20.03.1936
Neðri deild: 29. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í C-deild Alþingistíðinda. (2650)

78. mál, áburðarverksmiðja ríkisins

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta frv., af því að þetta mál er flutt í svo að segja alveg sama formi og á síðasta þingi, og gerði ég nokkra grein fyrir því í framsöguræðu þá.

Aðalefni þessa frv. er það, að heimila ríkisstj. að láta stofna og starfrækja hér verksmiðju til framleiðslu á tilbúnum áburði. Samkv. bráðabirgðarannsókn, sem farið hefir fram um þetta mál, viðvíkjandi kostnaði við stofnun og starfrækslu þessarar verksmiðju, er svo að sjá, að unnt sé að reka hér áburðarverksmiðju til vinnslu vissra áburðartegunda, sem standast mundu fyllilega samanburð við samskonar áburð, sem fluttur er nú inn.

Gert er ráð fyrir, að fram fari fullkomin undirbúningsrannsókn viðvíkjandi kostnaði við verkið áður en það verður framkvæmt, og heimilast ríkisstj. að verja til þess 50 þús. kr., sem yrði einn liður stofnkostnaðar fyrirtækisins, ef í það yrði ráðizt, að rannsókn lokinni.

Eins og í grg. getur, liggja nú fyrir skýrslur um mjög ýtarlega rannsókn á þessu máli, frá þeim verkfræðingi, sem haft hefir þær rannsóknir með höndum. Þessar skýrslur liggja fyrir a. n. l. hjá n. og a. n. l. annarsstaðar, en á erlendu máli. Mun nú vera langt komið að þýða þær á íslenzku, og verður þeim útbýtt hér á Alþ. að því loknu. Gefst þá hv. þm. kostur á að kynnast málinu með eigin augum. Ég geri ráð fyrir, að málinu verði ekki það hraðað, að það verði komið úr n., þegar þetta plagg verður lagt fyrir framan hv. þm. Býst ég við að geyma mér frekari umr. um málið þangað til hv. þm. hafa getað kynnt sér þessar skýrslur.

Eftir því sem grennslazt hefir verið um fé til þess að reisa þessa byggingu fyrir, þá virðist ekki vera hörgull á, að hægt sé að fá fé að láni til þessa fyrirtækis með góðum kjörum.

Legg ég til, að máli þessu verði vísað til landbn., að þessari umr. lokinni.