21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í C-deild Alþingistíðinda. (2609)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Pétur Halldórsson:

Herra forseti! Það eru örfá atriði, sem mig langar til að benda á. — Við þessa aðalreglu hæstv. fjmrh. um, að svokölluð neytendafélög, og þar með kaupfélögin, skuli hafa þau sérréttindi að fá hlutdeild í innflutningi nauðsynjuvara fólksins í hlutfalli við félagatölu sína, er það að athuga, að mikill hluti þeirra, eða líklega allir, sem eru í neytendafélögunum, bæði hér í Reykjavík og úti um land, hafa líka einhver viðskipti við kaupmenn. Það er örugg vissa, að ef kaupmenn fengju á sama hátt að telja fram sína viðskiptamenn, þá yrði útkoman allt önnur, því mikill hluti þeirra, sem í kaupfélögunum eru, kaupir líka mikið annarsstaðar. Það er því miklu betri grundvöllur að byggja á í þessu efni, að miða við innflutning síðustu ára; þá kemur til greina, hvernig viðskipti þessara manna dreifast milli kaupmanna og kaupfélaga, sem fer vitanlega eftir því, hvað þeim hefir fundizt sér hagkvæmast. Sé meðlimafjöldinn einn tekinn til greina, getur það leitt til þess, að þessi svokölluðu neytendafélög nái til sín mestum hluta innflutningsins. Hæstv. ráðh. segir, að ekki megi hindra eðlilega þróun kaupfélaganna. En má þá ekki eins segja, að ekki megi þvinga menn til þess að verzla við kaupfélögin. með þessum ósanngjörnu ráðstöfunum? Þessi aðferð hæstv. ráðh. verkar vitanlega í þá átt, að þvinga menn frá viðskiptum við kaupmenn og til kaupfélaga. Það er ástæðan til þess, að mjög mikill ótti er við það víðsvegar um land, fyrst og fremst á meðal kaupmanna og jafnvel einnig á meðal viðskiptamannanna, að nú virðist stefna hröðum fetum að því, að öll kaupmannaverzlun í landinu leggist niður. Það er grunur minn, að þessi ótti valdi einhverju um það, sem hæstv. fjmrh. talar svo mjög um, að samkomulagið fer batnandi milli Verzlunarráðsins, Sambandsins og ráðuneytisins um þessi mál. Ég get vel trúað, að hæstv. ráðh. hugsi nú til að gera mildari ákvæði um þetta en hingað til hafa gilt, og að samkomulag þessara aðilja, sem ráðh. hefir staðið að, sé spor í þá átt; að innflutningshömlunum hafi verið beitt harkalegar framan af, meðan hæstv. ráðh. og þeir, sem með honum ráða í meiri hluta, gerðu sér ekki ljóst, hvað varlega er farandi í sakirnar, að því verður ekki unað í landinu, að innflutningshömlurnar séu notaðar til þess að leggja alla kaupmannaverzlun í rústir með fljótum hætti og útiloka þannig alla samkeppni í verzlun. Það hlýtur vitanlega að koma að því, og ég vona, að komi að því nú þegar, að þessi skoðun ryðji sér til rúms, að taka verði upp þær aðferðir í þessu efni, sem láta báða málsparta lifa. Ég veit a. m. k., að það er mikill uggur í mönnum víðsvegar um land út af þessu, að það stefnir beinlínis í þá átt að gera kaupfélögin einvöld í landinu, og það óttast jafnvel kaupfélagsmennirnir sjálfir. Það er ekki gott til þess að vita, að ríkisstj. hefir svo mikil áhrif á þessi mál nú á síðustu tímum, að henni er í lófa lagið að gera þær ráðstafanir undir öðru yfirskini, sem e. t. v. geta valdið því, að sem sagt öll innflutningsverzlun landsins komist í hendur þessa eina aðilja. Þess vegna er það heldur ískyggilegt, að hæstv. ráðh. hefir tekið þannig í þau ummæli, sem hér hafa fallið og e. t. v. eru nokkuð hörð, eins og gerist, að því er mér hefir fundizt nær eingöngu sem málsvari þeirrar stefnu, sem vill leggja alla kaupmannaverzlun í landinu í rústir. Til þess að vera ekki of harðorður vil ég ekki segja, að kaupfélögin og S. Í. S. vilji beinlínis leggja alla kaupmannaverzlun í rústir, en það er a. m. k. komið inn á þá braut, að með góðri aðstoð ríkisvaldsins getur þetta átt sér stað.

