02.05.1936
Efri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (2631)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Frsm. 1. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Eins og hv. dm. hafa séð, hefir n. klofnað í þessu máli í eins marga hluta og hægt var — jafnmarga og mennirnir eru, sem n. skipa. Liggja því fyrir þrjú nál. frá þessum mönnum.

Ég get ekki fallizt á, að rétt sé að setja löggjöf eins og ræðir um í frv. á þskj. 413. Það eru margar röksemdir, sem ég hefi á móti því. Það er þá fyrst sú, að þetta mundi að einhverju leyti gera ótraustara eftirlit með gjaldeyrisverzluninni af hálfu bankanna heldur en nú er. Það mundi í mörgum tilfellum gera bönkunum ókleift að gera ráðstafanir um erlendan gjaldeyri, vegna þess, að þegar fiskfarmarnir væru seldir, gætu útgerðarmenn komið og sagt: Nú hefi ég ráð á gjaldeyrinum fyrir minn fisk til þess að greiða með kol, olíu, salt og veiðarfæri til útgerðarinnar. — Með þessu móti væru bankarnir í stöðugri óvissu um það, hverju af þessum gjaldeyri þeir gætu ráðið yfir til þess að greiða með sínar skuldir og annara, eða nauðsynjavörur handa öðrum en þeim, sem eiga rétt til þess að ráðstafa sínum gjaldeyri.

Nú er það í sjálfu sér engu ónauðsynlegra að geta flutt inn matvörur og fóðurvörur, þegar skortur er í mörgum héruðum, eins og t. d. í vetur. Þá er engu minni nauðsyn að eiga ráð á gjaldeyri til þess að kaupa þær vörur heldur en vörur til útgerðarinnar. Ef útgerðarmenn fá heimild til þess að ráðstafa þessum erlenda gjaldeyri, þá tel ég framið ranglæti gagnvart þeim, sem ekki eru beint útgerðarmenn, en þurfa samt sem áður á þessum nauðsynjavörum að halda.

Þó að svo sé, að meginið af erlenda gjaldeyrinum komi fyrir fiskinn, þá er hann almenningseign eða sameiginlegur. Gjaldeyririnn verður að ganga til þess að kaupa almennar nauðsynja- og framleiðsluvörur handa öllum. Það verður því bezt gert með því að bankarnir miðli til þessara manna eftir því sem hægt er og gjaldeyrir leggst til. Svo er á það að líta, að bankarnir verða að taka lán erlendis, sem verður að endurgreiða. Þessi lán nota þeir að nokkru leyti til kaupa á útgerðarvörum og til rekstrar útgerðar útvegsmannanna að nokkru leyti. Þetta þurfa bankarnir að endurgreiða á vissum tímum, og þegar svo mikil óvissa ríkir um, hvað þeir hafa yfirleitt af þeim gjaldeyri, sem fæst fyrir útfluttar vörur, þá eiga þeir erfitt með að gera sínar ráðstafanir. Svo er það í öðru lagi, að í raun og veru hefir ákaflega mikið af kolum og salti undanfarið verið flutt inn til landsins á þann hátt, að bankarnir hafa gengið í ábyrgð fyrir andvirði þess. Eftir að fór að þrengja að útgerðarmönnum áttu þeir margir hverjir mjög erfitt með að útvega sér þessar vörur, nema því aðeins, að fyrir lægi ábyrgð bankanna um greiðslu á þeim. Einnig hafa innflytjendur að þessum vörum, sem selja hinum smærri útgerðarmönnum, — því að útgerðamenn eru ekki allir útflytjendur að sínum vörum, — í mörg ár þurft að verzla í stórum stíl og fá til þess erlend lán með bankaábyrgð.

