17.04.1936
Neðri deild: 50. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í C-deild Alþingistíðinda. (2595)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru aðeins örfá orð út af þeim ummælum hv. þm. Vestm., að hann sagðist ekki vita betur en S. Í. S. hefði algera sérstöðu um ráðstöfun á sínum gjaldeyri. Ég hefi ekki við hendina nákvæmar upplýsingar frá gjaldeyrisnefnd um, hvernig þetta er nú, en í fyrra var það þannig, að S. Í. S., sem í mörg ár hefir haft mikil viðskipti og lánstraust í Englandi, fékk leyfi til þess að láta hluta af sínum gjaldeyri renna til greiðslu á skuldum sínum þar. Hvort þetta er eins í ár, skal ég ekki um segja, en þannig var þetta í fyrra. Er þetta alveg sambærilegt við það, sem oft kemur fyrir, að útgerðarmaður kaupir hluti og fær leyfi til að greiða þá án þess að greiðslan fari í gegnum bankana. Ég hefi ekki hjá mér nöfn þeirra manna, sem þau leyfi hafa fengið, en þeir eru margir. Geta hv. þm. sjálfsagt fengið upplýsingar um þá, ef þeir óska, því þar er engu að leyna. Eins og ég sagði áðan, er heimilt með leyfi bankanna að veita þannig undanþágu um, að gjaldeyrir renni til greiðslu á áföllnum skuldbindingum. — Þetta er að vísu ekki sagt með beinum orðum í gjaldeyrislögunum, en leiðir af einkarétti bankanna til þess að verzla með gjaldeyrinn. Enda hefir það komið fyrir hjá fleirum en S. Í. S., að hluti af gjaldeyrinum hafi runnið til skuldagreiðslu, og þannig tekinn af andvirði framleiðslunnar. Þannig hefir það verið um skip, sem flutt hafa verið inn. Svo var ekki alls fyrir löngu um togara, sem fluttur var inn, að veitt var leyfi til þess að ráðstafa nokkrum hluta af gjaldeyrinum til greiðslu á andvirði skipsins. Þá segist hv. þm. ekki skilja, hvað mér sé illa við hans till., þó ég sé margbúinn að gefa þá skýringu, að ég telji ekki framkvæmanlegt að veita undanþágu fyrir jafnmargháttaðar vörur og veiðarfærin, sem fjöldi manna flytur inn. Ég efast um, að hv. þm. hafi kynnt sér, hvaða erfiðleikum það veldur, ef þannig á að fara með vörur, sem allir geta flutt inn, og yrði þá hver innflytjandi að senda um það aukaskilagrein til gjaldeyrisnefndar, og fylgja því svo mikil aukastörf, að slíkt má teljast illkleift, enda sé ég ekki ástæðu til þess, því hingað til hefir það ekki komið að skaða. Þó hv. þm. Vestm. haldi því fram, að það sé vegna gjaldeyrisþvingunar, að skortur hefir orðið á veiðarfærum, er það ekki rétt, heldur er það vegna þess, að sérstök slys hafa orðið á veiðarfærunum. Hitt dettur engum í hug, að hægt sé að komast hjá að leyfa innflutning á veiðarfærum, og þá vitanlega að greiða þau.