21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í C-deild Alþingistíðinda. (2622)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Frsm. (Ólafur Thors):

Hæstv. ráðh. segist ekki hika við að fullyrða, að til séu nákvæmlega hliðstæð dæmi mjög mörg eins og á sér stað um réttindi S. Í. S. til að nota sinn erlenda gjaldeyri. Nú skilst mér það hafa verið upplýst undir umr., að S. Í. S. hafi frjálsan ráðstöfunarrétt til að ráðstafa öllum sínum gjaldeyri. Það hefir verið skýrt játað, að S. Í. S. hefir fengið að nota þann gjaldeyri, sem það fær fyrir sínar útflutningsvörur, til þess að tryggja sitt lánstraust erlendis og til kaupa á erlendum vörum.

Ég bið hæstv. ráðh. ekki að nefna öll dæmi um að menn eða aðrir aðiljar hafi fengið frjálsan ráðstöfunarrétt yfir sínum gjaldeyri á sama hátt og S. Í. S., heldur bið ég hæstv. ráðh. að nefna aðeins einn mann eða aðilja, sem hefir fengið slík réttindi. Ef hann ekki gerir það, þá vil ég, að hann haldi áfram að leita sér skjóls í því sama vígi, sem mér skildist hann vilja renna inn í í sinni síðustu ræðu, þar sem hann sagði, að hann ætlaði ekki að láta mig segja sér fyrir um það, hvenær hann svaraði fyrirspurnum hér á Alþingi. (Fjmrh.: Sagði ég það? Ég sagðist ekki láta þennan hv. þm. segja mér fyrir um það, hvenær ég svaraði, þegar á mig væri ráðizt). Hæstv. ráðh. sagðist ekki láta mig segja sér fyrir um það, hvenær hann svaraði því, sem til sín væri beint. Þar á meðal vitanlega því, sem hann er að spurður í þingræðu. Ef hann hefir sagt þetta í ógáti, þá er það að því leyti hliðstætt mörgu af því, sem hann var nú að segja, að það á sér engan stað í raunveruleikanum.

Ég skal fullvissa hæstv. fjmrh. um það, að útvegsmenn almennt telja þetta mál mikið hagsmunamál fyrir sig. Ég hefi átt tal við nægilega marga útvegsmenn til þess að vita, að þeir telja þetta mál stórt hagsmunamál fyrir sig.