21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í C-deild Alþingistíðinda. (2624)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Frsm. (Ólafur Thors):

Ég veit, að hæstv. ráðh. skilur muninn á þessu tvennu, hvort um er að ræða heimild til handa nefnd til að veita útvegsmönnum þessi umræddu leyfi, eða hvort útvegsmönnum er sjálfum fenginn þessi réttur í hendur. Þetta er kjarninn í öllu málinu, hvernig löggjöfin er höfð um þetta efni.

Ég staðhæfi, að ekki er einn einasti einstaklingur eða félag á landinu, sem notið hefir samskonar réttinda um meðferð gjaldeyris síns nú upp á síðkastið eins og S. Í. S. Ég skora á hæstv. fjmrh., ef hann getur, þegar frv. verður til 1. umr. í Ed., að benda á einn — ég fer ekki fram á, að hann bendi á marga, heldur einn einasta aðilja, sem sama rétt hefir nú undanfarið haft um meðferð síns gjaldeyris eins og S. Í. S.