þessum málum. þar sem S. Í. S. fengi að ráða sínum gjaldeyri. En þetta er á misskilningi byggt. Hinsvegar hefir S. Í. S. fengið leyfi gjaldeyrisnefndar til þess að ráðstafa hluta af sínum gjaldeyri, en það leyfi hafa einnig fjöldamargir útvegsmenn fengið. Það leyfi er hægt að veita eftir l. eins og þau nú eru.

Ég hefi nú sýnt fram á að nýju, að hér er ekki um annað að ræða en hvernig hægt sé að komast hjá að hafa bankana milliliði milli útvegsmanna og erlendra viðskiptamanna, og að ég tel bezt að fara þá leið, að gjaldeyrisnefndin hafi heimild til þess að veita leyfi til ráðstöfunar á gjaldeyrinum í hvert sinn. Um þetta gerði ég svo vinsamlegt samkomulag við aðstandendur frv., en fæ svo frá þeim aðeins fjandskap í garð þeirrar till., sem ég flyt. Ég sé því enga ástæðu til að halda mig við það, en mun beita mér fyrir, að því verði breytt í Ed.

Ég vil taka það fram, að verði till. hv. þm. Vestm. samþ., um að bæta veiðarfærum við, þá tel ég það svo víðtækt og erfitt í framkvæmd, að ég treysti mér ekki til að vera með því, nema það sé tekið fram með berum orðum, að til slíkrar undanþágu þurfi heimild gjaldeyrisnefndar í hvert sinn. Sem sagt er ég ekki á móti því að létta undir með útvegsmönnum í þessum efnum, en ég vil, að hægt sé að sýna fram á, að þær ráðstafanir styðjist við beina heimild í gjaldeyrislögunum.

Hv. þm. Vestm. var að tala um till. mína um eftirlit með ferðamönnum, en ég sé ekki ástæðu til að fara að ræða um hana nú, þar sem hún var felld við 2. umr., þó hv. þm. væri að endurtaka það, sem hann sagði við 2. umr. Ég svaraði því þá, að ekki væri önnur meining með till. en sú, að hafa eftirlit með því, að gjaldeyrisins væri aflað á löglegan hátt. Allt annað, sem sagt er um till., er út í loftið, og gefur hún ekkert tilefni til slíks skrafs.