Þó ég tali ekki um það sem stórt atriði í þessu sambandi, vil ég benda á, að hér í Reykjavík stendur svo sérstaklega á um þetta, að yfir vofir ákaflega mikil hætta, ef þessari reglu hæstv. ráðh. er beitt mjög harkalega. Það vofir yfir beint hrun í allri kaupmannaverzlun bæjarins. og ekki trúi ég öðru en að margir, sem ekki vilja annars beint halda fram hagsmunum kaupmannastéttarinnar, geti séð, að ef þetta færi svo, hefði það miklar breyt. í för með sér fyrir afkomu manna yfirleitt í þessu bæjarfélagi og væri mjög varhugavert.

Hitt atriðið, sem mig langar til að benda á, er það, að eftir því, sem hæstv. fjmrh. hefir upplýst og áður var vitað, hefir S. Í. S. nú um skeið haft umráð yfir sínum erlenda gjaldeyri og getur, að því er menn halda, notað hann til þess að kaupa inn vörur. Nú minnist ég þess, að ég las oft með mikilli hneykslun hér á árunum í blaði hæstv. ráðh., Tímanum, að það var verið eins og að hælast um yfir því, að S. Í. S. hjálpaði bönkunum stórlega um erlendan gjaldeyri og ynni þannig þeim og landinu í heild mikið gagn sem fjáröflunarfyrirtæki. Ef S. Í. S. er nú. eflir að innflutningshömlurnar komu til sögunnar, hætt þessari hjálparstarfsemi, lætur ekki bönkunum lengur í té erlendan gjaldeyri, heldur fær leyfi til að flytja inn varning fyrir hann, sem allir vita, að mikil þörf er fyrir, þá sjá allir, að það eru strax mikil forréttindi fyrir þessa stofnun.

Hæstv. ráðh. orðaði þetta svo, að S. Í. S. hefði fengið leyfi gjaldeyrisnefndar „og bankanna“ til þess að nota sína erlendu mynt. Nú grunar mig, að hér sé rangt með farið. Ég skil ekki, að bankarnir hafi önnur áhrif á þetta en í gegnum gjaldeyrisnefnd, en þar hafa þeir sína fulltrúa, þannig að ekki er rétt að tala um ráðstöfun gjaldeyrisnefnda og bankanna í þessu sambandi. Bankarnir munu ekki hafa sérstaka hliðstæða ábyrgð með gjaldeyrisnefnd í þessu efni, heldur er hún ein um það, að sjálfsögðu með samþykki ráðuneytisins, hafi þess verið leitað, að gera þessa ráðstöfun.

Þá lýsti hæstv. ráðh. því mjög, að það væri nú ekki gaman að tryggja það, að alltaf væri til gjaldeyrir til þess að mæta gjaldeyrisleyfunum, þegar þau kæmu í gildi. Hann orðaði þetta svo, að ómögulegt væri að vita fyrir, hvernig framleiðsluvörurnar seldust og greiddust, og því mætti ekki gera þá kröfu, að gjaldeyrir væri alltaf til, þegar menn kæmu með ávísanir gjaldeyrisnefndar í bankana. Þetta finnst mér ekki fullnægjandi svar hjá hæstv. ráðh., því allar þessar hömlur eru einmitt settar á í því skyni að upphefja þetta ástand, sem áður var, að ekki var hægt að vita, hvernig mundi reiða af að hafa alltaf gjaldeyri til, þegar hans var krafizt. Það er í rauninni ekkert svar, því það segir ekki annað en það, að þessar ráðstafanir hafa ekki náð tilgangi sínum. Þær voru einmitt settar í þeim tilgangi, að ekki þyrfti að svara á þann hátt, sem hæstv. ráðh. gerir nú, að ómögulegt sé að vita, hvernig framleiðsluvörur landsmanna seljast og greiðast, og því sé ekki alltaf hægt að hafa til gjaldeyri. Ég segi þetta ekki vegna þess, að okkur sé ekki öllum vitanlegt, að ýmsir viðburðir hafa skeð á síðustu tímum, sem ekki voru fyrirsjáanlegir, og ég skal ekki deila um, hvað mikið af þeim er stjórnarvöldunum að kenna, þó grunur minn sé, að ýmsir af örðugleikunum séu vegna þeirrar stefnu, sem haldið er uppi í þjóðmálum yfirleitt. En tilgangurinn með öllum innflutningshömlunum og gjaldeyrisráðstöfunum var sá, að menn þyrftu ekki að koma í bankana með gjaldeyrisleyfi og fá það svar, að gjaldeyrir væri ekki til. Með þeim aðgerðum, sem ríkisvaldið tók sér rétt til að gera, átti að sjá svo um, að gjaldeyrinum, sem til fellur, væri þannig ráðstafað, að alltaf væri hægt að mæta þeim heimildum, sem gefnar eru til kaupa á erlendum gjaldeyri. Það er vissulega við þetta fyrirkomulag unað, fyrst og fremst vegna, þess, að með því átti að koma í veg fyrir, að traustið á verzlunarfyrirtækjum landsmanna, sem er dýrmætasta eigna þeirra, er við viðskipti fást, þyrfti að bila. Eftir orðum hæstv. ráðh. tekst ekki að varna því ástandi, sem allar þessar miklu og dýru, sáru og erfiðu ráðstafanir áttu að varna.