Þó að ég játi, að miklir erfiðleikar þrengi að útgerðarmönnum nú á síðustu árum og að þeim hafi gengið erfiðlega að fá lán út á sínar vörur erlendis, þá er ég alls ekki viss um, að slík ákvæði, sem eru í þessu frv., kæmu að því haldi, sem þyrfti að vera, þannig, að þeir gætu sjálfir flutt inn þessar vörur gegn því loforði að greiða þær með erlendum gjaldeyri. Svo er sannleikurinn sá, að það eru ekki æðimargir útgerðarmenn, sem geta leyst inn erlend lán, þegar þau falla til, þó að þeir eigi vörur fyrir þeim. Þeir hafa ekki margir hverjir til íslenzkar krónur til þess að borga fyrir erlenda gjaldeyrinn. Bankarnir verða að hafa afskipti af þessu. Þeir hafa íslenzkar krónur til þess að borga með.

Þetta hefir verið borið saman við það, að S. Í. S. hafi fengið forréttindi um not á þeim gjaldeyri, sem það hefir fengið fyrir útflutningsvörur sínar. En það er að því að gæta, að S. Í. S. hefir tekizt að fá bankalán erlendis. Ég ætla, að það muni fá lánin fyrri hluta árs, og endurgreiði þau svo með andvirði útfluttra afurða seinni hluta árs. þetta er í miklu stærri stíl hjá S. Í. S. heldur en hjá öllum öðrum útflytjendum, en í raun og veru hafa allmargir kaupmenn í landinu fengið samskonar leyfi, en það hefir verið í miklu smærri stíl. Það hefir verið sama eðlis, þannig að kaupmenn, sem verzla í reikning við einhvern sérstakan danskan kaupmann, eða hafa gömul sambönd við þá, þeir fá vörur sínar fyrri part árs og skulda þær síðan þangað til að haustinu, er þeir flytja út íslenzkar afurðir, svo sem ull, selskinn, æðardún og ýmislegt, sem til fellur. Með því borga þeir sínar skuldir, og er þetta nákvæmlega sambærilegt við það, sem er hjá S. Í. S. Þetta hefir innflutnings- og gjaldeyrisnefndin þráfaldlega leyft.

Sé því einhver útgerðarmaður svo vel stæður, að hann geti útvegað sér bankalán erlendis og selt það í bönkum hér, sem lána þeim fjármagn til rekstrarins, þá sé ég ekki annað en að með núv. reglu mundi innflutnings- og gjaldeyrisn. leyfa slíkar ráðstafanir á gjaldeyri fyrir útfluttar vörur.

Þá skal ég taka þriðja dæmið og sýna, að mönnum er leyft að ráðstafa sínum gjaldeyri. Fjölda síldarútvegsmanna er leyft að fá lán erlendis, vörur og jafnvel peninga, og borga það síðan með útflutningi sínum. Ég hefi heyrt það haft eftir hæstv. fjmrh., en ég hefi ekki heyrt hann segja það sjálfan, að hann hefði játað, að Sambandið þyrfti ekki að gefa slíka skýrslu. Þetta er mesti misskilningur. Það eru ekki nema örfáir dagar síðan ég las skýrslu frá Sambandinu um það, hvernig það hefði ráðstafað sínum erlenda gjaldeyri, sem þeir gerðu í samráði við viðskiptabanka sinn, Landsbankann. Og samskonar skýrslu heimtar gjaldeyrisnefnd af smákaupmönnum úti um land. Ég sé ekki betur en að gjaldeyrisnefnd geti raunverulega veitt allt það, sem þetta frv. fer fram á. Það eina, sem þá mundi verða gert, er það, að bankarnir tiltækju gjalddagann, en það mundu þeir gera með tilliti til þess, hvenær þeir álítu hentugast að borga vöruna. Ef aftur á móti hver útgerðarmaður ætti að geta ráðið þeim gjalddaga, sem þeir borguðu sínar vörur á, þá mundi það geta komið sér illa fyrir bankana. Það er því till. mín út frá þeim forsendum, sem ég hefi haft um þetta, að þessu máli sé vísað til ríkisstjórnarinnar. Og ég tel, að þó að þetta frv. yrði samþ., þá mundi engin breyt. verða á núv. ástandi, en að það gæti hinsvegar ruglað talsvert.