07.05.1936
Efri deild: 67. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í C-deild Alþingistíðinda. (2639)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Frsm. 2. minni hl. (Magnús Jónsson):

Um brtt. hv. 3. minni hl. er það að segja, að þær geru að mínu áliti frv. alveg ónýtt, ef þær verða samþ. Breytingin verður þá í raun og veru engin frá því, sem er, því að hingað til hafa einstök fyrirtæki, S. Í. S. og fleiri, fengið umráð yfir gjaldeyri sínum í einstökum tilfellum, eins og komið hefir fram í blaðaskrifum og víðar. En það, sem hinn erlendi lánardrottinn krefst, er það, að sá, er tekur lán, hafi frjáls umráð yfir gjaldeyri sínum á hverjum tíma og geti sýnt það. Þó að útgerðarmaður, sem stofnar skuld við erlendan lánardrottin, hafi frjálsan gjaldeyri, þegar skuldin er stofnuð, hugsar hinn erlendi lánardrottinn sem svo: Hvaða tryggingu hefi ég fyrir því, að hann hafi nokkurn erlendan gjaldeyri eftir ár, ef hann verður þá ekki búinn að borga skuldina? — Breytingin, sem lögð er til í b-lið, er gersamlega óframkvæmanleg. Menn geta t. d. farið með örfáar krónur eða alveg blankir til Kaupmannahafnar, án þess að nokkuð sé við því að segja, því að ekki er hægt að banna mönnum með lögum að njóta aðstoðar vina og kunningja erlendis. Menn geta á allan mögulegan hátt sloppið við að upplýsa, hvernig þeir fái gjaldeyri sinn. Bæði er það, að hér er ekki um miklar upphæðir að ræða og auk þess svo erfitt yfirleitt fyrir fólk að ná sér í gjaldeyri á „ólöglegan“ hátt til siglinga, að ég held, að þetta skipti ekki miklu máli, enda fullkomið eftirlit ómögulegt.