21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (2608)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta finnst mér nú kyndug ræða hjá hv. 6. þm. Reykv. Hann sagði, að það væri sönnun fyrir því, að innflutningshöftin væru sett fyrir S. Í. S., að þau hefðu nú staðið í 4 ár, og á þeim tíma hefði S. Í. S. aukið innflutning sinn um helming. Ég hefi nú ekki tölur fyrir mér um það, hvort þetta er rétt eða ekki, en ég ætla að gera ráð fyrir, að það sé rétt, þó það sé þessi hv. þm., sem segir það. (SK: Þetta er úr Tímanum). Þessi aukning á innflutningi S. Í. S. mun hafa verið á árunum 1932 til 1934, þegar innflutningshöft voru á sumum vörum, en ekki öðrum. Það er upplýst og má slá föstu, að innflutningsaukning Sambandsins liggur í þeim vörum, sem höftin voru ekki á. Sala hinna vörutegundanna, sem höft voru á, mun ekki hafa aukizt, heldur minnkað. Hin eðlilega þróun Sambandsins kemur þannig fram á þeim vörutegundum, sem innflutningur var frjáls á, og ef innflutningshöftin hefðu ekki verið, má gera ráð fyrir, að umsetningin á þeim vörum, sem höftunum var beitt á, hefði einnig tvöfaldazt. Taki maður aftur árið 1935, þegar höft voru komin á allar vörur, þá sjáum við, að innflutningur S. Í. S. hefir tekið afturkipp. Þetta sýnir, að ef höftin hefðu ekki verið, hefði S. Í. S. verið búið meira en að tvöfalda umsetningu sína síðan 1932. Við þá aukningu, sem orðið hefir á innflutningi þeirra vara, sem höftin voru ekki á, hefði bætzt tilsvarandi hækkun á innflutningi haftavaranna, sem hver maður veit, að hefir stórkostlega lækkað.

Þá sagði hv. þm., að það væri ekki sannað, að það væri ríkjandi skoðun hjá kaupsýslumönnum, að innflutningshöftunum væri réttlátlega beitt. Það er nú erfitt að sanna nokkuð í þessu efni. en það er sannað, að það er samkomulag milli verzlunarstéttarinnar og S. Í. S. fyrir fjóra fyrstu mánuði þessa árs, og það ætla ég, að beri vott um a. m. k. sæmilega ánægju hjá þeim, sem sömdu fyrir hönd þessarar stéttar, þó vera kunni, að ekki séu allir kaupmenn ánægðir. Ég veit vel, að eins og stendur finnst mörgum, bæði kaupmönnum og kaupfélagsstjórum, að innflutningurinn, sem þeir fá, sé of lítill, þó þeir geti ekki bent á með rökum, að þeir fái of lítið hlutfallslega við aðra.

Þá sagði hv. þm., að það stæði á samþykki mínu til þess að samkomuulag Verzlunarráðsins og Sambandsins kæmi til framkvæmda. Ég veit ekki, hvaðan hv. þm. hefir þetta. Það er enginn fótur fyrir því. Samkomulagið milli Verzlunarráðsins og Sambandsins hefir verið framkvæmt, ekki gegn mínum vilja, heldur með mínum vilja. Ef hv. þm. vill reyna að standa við orð sín, óska ég, að hann upplýsi, hvaðan hann hefir þetta. (SK: Það er úr skýrslu ….). Það er úr skýrslu, og það er úr skýrslu. Ég ætla, að hv. þm. blandi öllu saman. Það varð ekki samkomulag um að afnema, rétt kaupfélaganna til þess að fá innflutning miðaðan við meðlimafjölda, en þetta hefir ekki heldur verið framkvæmt. Það, sem samkomulag hefir orðið um milli Verzlunarráðsins og Sambandsins, hefir verið framkvæmt, ekki gegn mínum vilja, heldur með honum. Þetta verður því eins og annað, sem þessi hv. þm. kemur fram með, fleipur eitt, m. a. byggt á því, að hann þekkir ekki inn í þessi mál, svo að hann geti um þau talað. Hann hefir ekki fylgzt með í því, sem gerzt hefir nú upp á síðkastið. Það er auðheyrt á ræðu hans.