Ég fagna því, sem hæstv. ráðh. sagði, að því leyti sem það er samkomulag milli forsvarsmanna kaupmannastéttarinnar og kaupfélaganna um þau skipti á innflutningnum, sem ráðuneytið mun hafa staðið fyrir. Ég er og hefi alltaf verið sannfærður um, að það mundi koma að því, að óhjákvæmilegt yrði að finna einhverskonar samkomulag um þetta, til þess að tryggja, að ekki sé gengið svo á rétt annars aðiljans, sem hér á hlut að máli, að hann geti ekki við unað. Mér þykir og vænt um það góða orð, sem hæstv. ráðh. ber fulltrúum hinnar íslenzku kaupmannastéttar, þar sem hann segir, að aldrei hafi borið út af góðri samvinnu við þá, og að þeir séu sanngjarnir og vilji vel í þessu efni. Ég er sannfærður um, að þetta eru reynsluvísindi hans, að hann hefir ekki fyrirfram gert ráð fyrir, að kaupamannastéttin yrði sanngjörn og féllist á það samkomulag í þessu máli, sem hann getur talið sanngjarnt. En hitt ber líka að athuga, að samkomulag getur oft kallazt, þó það sé gert með nauðung af hendi einhvers aðiljans, og að svo miklu leyti sem það getur átt við í þessu tilfelli, þá getur öll krítík hv.6. þm. Reykv. verið réttmæt. Og hæstv. ráðh. má ekki segja, að sú krítík, sem hér hefir verið sett fram, og er satt að segja á allra vörum og hefir sennilega orðið til þess að leitað hefir verið samkomulags um aðalatriði þessa máls, hún sé í ósamræmi við vilja og skoðanir verzlunarstéttarinnar í landinu, því það er hún áreiðanlega ekki, hvað sem segja má um líkur til samkomulags í framtíðinni. Hæstv. ráðh. svaraði því m. a. til, að þessi hv. þm. vissi ekki, hvað gerzt hefði í þessum málum upp á síðkastið, sem mér virtist eiga að þýða það, að það væri að þokast meira og meira til samkomulags og samstarfs í þessum efnum, sem væri byggt á sanngjörnu tilliti til beggja aðilja. Og að svo miklu leyti sem sú krítík, sem hér hefir komið fram, er byggð á því, að þetta er ekki á allra vitorði ennþá, hvað langt er komið í þessu efni, þá er hún náttúrlega, eins og hæstv. ráðh. kallaði það, framsett nú af vanþekkingu á því, sem gerzt hefir á allra síðustu tímum. Ég má þó fullyrða, að svo langt sé komið, að um allt land ríkir megn óánægja, a. m. k. til skamms tíma, um að innflutningshöftin eru notuð á ranglátan hátt gagnvart kaupmannastéttinni. Ég veit, að allir hv. þm. eru sammála um, að æskilegt væri, að þetta álit hyrfi sem fyrst, því vissulega ríkir nú slíkt óreiðuástand í landinu um þessi mál, að alls ekki er viðunandi.