21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í C-deild Alþingistíðinda. (2618)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Frsm. (Ólafur Thors):

Ég hefi ekki lengt mikið þessar umr. og ætla ekki að gera á þessu stigi málsins. — Það er byggt á misskilningi hjá hæstv. ráðh. og hv. 5. þm. Reykv., þegar þeir eru að tala um, að þetta frv. sé óþarft, vegna þess að eftir núgildandi lögum sé hægt að gefa slíka undanþágu eins og S. Í. S. hefir verið gefin. Ég dreg mjög í efa, að það sé hægt samkv. l. að gefa slíka undanþágu, og jafnvel þó það kunni að vera hægt, felur sú staðreynd ekki í sér. eða af henni leiðir ekki endilega, að þetta frv. sé óþarft, því að það er — eins og hv. 5. þm. Reykv. gat um — engin trygging fyrir því, að þessi undanþága verði veitt almennt, eða því verði ekki misbeitt, eins og verið hefir. Það er engin trygging, þó ráðuneytið hafi stuðlað að því við bankana og innflutningsnefnd, að S. Í. S. fengi slíka ívilnun. (Fjmrh.: Ráðuneytið hefir engin afskipti haft af því). Trúi því nú hver, sem vill, en illa skilur þá form. innflutningsnefndar sitt hlutverk, ef hann hefir veitt stærsta útflytjandanum slík hlunnindi án þess að bera það undir ráðh. — En hvort þessi lög séu þörf eða óþörf, geta menn dæmt um eftir ummælum hæstv. ráðh. Hér er ekki farið fram á annað en að útvegsmenn, sem standa undir mestum hluta gjaldeyris þess, sem aflað er, fái að ráða yfir nokkrum hluta hans til kaupa á þeim vörum, sem þarf nauðsynlega, ef halda á áfram að afla gjaldeyris, þ. e. a. s. kolum, salti, olíu og veiðarfærum. Mér skilst, að það hafi komið í ljós undir umr., að S. Í. S. hafi fengið umráð yfir öllum sínum gjaldeyri. Nú stendur hæstv. ráðh. upp og segir, að S. Í. S. hafi fengið þessa undanþágu af því að það hafi haft lánstraust erlendis. Ég þekki líka annað félag, sem hafði lánstraust erlendis frá hálfri og allt að heilli milljón, þ. e. hlutafél. Kveldúlfur, og þetta lán var borgað upp árlega, en nú hefir tekið fyrir þetta, af því að ekki fékkst trygging fyrir yfirfærslu né undanþága. (Fjmrh.: Hefir Kveldúlfur farið fram á að fá undanþágu?). Já. Mér þætti vænt um það, ef hæstv. ráðh. vildi hafa áhrif á innflutningsnefnd og mæla með beiðni ekki aðeins þessa fyrirtækis, heldur og annara útvegsmanna. Það liggur því hér fyrir skýlaus yfirlýsing, að fríðindi þessi hafi verið misjafnlega útfærð, eða m. ö. o., svo mjög gildir tvennskonar réttur hér í landi, að þeim aðilja, sem stendur undir öflun meiri hluta gjaldeyrisins, er synjað um allt, honum er neitað um gjaldeyri fyrir kolum, salti, olíu og veiðarfærum, en S. Í. S. hefir fengið að verja sínum gjaldeyri eftir geðþótta. Dómur reynslunnar hefir því sýnt, að það er nauðsynlegt að samþ. þetta frv. Annarsvegar er félag, sem flytur út og selur afurðir bændanna og fær leyfi til ráðstöfunar þess gjaldeyris fyrir þeirra notaþörfum, en hinsvegar eru útvegsmenn, sem fá ekki slíkan ráðstöfunarrétt gjaldeyris síns til kaupa á sínum nauðsynjum, og það þó að — eins og hæstv. ráðh. heldur fram — sé í gildandi lögum heimild til að veita þeim jafnvíðtæk hlunnindi og S. Í. S. hefir fengið. Ég skal ekki dæma, hvort svo er; ég hefi ekki rannsakað lögin nægilega til þess. En það er skylda hæstv. ráðh., sem hefir verið svo gjöfull við S. Í. S., að veita jafnréttháum aðiljum samskonar fríðindi.

Hæstv. fjmrh. sagði, að fjöldi útvegsmanna nyti samskonar réttinda og S. Í. S. Ég vildi þá, að hæstv. ráðh. segði okkur eitthvað af því, hverjir útvegsmenn þetta eru. Úr því að þeir eru fjöldamargir, þá ætti hæstv. ráðh. að geta nefnt tvo eða þrjá.