04.04.1936
Neðri deild: 42. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

2. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Hannes Jónsson:

Ég bar fram brtt. um það í byrjun þessarar umr., að felldur yrði niður l5. liður frv. Það hefir nú komið í ljós, að n. muni ekki vilja fylgja þeirri brtt. En ég tel þó óhjákvæmilegt, að bætt verði um það, sem hér er lagt til.

Nú er gengið svo frá, að móti 2‰ af fasteignagjaldi frá héruðunum kemur ekkert frá ríkissjóði, móti 3‰ kemur 1‰ frá ríkissjóði, móti 4‰ kemur 3‰, móti 5‰ kemur 4‰ og móti 6‰ kemur 6‰. Fyrst þegar álagning á fasteignir er komin upp í 6 af þúsundi í héruðunum, verður tillag ríkissjóðs jafnhátt. En til þess að leggja á hærra gjald en 6‰ þurfa héruðin stjórnarleyfi. Héruðin hafa að vísu fengið þetta leyfi, en hlutföllin hafa ekki orðið hækkandi til hagsbóta fyrir héruðin, því að aldrei hefir verið greitt meira á móti úr ríkissjóði en jafnhá upphæð, að einu dæmi undanskildu.

Eftir plöggum frá vegamálastjóra, sem nefndin hefir byggt á nú og byggði á í fyrra, má ríkissjóður aldrei greiða tillag á móti meira en 5‰ frá héruðunum. Ef héruðin vilja leggja meira á sig, fá þau ekki neitt í viðbót. Ef athugað er framlag til sýsluvega undanfarin ár, sést, hve geysileg skerðing á vegafénu þetta er í sumum héruðum.

Hér er að vísu ekki um að ræða nema 5 sýslur á landinu, sem hafa komizt í hámarkið eða þar yfir, sem sé Vestur-Húnavatnssýslu, Austur-Húnavatnssýslu, Skagafjarðarsýslu, Eyjafjarðarsýslu og Suður-Þingeyjarsýslu. Að meðaltali mundi þetta framlag minnka í Vestur-Húnavatnssýslu um kr. 4100,00, Austur-Húnavatnssýslu kr. 3400,00, Skagafjarðarsýslu kr. 7000,00. Eyjafjarðarsýslu kr. 8000,00 og Suður-Þingeyjarsýslu kr. 5200,00. Og ef héruðin ættu ekki að leggja á sig meiri byrðar heldur en þær, sem þau fengju greiðslu á móti frá ríkissjóði, sem náttúrlega má búast við, að þau verði treg til, nema í brýnustu nauðsyn, þá mundi lækka framlag héraðanna þannig: í Vestur-Húnavatnssýslu kr. 2600,00, Austur-Húnavatnssýslu kr. 1600,00, Skagafjarðarsýslu kr. 4000,00, Eyjafjarðarsýslu kr. 8700,00 og Suður-Þingeyjarsýslu kr. 2500,00. Þetta mundi því hafa í för með sér minnkun á greiðslu til vegalagninga í Vestur-Húnavatnssýslu kr. 6700,00, Austur-Húnavatnssýslu kr. 5000,00, Skagafjarðarsýslu kr. 11000,00, Eyjafjarðarsýslu kr. 16700,00 og Suður-Þingeyjarsýslu kr. 7700,00, eða samtals um kr. 47100,00. Nú getur engum blandazt hugur um það, að þessi mikla fjárveiting til þessara vegaframkvæmda er fram komin fyrir sérstaka brýna þörf til aukinna vegalagninga, og það sýnist því hart að gengið að skera svo mjög niður vegaframkvæmdir í þessum héruðum eins og hér er farið fram á. Ég vil því með þeirri brtt., sem ég nú flyt á þskj. 277, reyna að gera hér nokkra bót á, ef svo færi að mín aðaltill. yrði felld, þannig að ríkissjóður greiði aldrei meira en 4/5 á móts við framlag héraðanna. Er með þessari till. skorið nokkuð af framlagi ríkissjóðs, og þá kannske um leið dregið úr tilhneigingu héraðanna til þess að hafa þetta gjald hærra en allra brýnasta þörf útheimtir. En aftur á móti vil ég með þessari till. láta haldast þann praksis, sem verið hefir í framkvæmd þessara laga, að ekki sé takmarkað upp á við, hvað mikið má leggja til vegalagninga í héruðum, svo að framlag komi á móti úr ríkissjóði. Það helzt því áfram, og geta héruðin því lagt á sig eins þungar byrðar og þeim þóknast, að vísu með leyfi ráðh., og fengið framlag á móti úr ríkissjóði, ekki að vísu jafnmikið, heldur á móti framlagi héraðanna. Þetta finnst mér nægileg skerðing á þessum framkvæmdum í þessum héruðum, þegar á það er að líta, að ákvæði frv. kemur ekkert við hin sýslufélögin, sem minna hafa lagt á sig í þessu augnamiði, sennilega af því að þau hafa haft minni þörf að fullnægja fyrir héraðsbúa.

En það má líka líta á þetta frá öðru sjónarmiði, sem sé því, að þessar vegaframkvæmdir skapa ekki svo litla atvinnu fyrir fólkið í þessum héruðum, sem annars mundi verða að leita út fyrir héraðið til þess að afla sér vinnu. Þetta sýnist mér full ástæða til að taka tillit til, ekki sízt fyrir það, að í sumum þessara héraða er dregið stórkostlega úr vegaframkvæmdum frá því opinbera.

Ég vil því vænta þess, að hv. d. taki þessari till. minni vel, því ég býst við, að mönnum blandist ekki hugur um, að hér er verið að gera hvorttveggja í senn, að rétta héruðunum hjálparhönd til þess að koma á vegaumbótum og skapa atvinnuskilyrði fyrir fólkið í þessum héruðum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál að sinni, en vil þó aðeins benda á það að lokum, að þó hér sé kannske um 26–28 þús. kr. sparnað að ræða á ári, þá er vafasamt, að sá sparnaður nái að vinna upp það tjón, sem af þessu leiðir út um héruðin, bæði hvað snertir heftingu á vegalagningum og atvinnumissi fyrir fólkið.