07.05.1936
Efri deild: 67. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í C-deild Alþingistíðinda. (2637)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Frsm. 2. minni hl. (Magnús Jónsson):

Eins og þetta stutta nál. mitt sýnir, þá legg ég til, að þetta frv. verði samþ. í þeirri mynd, sem það kom frá hv. Nd. Það hefir, eins og sjá má af samanburði þingskjalanna, tekið nokkrum breytingum, og einkum þannig, að það eru meira takmörkuð þau frjálsu not, sem útgerðarmenn eiga að hafa af þeim gjaldeyri, sem þeir fá fyrir útflutningsvöru sína. Í stað þess að upphaflega var það þannig orðað í frv., að þeir hefðu þennan gjaldeyri frjálsan til greiðslu á vörum til útgerðar sinnar, þá er það nú takmarkað við kol, olíu, salt og veiðarfæri, þó því aðeins, að þeir séu sjálfir innflytjendur að þessum vörum.

Tilefni til þessa frv. er náttúrlega það, að margir, eða ýmsir a. m. k. af þessum útgerðarmönnum hafa nokkurt lánstraust ytra, og það er enginn vafi á því, að slík öflun lána af hendi Íslendinga er heppileg eins og komið er högum okkar banka, að þeir eiga erfitt með að afla sér lána erlendis. En það er alkunnugt, að erlendir lánardrottnar setja það skilyrði, að sá, sem lán tekur, sæti ekki neinum hindrunum af hálfu stjórnarvaldanna, sem geri það að verkum, að hann geti ekki greitt lánardrottni sínum á réttum tíma. Nú er það, að það út af fyrir sig, að leyfi nefndar þarf til þess að geta fengið gjaldeyri til greiðslu, er nóg til þess, að erlendir lánardrottnar geta alls ekki gengið að því. Og það, að þeir, sem gjaldeyrisins afla, verða að skila honum og sækja um hann aftur til þess að greiða skuldbindingar sínar, er nóg til þess, að þeir geta ekki haldið lánstrausti sínu erlendis. Þetta hefir leitt til þess, að þeir erlendu lánardrottnar, sem ekki hafa viljað draga alveg að sér hendina með lánveitingar, hafa heimtað bankatryggingu. Á þessu eru þó augljósir gallar; bæði er það, að náttúrlega eru ekki bankatryggingarnar öruggar. Því aðeins eru þær öruggar, að bankarnir hafi í raun og veru fé fyrir hendi, en trygging er það í sjálfu sér, að bankarnir geta ráðstafað gjaldeyrinum á þeim tíma, sem um hefir verið samið. En bankarnir eru tregir til þess að veita þessar tryggingar, og bankatryggingarnar eru kannske einhver varasamasta starfsgrein bankanna, sem til er, af því að bankarnir geta svo að segja óendanlega ábyrgzt, en beinar lánveitingar eru takmarkaðar af handbæru fé. Bankarnir geta því alveg farið með sig á þessum tryggingum, og þetta verður til þess, að bankar, sem vel er stjórnað, eru mjög íhaldssamir að taka að sér slíkar tryggingar. — Til þess að koma í veg fyrir þetta, þarf ekki annað en að gefa þeim, sem þarna eiga hlut að máli, kost á því að hafa nokkurn gjaldeyri frjálsan til þess að kaupa fyrir sínar nauðsynjar.

Til þess að ekkert rekist á verður að takmarka þetta mjög mikið, og mér virðist, eins og frv. er nú orðað, þar sem til eru teknar aðeins örfáar vörutegundir — brýnustu nauðsynjar útgerðarinnar —, að þetta geti ekki komið sér illa fyrir hinar almennu gjaldeyrisráðstafanir, þegar útgerðarmenn eru jafnframt skyldaðir til þess að tilkynna innflutnings- og gjaldeyrisnefnd, hvað mikið fé þeir vilja hafa af sínum gjaldeyri. Það er líka á það að líta, að þessar vörur eru ekki aðeins nauðsynlegar til útgerðarinnar, heldur veltur afarmikið á því, við hvaða verði vörurnar eru keyptar. Og það er enginn vafi á því, — a. m. k. má gera ráð fyrir því — að yfirleitt geti útgerðarmenn fengið þessar vörur með vægara verði, ef þeir hafa sjálfir gjaldeyri til þess að greiða þær á þeim tíma, sem seljendurnir sérstaklega óska eftir. Það er engin von til þess, að sá, sem selur slíkar vörur, geti selt þær sama verði upp á gjaldeyrisleyfi, sem kannske er bundið þeim skilyrðum, að gjaldeyrir sé þá fyrir hendi, og þegar aðeins er um kunnugan og gamlan viðskiptamann að ræða, sem greiðir þessa skuld á fyrsta gjalddaga, sem þeir hafa komið sér saman um í upphafi. Það getur því haft mikið að segja, að útgerðarmenn hafi gjaldeyrinn frjálsan og geti þannig sætt beztu kjörum.

Það má náttúrlega segja eins og hv. frsm. 1. minni hl. sagði, að innflutnings- og gjaldeyrisnefnd mundi að sjálfsögðu jafnan greiða fyrir þessum viðskiptum eins og hægt er. Ég veit ekki, hvaða reglur innflutnings- og gjaldeyrisnefndin hefir haft með leyfi á gjaldeyri til þess að kaupa fyrir vörur til útgerðarinnar. Þar eru einna stórfelldastar tilraunir til þess að ná í erlendan gjaldeyri. Nefndin verður því að miðla þeim gjaldeyri, sem fyrir hendi er til þessara hluta. En ef hér er nú raunverulega um ríka þörf að ræða, — er þá ekki réttara að miðla þessum gjaldeyri til útgerðarmanna, svo að þeir geti fengið vörurnar með sem beztum kjörum? En beztu kjör geta þeir ekki fengið, nema þeir hafi gjaldeyrinn alveg frjálsan.

Ég held, að hv. frsm. 1. minni hl. hafi flutt langa ræðu við fyrri hluta þessarar umr., og ég skrifaði nokkuð upp úr ræðu hans, en ég vil ekki tefja tímann með því að svara því frekar.

Þetta er aðalástæðan til þess, að ég vil fylgja frv. óbreyttu, en ekki með breytingum 3. minni hl. Ég mun ekki víkja að þeim brtt., fyrr en talað hefir verið fyrir þeim. En mér finnst hér skotið inn i, „formelt“ a. m. k., opinberum aðilja meðal viðskiptamannanna, sem vel getur haft þau áhrif á lánardrottin, að hann kippi að sér hendinni um viðskipti eða veiti a. m. k. óhagstæðari kjör en ella.